Hoppa yfir valmynd
8. maí 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 216/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. maí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 216/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18040018 og KNU18040019

Kæra [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 9. apríl 2018 kærðu [...]l, f.d. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir M) og [...], f.d. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir K), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. og 26. mars 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda þau til Ítalíu.

Þess er krafist að hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir er kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

Úrskurðað verður í málum kærenda í einum og sama úrskurði í ljósi þess að kröfur þeirra og málsástæður byggja á sama grundvelli.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 6. maí 2017. Kærendur mættu m.a. til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 31. maí sl. ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 13. september 2017 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þau skyldu endursend til Ítalíu. Kærunefnd útlendingamála felldi ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurðum, dags. 21. nóvember 2017, og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til meðferðar á ný. Með ákvörðunum dags. 19. og 26. mars 2018 ákvað Útlendingastofnun að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þau skyldu endursend til Ítalíu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 27. mars 2018 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 9. apríl 2018 til kærunefndar útlendingamála. Sameiginleg greinargerð kærenda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 18. apríl 2018. Að beiðni kærunefndar bárust frekari upplýsingar frá Útlendingastofnun um meðferð málsins þann 26. apríl 2018. Þá bárust athugasemdir frá talsmanni kæranda með tölvupósti, dags. 7. maí 2018.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kærendum hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu og að þau væri með gilt dvalarleyfi í landinu með gildistíma til 28. september 2021.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu kæmi ekki í veg fyrir að kærendur yrði send aftur til Ítalíu. Útlendingastofnun mat aðstæður kærenda slíkar að þau væru í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var hins vegar mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kærenda, að sérstakar ástæður væru ekki til staðar í málum þeirra, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Var umsóknum kærenda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinu kærðu ákvörðunum var kærendum vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá frestaði kæra réttaráhrifum ákvarðanna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar. Af 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur kærunefnd útlendingamála túlkað ákvæðið með þeim hætti að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Samkvæmt gögnum málanna sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. maí 2017. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsóknir kærenda bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum. Kærunefnd hefur farið yfir meðferð málanna fyrir stjórnvöldum, m.a. upplýsingar frá Útlendingastofnun, og verða kærendur ekki taldir bera ábyrgð á töfum á afgreiðslum umsóknanna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Skilyrði ákvæðisins eru því uppfyllt í málum kærenda. Það er því niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og leggja fyrir stofnunina að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Samantekt

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kærenda til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicants applications for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Ívar Örn Ívarsson                                                                                Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum