Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 8/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 7. desember 2018
í máli nr. 8/2018:
Work North ehf.
gegn
Kópavogsbæ
og Abltaki ehf.

Með kæru 19. júní 2018 kærði Work North ehf. útboð Kópavogsbæjar „Kársnesskóli við Skólagerði, niðurrif“. Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Kópavogsbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um val á tilboði Abltaks ehf. og varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var gefinn kostur á að gera athugasemdir og barst greinargerð frá varnaraðila Kópavogsbæ 3. júlí 2018 sem skilja verður þannig að gerð sé krafa um að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Hinn 12. nóvember 2018 lýsti kærandi því að hann myndi ekki gera frekari athugasemdir.

Með ákvörðun 17. ágúst 2018 hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva samningsgerð milli varnaraðila Kópavogsbæjar og Abltaks ehf. vegna útboðsins „Kársnesskóli við Skólagerði, niðurrif“ þar til leyst hefði verið úr málinu.

I

Í maí 2018 auglýsti varnaraðili eftir tilboðum í niðurrif Kársnesskóla í Kópavogi. Samkvæmt útboðsgögnum skyldu bjóðendur skila ýmsum gögnum með tilboðum sínum til þess að sýna fram á hæfni til þess að framkvæma verkið. Kostnaðaráætlun vegna verksins var 56.900.000 krónur. Í kafla 0.1.3 í útboðsgögnum var fjallað um kröfur til bjóðenda og þar var meðal annars tekið fram að eftir opnun tilboða gæti varnaraðili óskað eftir tilteknum upplýsingum frá þeim bjóðendum sem kæmu til álita sem viðsemjendur. Í kafla 0.4.2. í útboðsgögnum sem kallaðist „Fylgigögn með tilboði“ voru aftur á móti talin upp ýmis gögn sem bjóðendum bar að skila inn með tilboðum sínum.
Kærandi tók þátt í útboðinu og gerði tilboð að fjárhæð 39.800.000 krónur. Tilboð voru opnuð 5. júní 2018 og kom þá í ljós að kærandi átti næst lægsta tilboðið sem barst en lægsta tilboðið kom frá Abltaki ehf. og nam það 33.286.500 krónum. Gögn sem fylgja áttu með tilboðum samkvæmt kafla 0.4.2. í útboðsgögnum fylgdu ekki tilboði Abltaks ehf. Kærandi sendi bréf til varnaraðila 7. júní 2018 og lýsti þeirri skoðun að hann teldi að tilboð Abltaks ehf. væri ógilt og að taka bæri tilboði kæranda. Varnaraðili gaf Abltaki ehf. kost á að skila inn gögnum eftir opnun tilboða og tilkynnti svo 18. júní 2018 að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við Abltak ehf. um verkið.

II

Kærandi telur að skilyrðum útboðsins um framlagningu gagna hafi ekki verið fullnægt af hálfu Abltaks ehf. og því hafi tilboð fyrirtækisins hvorki uppfyllt skilyrði útboðsgagna né laga. Það hafi leitt til þess að tilboðið sé ógilt og það hafi einnig átt við um ákvörðun varnaraðila að velja tilboðið. Með því að gefa Abltaki ehf. kost á að bæta við gögnum hafi verið brotið gegn jafnræði enda hafi aðrir bjóðendur ekki fengið sama tækifæri.

III

Varnaraðili vísar til þess að Abltak ehf. hafi tekið sérstaklega fram í tilboði sínu að gögn yrðu send ef tilboð félagsins kæmi til greina. Í útboðsgögnum hafi meðal annars komið fram að aflað yrði upplýsinga eftir opnun og yfirferð tilboða en um leið hafi í öðrum kafla útboðsgagna verið talin upp þau gögn sem bjóðendum hafi borið að skila. Útboðsgögnin hafi þannig verið í mótsögn og ekki nægilega skýr um það hvaða gögn skyldu fylgja tilboðum. Því hafi skortur á gögnum með tilboði Abltaks ehf. verið afsakanlegur. Þau skilyrtu gögn sem ekki hafi fylgt tilboðinu hafi annars vegar verið staðfesting frá viðkomandi yfirvöldum um að bjóðandi skuldi ekki opinber gjöld og hins vegar staðfesting um að bjóðandi skuldi ekki lífeyrissjóðsiðgjöld. Varnaraðili hafi gefið öllum þeim bjóðendum sem ekki hafi skilað staðfestingu á skilum á opinberum gjöldum kost á að skila slíkum gögnum eftir opnun tilboða. Abltak ehf. hafi skilað öllum áskildum gögnum innan viku frá því að varnaraðili óskaði eftir þeim og af gögnunum sé ljóst að fyrirtækið hafi uppfyllt öll skilyrði útboðsgagna. Þar sem tilboð Abltaks ehf. hafi verið fjárhagslega hagkvæmast hafi varnaraðila borið að velja það.

IV

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að öll innkaup opinberra aðila yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum skuli bjóða út og gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í IV. kafla laganna. Samkvæmt 4. mgr. 123. gr. laganna öðlast ákvæði 1. mgr. 23. gr. þó ekki gildi fyrr en 31. maí 2019 að því er varðar innkaup sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila á þeirra vegum. Fram til þess tíma eru innkaup á vegum sveitarfélaga því ekki útboðsskyld nema þau nái viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 120/2016 kemur skýrt fram að ætlunin sé að viðhalda óbreyttu fyrirkomulagi hvað varðar innkaup sveitarfélaga til 31. maí 2019 og gefa sveitarfélögum þannig svigrúm til þess að laga innkaupareglur sínar og ferli að hinum nýju lögum. Samkvæmt þessu fjallar kærunefnd útboðsmála, að svo stöddu, aðeins um lögmæti innkaupa sveitarfélaga að því marki sem þau eru útboðsskyld á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í máli þessu stefndi varnaraðili að gerð verksamnings í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga um opinber innkaup, eins og greinin verður skýrð með hliðsjón af II. viðauka við tilskipun nr. 2014/24/ESB um opinber innkaup. Samkvæmt reglugerð nr. 178/2018 um auglýsingu innkaupa á útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup er viðmiðunarfjárhæð vegna innkaupa sveitarfélaga á verkum 721.794.800 krónur. Samkvæmt gögnum málsins var kostnaðaráætlun í hinu kærða útboði 56.900.000 krónur og voru öll tilboð sem bárust í útboðinu undir þeirri viðmiðunarfjárhæð. Verður því að leggja til grundvallar að hin kærðu innkaup hafi ekki náð viðmiðunarfjárhæð vegna útboðsskyldu á EES-svæðinu og fellur ágreiningur aðila þar af leiðandi ekki undir úrskurðarvald kærunefndar útboðsmála. Verður því að vísa málinu frá kærunefnd útboðsmála

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Work North ehf., vegna útboðs varnaraðila, Kópavogsbæjar, „Kársnesskóli við Skólagerði, niðurrif“, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.


Reykjavík, 7. desember 2018.

Skúli Magnússon

Eiríkur Jónsson

Stanley Pálsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum