Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2018

Fulltrúar Oxfam á fundi með ráðherra þróunarmála

Yfirmenn Oxfam hjálparsamtakanna eiga í dag fund með Penny Mordaunt ráðherra þróunarmála í bresku ríkisstjórninni. Tilefni fundarins hefur ekki farið framhjá neinum því  fjölmargar fréttir hafa birst á síðustu dögum um heim allan þess efnis að starfsmenn samtakanna hafi keypt kynlífsþjónustu þegar þeir voru að störfum á Haítí eftir stóra jarðskjálftann árið 2010.

Samtökin ætla að kynna fyrir ráðherranum ýmsar tillögur til endurbóta en fjölmiðlar í Bretlandi hafa meðal annars haldið því fram að Oxfam hafi reynt að hylma yfir ásakanirnar.

Ráðherrann hefur sagt að ríkisstjórnin gæti gripið til þess að skerða framlög til Oxfam fáist ekki haldbærar skýringar á því hvernig á málinu var tekið innan samtakanna. Í viðtali við BBC í gær, sunnudag, sagði Mordaunt, að hún myndi eiga fund með fulltrúum samtakanna og „þeir fá þá tækifæri til þess að segja við mig augliti til auglitis hvað þeir gerðu í kjölfar þessara atburða, og ég horfi til þess hvort þeir hafi sýnt nauðsynlega siðferðilega leiðsögn.“

Fregnir af ósæmilegri hegðan starfmanna Oxfam á Haítí birtust fyrst síðastliðinn föstudag í dagblaðinu The Times með tilvísun í innanhúss skýrslu frá 2011. Þar var greint frá rannsókn sem meðal annars fól í sér kaup starfsmanna á kynlífsþjónustu. Fjórir starfsmenn voru að rannsókn lokinni reknir frá samtökunum og þremur öðrum gefið tækifæri til að segja upp, að því er fram kom í blaðinu. Blaðið sagði síðan frá því daginn eftir að umræddir starfsmenn hefðu ráðið sig hjá öðrum góðgerðarsamtökum.

Nánar á Devex

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum