Hoppa yfir valmynd
2. september 2016 Utanríkisráðuneytið

Öryggismál, mannréttindi, flóttamannamál og Brexit rædd í Potsdam

Frank-Walter Steinmeier tekur á móti Lilju Alfreðsdóttur á ÖSE-fundi í Potsdam. - mynd

Flóttamannamál, mannréttindi og staða öryggismála í Evrópu voru meðal umræðuefna á óformlegum fundi utanríkisráðherra ÖSE-ríkja í Potsdam í Þýskalandi sem lauk í gærkvöldi. Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra tók þátt fyrir Íslands hönd ásamt utanríkisráðherrum hátt í fimmtíu annarra ríkja. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sem fer með formennsku í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE.

„Við ræddum málin á breiðum grunni enda eru öryggisáskoranir í Evrópu af ýmsum toga og snerta mannréttindi, öryggis- og afvopnunarmál og efnahags- og umhverfismál, sem eru allt málefni sem ÖSE lætur sig varða," segir Lilja sem lagði sérstaka áherslu á virðingu fyrir mannréttindum í málflutningi sínum.

Þá átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, þar sem rætt var um samskipti ríkjanna og framtíðarmöguleika í samstarfi nú þegar Bretar hafa boðað útgöngu úr Evrópusambandinu.

„Við vorum sammála um að viðhalda og helst styrkja enn frekar samband þessara vinaþjóða, kanna hvaða tækifæri kunni að felast í þeirri stöðu sem upp er komin og tryggja sameiginlega hagsmuni okkar. Ég gerði Boris Johnson grein fyrir mikilvægi þessa stærsta útflutningsmarkaðar Íslands, hvaða valkosti við teldum fýsilegasta og hvernig við hyggjumst vinna málið af okkar hálfu. Hann lýsti yfir miklum áhuga á að heimsækja Íslands og við munum strax hefja undirbúning vegna þess," segir Lilja.

Utanríkisráðherra átti ennfremur tvíhliða fund með Gilbert Saboya Sunyé, utanríkisráðherra Andorra, þar sem Evrópumál voru meginefnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum