Hoppa yfir valmynd
3. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Kvenfrumkvöðlar forsenda þess að hugvitið verði stærsta útflutningsgreinin

Ljósmynd: Framvís - mynd

Árið 2021 fóru einungis 2% af heildarfjárfestingum vísisjóða til kvennateyma á meðan 45% fóru til karlateyma. Alls fór 53% fjármagnsins til blandaðra teyma. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá KPMG sem kynnt var á ráðstefnu  um jafnrétti í nýsköpun en greiningin vakti athygli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem hélt erindi á ráðstefnunni.

Í ræðu sinni tók Áslaug Arna fram að eigi framtíðarsýn hennar um að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein Íslendinga að verða að veruleika þá verði að virkja öll kyn og alla þjóðfélagshópa til nýsköpunar- og frumkvöðlastarfs. Einna mestu máli skipti að fjölga konum sem sækja í nýsköpun en mjög misjafnt væri hvernig kynin nýttu sér umfangsmikið stuðningskerfi nýsköpunar hér á landi.

Jákvæð þróun hefur verið á síðustu árum þegar kemur að jafnri skiptingu kynjanna í fjárfestingaráðum og – stjórnum vísisjóða. Þannig er hlutfall karla og kvenna fremur jafnt og er það í takt við góðan árangur Íslands í kynjajafnrétti. T.a.m. sýna niðurstöður Reykjavík Index að íslenska þjóðin treystir konum betur til að gegna leiðtogastöðum en allar aðrar þjóðir. Þá voru konur í forsvari fyrir 45% verkefna sem hlutu styrk úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina árið 2021, hlutur kvenna í fjárfestingum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hefur farið vaxandi og nam um 30% árið 2021 og konur voru í forsvari í tveimur af þremur vísisjóða sem fengu úthlutun úr Kríu – sprota-og nýsköpunarsjóði sem hóf starfsemi á síðasta ári.

Blandaðir hópar sækja í sig veðrið

Ávallt er þó tækifæri til að bæta stöðuna líkt og nýjar tölur í skýrslu KPMG sýna. Skýrslan verður birt í heild sinni á næstu vikum og í henni er sláandi munur á hlutföllum fjárfestinga vísisjóða milli kynja. Í skýrslunni kemur fram að fjárfesting í kvennateymum nam um 11-12% af fjárfestu fjármagni frá vísisjóðum á árunum 2019-2020 á meðan 60-73% féll í hlut karlateyma. Á liðnu ári féll hlutfall fjárfestinga í kvennateymum niður í aðeins 2% og karla í 45%. Á sama tíma vekur athygli að um 53% af heildarfjármagni fór til blandaðra teyma, sem er tvöföldun á því sem sést hefur árin þar a undan. Þrátt fyrir þessa aukningu bárust einungis 18% af kynningum til vísisjóðanna frá blönduðum teymum. Gögn KPMG sýna skýrt að hlutfallslega leita of fá kvennateymi til vísisjóða og endar of lágt hlutfall fjárhæða fjárfestinga hjá kvennateymum. Greina þarf hvað veldur og hvaða aðgerðir þarf að ráðast í til að hvetja og efla kvennateymi í nýsköpunarheiminum.

Til þess að ná betri árangri í vegferð að jafnrétti nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi segir ráðherra að þörf sé á að skoða ferlið í heild og endurskoða úthlutunarreglur og umhverfi nýsköpunar. Þá sé ekki aðeins mikilvægt að sækjast eftir jöfnum hlutföllum kynjanna þegar kemur að fjölbreytni í þátttöku í nýsköpun og fjárfestingum. Einnig þarf að líta til mismunandi aldurshópa, þjóðernis, uppruna og samfélagslegra aðstæðna svo sem flestar raddir bætist í hópinn og stuðli að meiri árangri með aukinni fjölbreytni í nýsköpun og þróun og fjárfestingum því tengdu. „Á síðasta ári fóru 30 milljarðar króna frá hinu opinbera í rannsóknir og nýsköpun hér á landi í gegn um sjóði, skattafráfrátt, stuðning við alþjóðasamstarf og önnur verkefni tengd nýsköpun,“ segir Áslaug Arna. „Þetta eru fjármunir sem eiga að standa öllum til boða sem brenna fyrir nýjum hugmyndum og ætla að láta hugmyndir sínar verða að veruleika með það að markmiði að gera heiminn örlítið betri“.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum