Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 359/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 359/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070041

 

Beiðni […] um endurupptöku og frestun réttaráhrifa

 

I.          Málsatvik

Þann 14. júní 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. apríl 2018 um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Spánar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 18. júní 2018. Þann 30. júlí sl. barst beiðni kæranda um endurupptöku málsins og frestun réttaráhrifa, ásamt greinargerð og fylgigögnum.

Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að kærunefnd feli Útlendingastofnun að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá krefst kærandi þess að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá kærunefnd með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Er í því samhengi einkum vísað til 6. tölul. 3. gr., 2. mgr. 23. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga auk 10. gr. stjórnsýslulaga. Er fjallað um inntak og túlkun þessara ákvæða og hvaða þýðingu þau eigi að hafa við meðferð og úrlausn mála.

Kærandi telur að við úrlausn máls hans hjá kærunefnd hafi nefndin ekki gætt nægilega að rannsóknarskyldu sinni með því að óska ekki eftir áliti eða aðstoð viðeigandi sérfræðinga við einstaklingsbundna greiningu á því hvort kærandi hafi talist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi bendir m.a. á að fram komi í áðurnefndum úrskurði að kærunefnd hafi óskað eftir frekari heilsufarsupplýsingum um hann og hafi nefndin þannig talið þörf á að afla frekari gagna um heilsufar kæranda. Þau gögn sem hafi borist hafi þó ekki varpað ljósi á það atriði og að mati kæranda sé óásættanlegt að nefndin hafi látið þar við sitja og tekið málið til úrskurðar.

Kærandi vísar til gagna sem fylgdu með beiðni um endurupptöku. Annars vegar vísar kærandi til gagna sem þegar hafi legið fyrir hjá kærunefnd við úrlausn á máli hans en hins vegar sé um að ræða nýtt gagn, þ.e. samskiptaseðil, dags. 11. júlí 2018, frá sálfræðingi á Göngudeild sóttvarna. Í því gagni komi fram að kæranda líði miklu verr án þess að því fylgi nokkur frekari greining. Að mati kæranda bendi þessar upplýsingar til þess að andleg heilsa kæranda sé svo slæm að nauðsynlegt sé að fá mat sálfræðings eða geðlæknis á því hvernig andleg heilsa hans hafi áhrif á almenna getu hans í daglegu lífi og til þess að gæta hagsmuna hans. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. 410/2017 frá 11. júlí 2017.

Þá vísar kærandi í greinargerð jafnframt til lagaáskilnaðarreglu sem fram komi í 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögmætisreglunnar og bendir m.a. á að tiltekin skilyrði í reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, skorti lagastoð. Kærandi vísar einnig til orðasambandsins sérstakar ástæður sem kemur fram í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og telur með hliðsjón af lögskýringargögnum að túlkun íslenskra stjórnvalda á því hvað geti talist til sérstakra ástæðna sé ekki á rökum reist. Röng lagatúlkun kunni að leiða til endurupptöku máls. Endurupptökubeiðni kæranda sé þó eingöngu reist á 24. gr. stjórnsýslulaga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 14. júní 2018. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Spánar bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. kærandi hefðu ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku einkum á því að í áðurnefndum úrskurði hafi nefndin ekki kannað atriði er varða heilsufar kæranda með fullnægjandi hætti og þá liggi gögn fyrir í málinu sem hafi þýðingu. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á þeim úrskurði og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ.e. samskiptaseðla, dags. frá 1. febrúar til 11. júlí 2018. Flest þau gögn lágu þegar fyrir við úrlausn málsins hjá kærunefnd og hefur nefndin því þegar tekið afstöðu til þeirra, fyrir utan samskiptaseðla dags. 4. júní til 11. júlí 2018 sem ekki lágu fyrir. Í þeim kemur m.a. fram að kærandi hafi haft þunglyndiseinkenni, taki lyf, glími við hugsanlegt ofnæmi, húðvandamál og líði verr vegna brottvísunar til Spánar. Telur kærunefnd að framangreindar upplýsingar séu nýjar en þó þess eðlis að þær geti ekki breytt fyrra mati nefndarinnar.

Þá telur kærunefnd að sjónarmið kæranda um að nefndin hafi ekki kannað heilsufar hans með fullnægjandi hætti í áðurnefndum úrskurði eigi ekki við rök að styðjast. Nefndin byggði úrlausn sína á þeim gögnum sem lágu fyrir við meðferð málsins og var talið að þau gæfu nægilega skýra mynd af atriðum er varða heilsufar kæranda. Til að mynda lagði Útlendingastofnun skimunarlista fyrir kæranda í kjölfar þess að hann greindi frá andlegum veikindum sínum í viðtali hjá stofnunni þann 27. febrúar sl. Með vísan til samskiptaseðils, dags. 9 mars sl. þar sem fram komi að kærandi hefði óskað eftir að fá úthlutaðan tíma hjá sálfræðingi, sendi kærunefnd tölvupóst þann 5. júní sl. til talsmanns kæranda þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort sá tími hefði farið fram eða hvort frekari læknisfræðileg gögn lægju fyrir í málinu. Kærandi óskaði sjálfur eftir slíkum tíma og með áðurnefndum tölvupósti veitti nefndin kæranda aðeins tækifæri á að leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings.

Vegna athugasemdar í greinargerð talsmanns áréttar kærunefnd sérstaklega að leiðbeiningar til kæranda um leggja fram frekari gögn felur ekki í sér afstöðu nefndarinnar til þess að verulegur annmarki hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar á málinu. Þá telur nefndin rétt að árétta að kærunefnd, sem úrskurðaraðili á kærustigi, hefur allar sömu heimildir og lægra setta stjórnvaldið til að taka ákvörðun í málinu. Þótt rannsókn á lægra stjórnsýslustigi sé ábótavant getur æðra stjórnvaldið í mörgum tilvikum bætt úr þeim annmarka í kærumeðferðinni.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni um endurupptöku, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 14. júní sl. hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Með beiðni kæranda um endurupptöku var jafnframt óskað eftir frestun réttaráhrifa með vísan til 29. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd vekur athygli á að 29. gr. stjórnsýslulaga fjallar um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar og mögulega frestun réttaráhrifa vegna stjórnsýslukæru. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar kveðið upp úrskurð í máli kæranda sem felur í sér endanlega niðurstöðu í máli þeirra á stjórnsýslustigi. Kemur því ekki til skoðunar að veita frestun réttaráhrifa á grundvelli þessa ákvæðis.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa er vísað frá.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

The request to suspend legal effects is dismissed.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

 

                Anna Tryggvadóttir                                                                                                       Erna Kristín Blöndal

                                                              

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum