Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2017 Matvælaráðuneytið

Mat Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar á dýralæknaþjónustu á Íslandi

Staða dýralæknaþjónustu á Íslandi er um flest góð að mati Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar OIE en stofnunin framkvæmdi mat á fyrirkomulagi og virkni þjónustunnar haustið 2015 að beiðni íslenskra stjórnvalda. Meðal helstu styrkleika kerfisins að mati stofnunarinnar má nefna góða löggjöf og reglulegt  eftirlit byggt á áhættumati. Er til þess tekið að tilfelli matarsýkinga eru mjög fá og að auki þóttu öll matvælafyrirtækin sem skoðuð voru vera af mjög háum gæðaflokki.

Alls voru mældir 46 þættir og eru niðurstöðurnar m.a. birtar á stigatöfluformi ásamt athugasemdum og ábendingum. Í stigatöflunni eru gefnar einkunnir frá 1 sem er lægst (ekki til staðar) og upp í 5 sem er hæst (mjög gott). Flestir þættirnir fá 3 eða 4 í einkunn en þrír þættir fá hæstu einkunn 5 og varða þeir eftirlit með fyrirtækjum, reglugerðir, leyfisveitingar, vottorð og samræmi við önnur lönd. Tveir þættir fá einkunnina 1 þar sem að sá þáttur stjórnkerfis dýralæknamála er ekki til staðar í landinu og þrír þættir fá einkunnina 2.

Þegar á heildina er litið er niðurstaðan um flest allgóð þótt enn sé talsvert rými til úrbóta skv. ráðleggingum skýrsluhöfunda. Nú þegar er komin af stað vinna við ýmsa þá þætti sem ábendingar eru um. Má í þessu sambandi nefna að starfshópur vinnur nú að tillögum um breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum um innflutning dýra og lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Þá hefur Matvælastofnun þegar breytt skipuriti sínu og komið þannig til móts við ráðleggingar og þá vinnur ráðuneytið að könnun á mannaflsþörf vegna verkefna Matvælastofnunar. Stofnunin er einn helsti vinnustaður dýralækna hér á landi og vísa ábendingar og ráðleggingar í skýrslunni til mikilvægi þess að styrkja starfsemi hennar vegna umfangsmikilla verkefna á sviði dýraheilbrigðis og dýravelferðar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum