Hoppa yfir valmynd
2. september 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Morgunverðarfundur um áhættuhegðan ungra ökumanna

Slysavarnaráð og Umferðarráð efna til morgunverðarfundar um áhættuhegðan ungra ökumanna þriðjudaginn 9. september klukkan 8.20 til 10. Á fundinum flytja tveir hollenskir sérfræðingar erindi og einn íslenskur og Kristján L. Möller samgönguráðherra ávarpar fundinn í upphafi.


Fyrst tekur til máls Divera Twisk, erindið sem hún flytur nefnist „Young drivers: the road to safety - Recommendations from the OECD International Expert Group“.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þá nálgun sem nefndinni þótti vænleg til árangurs og hvernig koma megi þeim í framkvæmd. Nefndin komst einnig að því að ákveðnar reglur og leiðir sem ætlað er að draga úr þessum vanda eru ekki áhrifaríkar og sumar jafnvel skaðlegar.

Divera Twisk er verkefnisstjóri rannsókna á mannlegri hegðun hjá SWOV, stofnun um umferðarrannsóknir í Leidschendam. Stofnunin er þverfagleg rannsóknarstofnun sem hefur að markmiði að efla öryggi á vegum úti með stuðningi vísindalegra rannsókna. Helstu rannsóknaráherslur Diveru Twisk eru mynstur slysa, ungir ökumenn og námsferli þeirra auk nálgana sem skoða mannlega þætti. Divera Twisk situr í fjölmörgum alþjóðlegum nefndum er varða umferðaröryggi.

Næsti fyrirlesari er Willem Vlakveld. Erindi hans nefnist „Why do young novice drivers have such a high crash rate?“

Fjölmargar ástæður liggja á bak við háa slysatíðni ungra ökumanna. Meðal þeirra er hæfni til að meta eigin getu og einnig hvernig einstaklingurinn skynjar áhættu. Undirliggjandi þættir voru settir fram í eftirfarandi þyrpingar; 1) aldur, kyn og þroski í heilastarfsemi, 2) menntun, þjálfun og lífstíll, 3) skert hæfni í akstri; áfengi, ólögleg vímuefni, en einnig; þreyta, tilfinningar og truflanir, 4) skynjun, greining aðstæðna, ákvarðanataka og 5) bílnotkun.

Willem Vlakveld starfar einnig hjá SWOV í Leidschendam. Helstu rannsóknarefni hans eru ungir ökumenn, ökukennsla, áhrif refsipunkta og rannsóknir á áhættuskynjun og þjálfun. Vlakveld starfaði áður sem ráðgjafi varðandi öryggi á vegum í samgönguráðuneyti Hollands.

Síðasti fyrirlesari er Holger Torp, verkefnastjóri ökunáms hjá Umferðastofu, og hann segir frá námskeiði vegna akstursbanns og árangur af því.

Ökumenn sem hafa bráðabirgðaskírteini fara í akstursbann fái þeir fjóra refsipunkta eða fleiri í ökuferil, og verða að ljúka sérstöku námskeiði og endurtaka ökupróf til að fá ökuskírteini að nýju. Sama á við um þá ungu ökumenn sem fá sviptingu af einhverju tagi, þeir þurfa líka að sitja þetta sérstakt námskeið og endurtaka ökuprófið.

Fundurinn fer fram á Grand hóteli við Sigtún og verður salurinn opnaður klukkan 8 með morgunverðarhlaðborði. Skráning fer fram í gegnum vef Lýðheilsustöðvar www.lydheilsustod.is/skraning og þátttökugjald er 2000 krónur. Frestur til að skrá sig er til klukkan 12 á hádegi mánudaginn 8. september.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira