Hoppa yfir valmynd
30. júní 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Stórurð og hluti Dyrfjallaeldstöðvar friðlýst — boðið til göngu í tilefni friðlýsingar

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, mun undirrita friðlýsingu  jarðanna Hrafnabjarga, hluta Sandbrekku, Unaóss og Heyskála á Úthéraði á föstudag. Innan verndarsvæðisins er náttúruvættið Stórurð. 

Undirritunin fer fram í upphafi gönguferðar að Hrafnabjörgum sem Ferðafélag Fljótsdalshéraðs stendur fyrir. Gangan hefst kl. 15 og verður gengið frá bökkum Selfljóts í landi Hrafnabjargar.

Svæðið sem friðlýst verður nú er hluti af þyrpingu eldstöðva sem teljast meðal þeirra elstu á Austfjörðum. Fjöll, klettar og björg, víkur og tangar setja mikinn svip á það og víða má sjá berghlaup og grjótjökla. Frægast þeirra er Stórurð undir Dyrfjöllum. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita sérstæðar jarðminjar og sérstætt landslag á svæðinu og standa vörð um líffræðilega fjölbreytni svæðisins með verndun vistkerfa

Öll eru velkomin í gönguna og er þátttaka ókeypis. Gönguleiðin er afar falleg og liggur inn Urðirnar eftir gömlum sýsluvegi inn með Selfljóti að Hrafnabjörgum. Gangan inn að Hrafnabjörgum tekur um 45 mínútur með leiðsögn.  Fararstjóri verður Þórdís Kristvinsdóttir hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs.

Boðið verður upp á sætaferðir frá húsnæði Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum kl. 14:15 og er heimferð áætluð kl. 18:00. Sætaframboð er takmarkað og þurfa skráningar í rútuferðina berast á netfangið [email protected] fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 1. júlí.

Viðburður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira