Hoppa yfir valmynd
9. desember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 199/2015 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. desember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 199/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010045

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu, dags. 28. febrúar 2014, kærði Þórir Skarphéðinsson hdl., f.h. [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2014, um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

Kærandi hefur ekki gert sérstakar kröfur í málinu. Ekki hefur borist greinargerð frá kæranda. Ætla má að kærandi geri þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og henni veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, sbr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 8. mars 2013. Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins þann 11. apríl 2013. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2014.

Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 28. febrúar 2014. Kæranda var þrívegis veittur frestur til framlagningar greinargerðar, með bréfi dags. 3. apríl 2014, tölvupósti dags. 15. janúar og 6. október 2015. Greinargerð hefur ekki borist kærunefnd. Maki kæranda sendi kærunefnd allnokkra tölvupósta við meðferð málsins hjá kærunefnd, sem nefndin hefur yfirfarið. Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 3. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að rökstuddur grunur sé á að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Þau atriði sem stofnunin tiltók sérstaklega eru m.a. þau að kærandi og maki hafi ekki haldið veislu eftir hjónavígsluna og þau hafi einungis þekkst í átta mánuði þegar þau gengu í hjúskap. Þau hafi jafnframt verið að hittast í fyrsta skipti þegar til hjúskapar var stofnað. Kærandi hafi ennfremur ekki vitað hvar barnsfaðir hennar væri búsettur á Íslandi þegar umsókn um dvalarleyfi var lögð fram. Þá segir í ákvörðun Útlendingastofnunar að maki kæranda hafi ekki vitað af búsetu fyrrverandi tengdamóður kæranda hér á landi sem hafi jafnframt verið sú sem kynnti kæranda og maka. Taldi stofnunin það benda sterklega til þess að tilgangur hjúskaparins væri sá að afla kæranda dvalarleyfis. Þá væri barnsfaðir kæranda einnig búsettur hér á landi, en maki kæranda kvaðst ekki vita af því. Mat stofnunin það ótrúverðugt, sérstaklega þar sem barnsfaðir hafi veitt skriflegt samþykki fyrir því að barn kæranda myndi flytjast með henni til Íslands. Var það mat stofnunarinnar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, og að ekki hafi verið sýnt fram á annað með óyggjandi hætti af hálfu kæranda. Kæranda var því synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi hefur ekki lagt fram greinargerð við meðferð málsins hjá kærunefnd. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 13. janúar 2014, mótmælir kærandi málsástæðu stofnunarinnar fyrir því að um málamyndahjónaband sé að ræða vegna þess að kærandi og maki hafi hist fyrst þegar til hjúskaparins var stofnað. Kærandi og maki hennar hafi átt í sambandi í rúmlega átta mánuði, m.a. í gegnum samskiptaforrit á netinu, áður en þau gengu í hjónaband. Þá sé hjúskapur þeirra verndaður af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi mótmælir því að Útlendingastofnun líti til þess að maki kæranda hafi ekki vitað að barnsfaðir kæranda væri búsettur hér á landi. Tíu ár séu liðin frá skilnaði kæranda og barnsföður hennar og samskipti barnsföður og barns verið afar lítil síðan þá. Þá telur kærandi það ekki eiga að hafa áhrif á veitingu dvalarleyfis að fyrrum tengdamóðir hennar hafi kynnt maka og kæranda, enda hafi maki ekki vitað um þessi tengsl er hann kvæntist kæranda.

Útlendingastofnun hafi átt að rannsaka ofangreind atriði betur með því að vera í samskiptum við kæranda og boða fyrrum tengdamóður kæranda í viðtal hjá stofnuninni.

Kærandi telur jafnframt að þegar vafatilvik komi upp um túlkun á því hvort um málamyndahjónaband sé að ræða, þá eigi kærandi að njóta vafans. Á stjórnvöldum hvíli sönnunarbyrði séu uppi grunsemdir um málamyndahjónaband.

Kærandi tekur fram að til hjúskaparins hafi verið stofnað einungis í þeim tilgangi að njóta samvista þar sem hún og maki hennar elski hvort annað og hyggist eyða ævinni saman.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara vegna gruns um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 13. gr. laga um útlendinga og 47. gr. reglugerðar um útlendinga er að finna heimild til að veita maka íslensks ríkisborgara dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum almennum skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 11. gr. laga um útlendinga. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 13. gr. laga um útlendinga ásamt almennum skilyrðum 11. gr. laganna til að unnt sé að fallast á útgáfu dvalarleyfis henni til handa. Í 11. gr. laga um útlendinga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr. laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

Í 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef rökstuddur grunur er um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, veiti slíkur hjúskapur ekki rétt til dvalarleyfis, sbr. einnig 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Í athugasemdum í frumvarpi við 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. gr. laga nr. 20/2004 um breytingu á lögum um útlendinga, kemur m.a. fram að skilyrði þess að synjað verði um dvalarleyfi sé í fyrsta lagi að rökstuddur grunur sé um að um gerning til málamynda sé að ræða. Það verði að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Vísbendingar í þeim efnum geta t.d. verið að aðilar hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar, hjónin skilji ekki tungu hvors annars, mikill aldursmunur sé á þeim, þau þekki ekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvors annars fyrir giftingu eða til fyrri hjónabanda. Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað eingöngu til þess að fá dvalarleyfi, vegna framangreindra atriða eða af öðrum ástæðum, fellur það í hlut umsækjanda að sýna fram á annað. Synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda um dvalarleyfi verður að skilja þannig að hún sé byggð á því að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda, í þeim tilgangi einum að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi.

Að mati kærunefndar er það hjúskap kæranda og maka hennar óviðkomandi að fyrrverandi tengdamóðir kæranda hafi kynnt þau. Þá er ekki fallist á að búseta barnsföður kæranda eða vitneskja maka hennar um búsetu hans, varði hjúskap kæranda og maka hennar. Eins og áður segir þarf að vera glögg vísbending um að til hjúskapar hafi verið stofnað til þess eins að sækja um dvalarleyfi. Framangreind atriði vega þungt í ákvörðun Útlendingastofnunar um að málamyndahjúskap sé að ræða. Maki kæranda kvað þau tala saman daglega í gegnum netið. Þegar málavextir eru metnir heildstætt er það mat kærunefndar að framangreind atriði sýni ekki fram á að rökstuddur grunur sé um að til hjúskaparins hafi verið stofnað eingöngu til að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Samkvæmt upplýsingum sem maki kæranda veitti í viðtali hjá Útlendingastofnun höfðu kærandi og maki átt í sambandi í u.þ.b. átta mánuði áður en að til hjúskapar var stofnað. Þá greindi maki kæranda skilmerkilega frá högum maka í viðtali hjá Útlendingastofnun og verður ekki annað séð en að hann þekki til einstakra atriða úr lífi kæranda.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað til þess eins að afla kæranda dvalaleyfis. Ber því að fella ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. febrúar 2014, úr gildi og beina því til stofnunarinnar að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. laga um útlendinga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á útgáfu dvalarleyfis er er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 13. gr. laga um útlendinga að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the denial of residence permit is annulled. The Directorate of Immigration is instructed to issue a residency permit to the appellant with reference to Article 13 of the Foreigner´s Act, subject to other provisions of the Act.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir                                                                           Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum