Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Norræn ráðstefna um geðheilsu barna og unglinga

Norræn ráðstefna um eflingu geðheilbrigðis og forvarnir gegn geðrænum vanda meðal barna og unglinga verður haldin miðvikudaginn 8. október 2014 á Nauthól í Reykjavík. Ráðstefnan ber heitið „Geðheilsa og vellíðan barna og unglinga: Stefna og framtíðarsýn á Norðurlöndum" og er haldin í samstarfi velferðarráðuneytisins og Embættis landlæknis. Hún er hluti af röð viðburða á vegum ráðuneytisins í tengslum við formennskuár Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Markmið ráðstefnunnar er að kalla saman sérfræðinga og þekkingaraðila á sviði geðræktar, geðheilsuforvarna og stefnumótunar á sviði geðheilsu barna og unglinga til að ræða og vekja athygli á stöðu þessara mála á Norðurlöndum. Efni ráðstefnunnar mun einnig nýtast við mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar sem unnið er að í samræmi við ályktun Alþingis sem samþykkt var í janúar 2014.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru Arne Holte, prófessor við Óslóarháskóla, og Jonathan Campion sem meðal annars hefur starfað sem ráðgjafi breska heilbrigðisráðuneytisins á sviði geðheilbrigðismála.

Dr. Holte er aðstoðarframkvæmdastjóri norsku Lýðheilsustofnunarinnar og prófessor í heilsusálfræði við Óslóarháskóla. Hann er þekktur fyrir störf sín á sviði geðheilbrigðismála og hefur gegnt margvíslegum stöðum á því sviði bæði í sínu heimalandi og innan Evrópusambandsins.

Dr. Campion er geðlæknir og yfirmaður lýðgeðheilsu hjá UCL Partners og South London and Maudsley NHS Foundation Trust í Bretlandi. Hann er einnig gestaprófessor við University College London. Hann hefur tekið þátt í þróun og innleiðingu geðheilbrigðisáætlunar Bretlands og er sérstakur ráðgjafi um stefnumótun og geðheilbrigðisáætlanir við Royal College of Psychiatrists, þar sem hann var aðalhöfundur stefnuyfirlýsingar um lýðgeðheilsu.

Bein útsending verður frá ráðstefnunni á vef velferðarráðuneytisins.

Dagskrá ráðstefnunnar, upplýsingar um skráningu og nánari upplýsingar um aðalfyrirlesarana eru birtar á vef Embættis landlæknis.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira