Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Ríkislögreglustjóri leiðir starfshóp innanríkisráðherra um kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi

Jón Gunnarsson innanríkisráðherra og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri - mynd

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra hefur falið Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra að leiða starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti.  Skal hópurinn styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þar á meðal í formlegri þjónustu við þolendur kynferðisbrota. Starfshópurinn mun einnig standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu.

Kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota fjölgaði um 24% frá 2020 til 2021. Heimilisofbeldismál af hendi maka eða fyrrum maka síðustu tvö árin hafa aldrei verið fleiri skv. málaskrá lögreglunnar, eða í kringum 750 talsins bæði árin.  Áhrifaríkustu aðferðirnar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi eru virkar forvarnir, vitundarvakning og þróun á þverfaglegri samvinnu lögreglu við aðra lykilaðila.  Lögð er áhersla á slíkt í hinum ýmsu aðgerðaáætlunum stjórnvalda gegn ofbeldi og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi kjörtímabil.

Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra: „Til þess að ná alvöru tökum á kynferðisbrotum verður að virkja samfélagið.  Við berum öll ábyrgð á að uppræta það mein sem kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi er í íslensku samfélagi.  Best væri að brotin ættu sér aldrei stað og virkar forvarnir og vitundarvakning eru lykilþættir í að stuðla að því. Þegar brotin eiga sér hins vegar stað þurfum við að þróa samvinnu lögreglu og annarra lykilaðila til að styðja sem best við þolendur."

Í vinnu hópsins verður hugað sérstaklega að viðkvæmum hópum fólks sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Lagt er fyrir starfshópinn að gæta að samræmi við tillögur aðgerðaáætlana stjórnvalda í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og skal starfshópurinn leggja áherslu á viðtækt samráð innan þess sviðs.

Aðrir fulltrúar í starfshópnum eru Guðfinnur Sigurvinsson, verkefnastjóri, Hildur Sunna Pálmadóttir frá dómsmálaráðuneyti og Eygló Harðardóttir hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Starfshópurinn hefur þegar tekið til starfa og er skipunartími hans til 31. desember 2022. Skal hópurinn skila af sér reglulegum áfangaskýrslum til ráðherra, ásamt lokaskýrslu um árangur af störfum hópsins í desember 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum