Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Athugasemdir vegna yfirlýsingar framkvæmdastjóra Heilsustofnunarinnar í Hveragerði

Velferðarráðuneytið gerir athugasemdir við yfirlýsingar framkvæmdastjóra Heilsustofnunarinnar í Hveragerði um samskipti við ráðuneytið og stöðu samningamála við stofnunina. Framkvæmdastjórinn fór frjálslega með staðreyndir í frétt Ríkisútvarpsins um málið í dag.

Í fréttinni segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri heilsustofnunarinnar að öllu starfsfólkinu verði sagt upp um næstu mánaðamót að óbreyttu, náist ekki samningar. Hann kvartar undan því að stofnunin hafi ekki fengið svokallað sólarlagsákvæði um framlengingu gildandi samnings þar til nýr náist sem hann fullyrðir flestir hafi fengið, en að ráðherra hafi ekki ljáð máls á því. Þá segir í fréttinni að engar samningaviðræður séu í gangi við stofnunina og er haft eftir Ólafi að ráðherra hafi lofað að samningaviðræður myndu hefjast eftir verslunarmannahelgina en af því hafi ekki orðið. Í fréttinni segir enn fremur að Ólafur hafni þeirri skilgreiningu ráðuneytisins að Heilsustofnunin sé utan heilbrigðiskerfisins og loks segir hann stofnunina vera í vandræðum með ráðuneytið vegna þess að; „það svarar okkur ekki.“

Athugasemdir ráðuneytisins:

  • Þann 4. júlí síðastliðinn átti velferðarráðherra fund með Ólafi Sigurðssyni framkvæmdastjóra heilsustofnunarinnar, Gunnlaugi K. Jónssyni, forseta Náttúrulækningafélags Íslands sem á heilsustofnunina, þingmönnum kjördæmisins og embættismönnum. Þar gerði ráðherra grein fyrir afstöðu sinni varðandi endurskoðun samningsins. Jafnframt lýsti hann því yfir að framlög til stofnunarinnar á næsta ári verði ekki skert umfram það sem fyrirhugað er hjá heilbrigðisstofnunum ráðuneytisins og sitji þannig við sama borð og þær. Það kemur því á óvart að stofnunin telji nauðsynlegt að grípa til hópuppsagna við þessar aðstæður. Hvernig stofnunin hagar starfsmannamálum sínum er á hennar ábyrgð.
  • Ráðuneytið hefur komið því skýrt á framfæri við forsvarsmenn Heilsustofnunarinnar í Hveragerði að ráðuneytið telur nauðsynlegt að endurskoða og skýra innihald þeirrar þjónustu sem ráðuneytið vill kaupa af stofnuninni, líkt og eðlilegt er í samningum við sjálfseignarstofnanir.
  • Hvorki ráðuneytinu né Sjúkratryggingum Íslands er kunnugt um sólarlagsákvæði í samningum sem framkvæmdastjóri heilsustofnunarinnar fullyrðir að flestir hafi fengið og veit ekki til hvers hann vísar þar. 
  • Það er fjarri lagi að ráðuneytið svari ekki forsvarsmönnum Heilsustofnunarinnar í Hveragerði. Ráðuneytið hefur átt í miklum samskiptum við stofnunina í allt sumar, símleiðis og með tölvupóstum, auk fundarins með forsvarsmönnum hennar sem vísað er til hér að framan.
  •  Sjúkratryggingar Íslands fara með samningsumboð gagnvart Heilsustofnuninni í Hveragerði. Ráðuneytið vinnur að því að skilgreina samningsmarkmið þannig að formlegar viðræður geti hafist milli Sjúkratrygginga Íslands og Heilsustofnunarinnar. Samhliða þeirri vinnu hefur ráðuneytið kappkostað að halda forsvarsmönnum stofnunarinnar upplýstum um framvindu málsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira