Hoppa yfir valmynd
22. maí 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 86/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. maí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 86/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010016

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. janúar 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2019, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Af greinargerð má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 27. mars 2018. Lauk málsmeðferð hans með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 6. nóvember 2018, en með úrskurðinum var umsókn hans um alþjóðlega vernd synjað um efnismeðferð. Var kærandi fluttur til Grikklands þann 16. janúar 2019. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi að nýju þann 1. febrúar 2019. Lauk málsmeðferð hans með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 9. maí 2019, en með úrskurðinum var umsókn hans um alþjóðlega vernd synjað um efnismeðferð. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi fluttur til Grikklands þann 28. ágúst 2019.

Kærandi lagði í þriðja sinn fram umsókn um alþjóðlega vernd þann 12. september 2019. Útlendingastofnun ákvað þann 18. september 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar. Var kæranda veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið og athygli hans vakin á því að ef hann yfirgæfi ekki landið innan veitts frests væri heimilt að brottvísa honum. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann sama dag og kærði kærandi ákvörðunina þann 27. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Þann 5. desember 2019 staðfesti kærunefnd fyrrgreinda ákvörðun Útlendingastofnun og var úrskurður kærunefndar birtur fyrir kæranda þann 9. desember 2019. Í úrskurði kærunefndar var lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið og honum veittur sjö daga frestur til þess. Var athygli kæranda vakin á því að ef hann yfirgæfi ekki landið innan frests kynni að vera heimilt að brottvísa honum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2019, var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til Íslands í tvö ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 9. janúar 2020 og þann 16. janúar sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 30. janúar sl. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 5. febrúar sl. féllst kærunefndin á þá beiðni.

Þann 4. febrúar sl. óskaði kærandi eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 5. desember 2019. Með úrskurði kærunefndar nr. 182/2020, dags. 20. maí sl., féllst nefndin á að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. september 2019 felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2019, sem staðfest hefði verið með úrskurði kærunefndar útlendingamala þann 5. desember 2019. Ljóst væri að kærandi hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að brottvísun kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Bæri Útlendingastofnun, að teknu tilliti til ákvæða 102. gr. laga um útlendinga, að vísa kæranda á brott skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laganna. Var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til landsins í tvö ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með vísan til aðstæðna í Grikklandi en atvinnumöguleikar þar séu af skornum skammti, félagsleg aðstoð bág og þá sé gríðarlega erfitt að fá húsnæði. Vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings. Þá byggir kærandi á því að brottvísun hans frá landinu fari gegn meginreglunni um non-refoulement, sem sé lögfest í 42. gr. laga um útlendinga, sem og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem Ísland sé aðili að og hafi skuldbundið sig til að fylgja að þjóðarétti. Jafnframt hafi kærandi myndað ákveðin tengsl við landið, en hann sé nú hér á landi í þriðja sinn vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Með úrskurði kærunefndar, dags. 20. maí 2020, féllst nefndin á að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. úrskurð kærunefndar frá 5. desember 2019. Var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. september 2019 felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Líkt og áður greinir tók Útlendingastofnun ákvörðun um brottvísun kæranda frá landinu þann 19. desember 2019 á grundvelli þess að kærandi hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. úrskurð kærunefndar frá 5. desember 2019. Með hliðsjón af framangreindu hefur grundvöllur brottvísunar breyst verulega enda er umsókn kæranda um alþjóðlega vernd nú til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2019, því felld úr gildi.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                      Daníel Isebarn Ágústsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum