Hoppa yfir valmynd
1. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu 3. október

Haustlauf
Haustlauf

Velferðarráðuneytið stendur fyrir norrænni ráðstefnu um samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu á Nauthól 3. október undir yfirskrifinni; Ný hugsun og þróun heimaþjónustu í hinum vestræna heimi. Bein útsending verður frá ráðstefnunni á vefnum.

Aldurssamsetning þjóða breytist hratt þar sem öldruðum fjölgar og hlutfall þeirra af heildarfjölda íbúa verður sífellt hærra. Íslendingar 70 ára og eldri eru nú rúmlega 29.000. Eftir tuttugu ár verða þeir um tvöfalt fleiri.

Heimaþjónusta er ætluð fólki á öllum aldri sem þarf á henni að halda, en aldraðir eru stærsti notendahópurinn. Þessi þjónusta verður æ mikilvægari og miklu skiptir að leysa hana sem best af hendi þannig að hún sé sem árangursríkust. Þetta er viðfangsefni ráðstefnunnar 3. október.

Lausnir í stað vandamála

Við eigum að sjá lausnir í stað „vandamála“ segir Virpi Timonen, prófessor við Trinity College í Dublin, sem flytur erindi á ráðstefnunni þar sem hún fjallar um væntingar, strauma og mótsagnir við stefnumótun í þjónustu við aldraða. Virpi er fyrst á mælendaskrá eftir að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur sett ráðstefnuna með ávarpi kl. 9.00. Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent við Háskóla Íslands, fjallar um formlega og óformlega þjónustu við aldraða í heimahúsum og loks segir Kristín Björnsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, frá ávinningi og annmörkum við samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu samkvæmt niðurstöðum vettvangsrannsóknar í Reykjavík.

Að loknum hádegisverði segir Karen Heebøll, framkvæmdastjóri velferðarsviðs Fredericia í Danmörku, frá verðlaunaverkefni sveitarfélagsins á sviði öldrunarþjónustu í fyrirlestri sem ber yfirskriftina; Sem lengst við stjórnvölinn í eigin lífi. Sigrún Ingvarsdóttir deildarstjóri fjallar að því búnu um Heimaþjónustu Reykjavíkur; áskoranir, hindranir, árangur og gæðamat, Hera Ósk Einarsdóttir, staðgengill félagsmálastjóra, segir frá samþættri þjónustu á grundvelli þarfa í Reykjanesbæ og Anna Marit Níelsdóttir, verkefnastjóri hjá búsetudeild Akureyrarbæjar, flytur erindi sem fjallar um rekstur félagsþjónustu og heilsugæslu á einni hendi og áhrif þess á stuðning við fólk á heimili sínu.

Lokaorð ráðstefnunnar flytur Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu, fyrir hönd heilbrigðisráðherra.

Erindi á ráðstefnunni verða flutt á ensku og skandinavísku.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum