Hoppa yfir valmynd
15. desember 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aðildarríki Loftslagssamningsins færi sig frá notkun jarðefnaeldsneytis

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, staðfesti þátttöku Íslands í CMC kolefnisáskoruninni á COP28. - mynd

Á loftslagsráðstefnunni COP 28 sem haldin var í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum dagana 30. nóvember – 12. desember sl., var samþykkt að aðildarríki Loftslagssamningsins (UNFCCC) færi sig frá notkun jarðefnaeldsneytis í orkukerfum á réttlátan og skynsamlegan máta, svo hraða megi loftslagsaðgerðum og kolefnishlutleysi náist fyrir 2050. Þetta kom fram í minnisblaði sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði fram á fundi ríkisstjórnar í morgun.  

Á ráðstefnunni var einnig gengið frá stofnun sérstaks loftslagshamfarasjóðs, samhliða því sem tilkynnt var um fyrstu framlög í sjóðinn. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi frá því í ávarpi sínu á leiðtogafundi í upphafi þingsins að Ísland yrði stofnaðili að sjóðnum og muni leggja 80 milljónir króna þar inn á komandi ári.

Áhersla á orkulausnir, jarðhita og nýsköpun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sótti þingið dagana 4. – 8. desember og tók þátt í fjölmörgum viðburðum um orku- og loftslagsmál. Auk þess sem ráðherra átti fundi með fyrirtækjum og ráðamönnum þar sem rætt var um ýmsar orkulausnir, þar sem jarðhiti var ofarlega á blaði, sem og ýmsar grænar nýsköpunarlausnir. Meðal viðburða sem ráðherra tók þátt í voru tveir viðburðir um mikilvægi jafnréttismála í grænni umbyltingu og um þróun grænna starfa. Einnig tók hann þátt í pallborði um góðan árangur í rafbílavæðingu svo dæmi séu tekin.  

Guðlaugur Þór segir stór skref hafa verið stiginn með samkomulaginu sem náðist á COP28 um að ríki heims leggi sitt að mörkum við að færa sig úr jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa með sanngjörnum og skipulögðum hætti. 

„Niðurstöður fundarins eru að vissu leyti sögulegar. Brotið var blað með því að taka fram beinum orðum mikilvægi þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og þá var ítrekað mikilvægi grænnar orkuöflunar og að flýta þurfi grænum umskiptum. Einnig var ánægjulegt að sjá metfjölda íslenskra fyrirtækja taka þátt í ráðstefnunni. Íslenskar lausnir og hugvit geta skipt máli á heimsvísu og því mikilvægt að atvinnulífið taki þátt og að við kynnum okkar sérþekkingu og lausnir um heim allan,“ sagði Guðlaugur Þór.

Þá staðfesti Ísland á COP 28, þátttöku sína í fjölda yfirlýsinga, m.a. um: 

  • Heilsu og loftslagsmál (Declaration on Health
  • Kolefnisstjórnun (Carbon management challenge
  • Endurnýjanlegt eldsneyti og orkunýting (Global Renewables and Energy Efficiency Pledge
  • Matvæli og landbúnaður (Resilient FoodSustainable AgricultureClimate Action 
  • Kynjajafnrétti og réttlát umskipti (Gender Response Just Transition & Climate Action Partnership
  • Friðarmál 
  • Borgir (Coalition for High Ambition Multilevel Partnerships (CHAMP) for Climate Action
  • Útfösun kola (The Powering Past Coal Alliance

Helstu niðurstöður fundarins:

  • Samþykkt að ríki skuli færa sig frá notkun jarðefnaeldsneytis í orkukerfum á réttlátan og skynsamlegan máta svo hraða megi loftslagsaðgerðum og kolefnishlutleysi náist fyrir 2050.
  • Þrefalda þarf endurnýjanlega orku í heiminum og tvöfalda aðgerðir til orkunýtni, sem og að leggja aukna áherslu á innleiðingu nýrrar orkutækni.
  • Ákall er eftir því að fjármálakerfi heimsins styðji við hraða og réttláta þróun í átt að sjálfbærum heimi.
  • Stofnun Loftslagshamfarasjóðs og tilkynnt um fyrstu framlög í sjóðinn. 
  • Frekari skilgreining hnattræns markmiðs um aðlögun að loftslagsbreytingum.

Einnig var fjallað um endurfjármögnun Græna loftslagssjóðsins, sem er stærsti loftslagssjóður heims. Ísland tók þátt í endurfjármögnun sjóðsins og mun leggja fram um 115 m.kr á ári á tímabilinu 2024 – 2028, en heildarframlög í sjóðinn nema tæplega 13 milljörðum  Bandaríkjadala.

Helstu áherslur í málflutningi Íslands á þinginu voru:

  • Að halda á lofti markmiði um að hitastig jarðar hækki ekki meira en 1,5°C 
  • Hröð og réttlát útfösun á notkun jarðefnaeldsneytis (e. phase out).  
  • Að niðurgreiðslum á notkun jarðefnaeldsneyti verði hætt 
  • Mikilvægi endurnýjanlegra orkugjafa og sérstaks hlutverks annarra tæknilausna þegar við á, líkt og niðurdæling kolefnis. 
  • Líffræðileg fjölbreytni og sérstaklega hafmál og mikilvægi vistkerfa sjávar til aðlögunar og mótvægis frammi fyrir súrnun og hlýnun sjávar.  
  • Mikilvægi heildrænnar langtíma hugsunar við aðlögun samfélaga að loftslagsbreytingum.   
  • Mikilvægi freðhvolfsins. 
  • Mikilvægi þekkingar og þátttöku árþjóða (e. Indigenous Peoples) og að sjónarmið mannréttinda, kynjajafnréttis, ungs fólks, og jaðarsettra og viðkvæmra hópa séu höfð að leiðarljósi við framkvæmd loftslagsstefnu. 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum