Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland býður fram fulltrúa í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna

Stjórnarráðið - myndVelferðarráðuneytið
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu verður í kjöri til nefndarinnar en í henni sitja 18 sérfræðingar og hafa þeir það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur veitt Braga leyfi til eins árs frá embætti forstjóra Barnaverndarstofu en nái Bragi kjöri lætur hann af embætti sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu þar sem áhersla er lögð á að nefndarmenn séu óháðir barnverndaryfirvöldum í einstökum ríkjum SÞ. Staða Braga sem frambjóðanda Íslands er talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.

Kosið er í nefndina á tveggja ára fresti, níu fulltrúar í hvert sinn. Hver fulltrúi er kosinn til fjögurra ára í senn. Næsta val fulltrúa í nefndina fer fram þann 29. júní næstkomandi. Utanríkisráðuneytið mun stýra kosningabaráttu vegna framboðs fulltrúa Íslands með milligöngu fastanefndarinnar í New York.

Norðurlöndin telja mikilvægt að eiga rödd á vettvangi Barnaréttarnefndarinnar og síðastliðin átta ár hefur Noregur átt þar fulltrúa; Kirsten Sandberg, lögfræðing og sérfræðing í réttindum barna. Hún mun ekki gefa kost á sér áfram og hingað til hefur ekkert Norðurlandanna skilað inn framboði. Frestur til þess rennur út í lok apríl.

Samhliða undirbúningi vegna framboðs síns mun Bragi sinna afmörkuðum verkefnum í velferðarráðuneytinu sem snúa að tilteknum áherslumálum ráðherra í málefnum barna samkvæmt samningi þar að lútandi. Er þar einkum horft til þess að tryggja börnum og fjölskyldum þeirra sem skjótasta íhlutun og stuðla að heildstæðri nálgun og samfellu þjónustunnar þannig að hún mæti sem best þörfum barna og fjölskyldna hverju sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum