Hoppa yfir valmynd
18. mars 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Greining á framtíðarþróun þjónustu Landspítala til ársins 2040

Landspítali - myndHeilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðuneytið birtir skýrslu með greiningu á framtíðarþjónustu Landspítala til ársins 2040. Frá því að bygging nýs Landspítala hófst fyrir rúmum áratug hafa orðið margvíslegar breytingar í umhverfi heilbrigðisþjónustunnar. Þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu mun samhliða breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar halda áfram að vaxa á komandi árum. Það er því nauðsynlegt fyrir Landspítala að greina þörfina til að geta sinnt kjarnahlutverki sínu betur, í samspili við aðra þjónustuveitendur, til þess að mæta þeim áskorunum sem framundan eru.

Heilbrigðisráðuneytið fékk alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey til að annast greiningarvinnuna að undangengnu útboði. Tveir vinnuhópar skipaðir sérfræðingum víðsvegar að úr heilbrigðisþjónustunni komu að verkefninu, auk þess sem skipaður var stýrihópur yfir því með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, Landspítala og Nýs Landspítala ohf.

„Skýrslan með niðurstöðum þeirrar umfangsmiklu greiningarvinnu sem hér er birt kemur á réttum tíma fyrir verkefnin sem eru fram undan, til að styrkja og styðja við framtíðarhlutverk Landspítala á komandi árum. Hún er einnig mikilvægt verkfæri við stefnumörkun stjórnvalda um að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað innan heilbrigðiskerfisins með gæði, mönnun og skilvirk innkaup að leiðarljósi“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. 

Helstu áskoranir og mótvægisaðgerðir

Í megindráttum eru helstu áskoranirnar framundan flutningur langtímaumönnunarsjúklinga frá Landspítalanum í önnur  viðeigandi úrræði, tilflutningur ýmissa annarra verkefna frá spítalanum á viðeigandi þjónustustig, umbætur í rekstri, þróun í innleiðingu nýjunga og stafrænum lausnum, aukin rannsóknarstarfsemi og aukin áhersla á forvarnir og aðgerðir til að efla lýðheilsu.  Ef ekkert er að gert þá verður þörfin fyrir legurými árið 2040 u.þ.b. helmingi meiri en spítalinn getur annað. Aftur á móti verði með mótvægisaðgerðum sem lagðar eru til í skýrslunni hægt að mæta eftirspurnarþróuninni með fjölda legurýma á nýjum spítala við Hringbraut.

Samkvæmt úttektinni er núverandi framleiðni spítalans sambærileg og á öðrum sjúkrahúsum á Norðurlöndunum, hvort sem horft er til framleiðni lækna eða hjúkrunarfræðinga. Samanburður við sænsk heilbrigðisumdæmi bendir til þess að um 4% af fjármunum sjúkrahússins sé varið í fyrsta stigs þjónustu. Með því að veita þessa þjónustu innan heilsugæslunnar myndi heimsóknum á dag- og göngudeildir spítalans fækka um 12% og mannaflaþörf spítalans dragast saman um 2%.

Í skýrslunni  kemur fram að nýting legurýma á Landspítala er verulega yfir æskilegum viðmiðum (85 til 90%), eða um 97% að jafnaði og á sumum deildum yfir 100%. Aftur á móti er nýting á skurðstofum fremur lág, eða um 56% sem bendir til að þar séu sóknarfæri.

Með umbótum í rekstri og aukinni áherslu á stafrænar heilbrigðislausnir er áætlað að Landspítali gæti náð 1,3 til 2,5% framleiðniaukningu á næstu áratugum og minnkað þörf fyrir legurými um allt að 24%.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum