Hoppa yfir valmynd
11. mars 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Staða jafnréttismála í tilefni af alþjóðabaráttudegi kvenna

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði málþing ungra jafnaðarmanna, Bleika orku, í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Í ávarpi sínu kom ráðherra víða við, fór yfir stöðu jafnréttismála í ljósi nýsamþykkts frumvarps, fjallaði um mansal, launamun kynjanna, ábyrgð fyrirtækja og stofnana, manneklu og endurmat á launum láglaunakvenna, ofbeldi gegn konum og ýmis fleiri jafnréttismál. Ráðherra sagði meðal annars:

Ég tel það vera eitt brýnasta jafnréttismál samtímans og um leið eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnarinnar að tryggja bætt kjör uppeldis- og umönnunarstétta. Þetta er líka eitt stærsta málið í endurreisn okkar velferðarkerfis. ...

Á dögunum voru samþykkt frá Alþingi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þar sem launafólki er tryggður réttur til þess að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Ég hef lengi verið talsmaður þess að afnema launaleynd á íslenskum vinnumarkaði og ég tel að með samþykkt nýrra jafnréttislaga sé stigið mikilvægt skref í áttina að því að útrýma kynbundnum launamun. Í skjóli launaleyndar hefur misréttið þrifist og með því að heimila fólki að tjá sig um laun sín erum við að stuðla að betra og réttlátara launaumhverfi. ...

Sú staðreynd að mansal, að mestu kaup og sala á konum og börnum til kynlífsþjónustu, velti milljörðum á milljarða ofan og sé þriðja ábatasamasta ólöglega starfsemin í heiminum, á eftir sölu fíkniefna og vopna, segir okkur allt sem segja þarf í þeim efnum. Þetta er dapurlegur vitnisburður um stöðu kvenna og barna í heiminum í dag sem ekki verður horft framhjá þegar rætt er um jafnréttismál.“

 

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarpið í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum