Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundaði með formanni landstjórnar Grænlands og forsætisráðherra Quebecfylkis í Kanada

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Kim Kielsen, formaður landstjórnar Grænlands - mynd

Forsætisráðherra átti í dag fund með Kim Kielsen, formanni landstjórnar Grænlands, þar sem ræddir voru möguleikar á enn frekara samstarfi Íslands og Grænlands, m.a. á sviði mennta- og heilsugæslumála. Einnig var farið yfir tækifæri til aukinnar samvinnu landanna í ferðamálum og fullnýtingu sjávarafurða. Forsætisráðherra kom á framfæri skýrum vilja ríkisstjórnar Íslands til að styrkja samvinnu landanna tveggja á víðum grundvelli enda sjái þess mörg dæmi á undanförnum árum að slíkt samstarf sé skynsamlegt fyrir báða aðila og reynslan af því sé mjög jákvæð. Jafnframt var rætt mikilvægi þess að bæta flugsamgöngur sem myndu auðvelda og styrkja samstarf landanna til framtíðar.

Forsætisráðherra átti einnig fund með Philippe Couillard forsætisráðherra Quebecfylkis í Kanada í dag. Á fundinum voru málefni norðurslóða og loftslagsmál rædd, meðal annars áætlun Quebecfylkis um sjálfbæra þróun í norðurhéruðum fylkisins. Einnig var rætt um möguleika á styrkingu samstarfs í ferðamálum og uppbyggingu víðtækari viðskipta í tengslum við beinar flugsamgöngur, en búist er við stórauknum straumi ferðamanna frá Quebecfylki til Íslands í kjölfar opnunar nýrra flugleiða vorið 2016. Þá voru til umfjöllunar á fundinum möguleikar á samstarfi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og orkuskipta, en Quebecfylki er fjórði stærsti framleiðsluaðili vatnsfallsraforku í heiminum og um 98% raforku sem þar er nýtt kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Formaður landsstjórnar Grænlands og forsætisráðherra Quebec ríkis eru staddir hér á landi í tengslum við ráðstefnuna Arctic Circle sem haldin verður í Hörpu nú um helgina.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Philippe Couillard forsætisráðherra Quebecfylkis í Kanada

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Philippe Couillard forsætisráðherra Quebecfylkis í Kanada

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum