Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2005 Dómsmálaráðuneytið

Rafrænt Lögbirtingablað

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti rafrænt Lögbirtingablað og opnaði nýjan og endurbættan vef blaðsins við athöfn í sýsluskrifstofunni á Hvolsvelli þann 1. júlí sl.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra kynnti rafrænt Lögbirtingablað og opnaði nýjan og endurbættan vef blaðsins(www.logbirtingablad.is) við athöfn í sýsluskrifstofunni á Hvolsvelli þann 1. júlí sl. Hin rafræna útgáfa felur í sér bætta þjónustu fyrir viðskiptavini Lögbirtingablaðsins, þar sem tíðni auglýsinga eykst og skemmri tími líður frá innsendingu til birtingar. Áskrifendur geta nú nálgast auglýsingar Lögbirtingablaðsins í gegnum netið. Við hönnun vefjarins var litið til þess að auka aðgengi þeirra sem hafa skerta sjón. Með hinni rafrænu útgáfu er stefnt bættri þjónustu ríkisins og stór áfangi í rafrænni stjórnsýslu.

Hinn 22. september 2000 skipaði Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipulag á birtingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Nefndinni var meðal annars falið að endurskoða gildandi lög með tilliti til rafrænnar birtingar samhliða eða í stað hefðbundinnar birtingar. Í nefndina voru skipuð: Benedikt Bogason héraðsdómari, formaður nefndarinnar, Eygló Halldórsdóttir, ritstjóri Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs og Skúli Magnússon, þá lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Einnig tóku sæti í nefndinni: Kristján Andri Stefánsson deildarstjóri, samkvæmt tilnefningu forsætisráðuneytisins, Nökkvi Bragason deildarstjóri, samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytisins og Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur, samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytisins.

Fyrsta skrefið til rafrænnar útgáfu Lögbirtingablaðsins var stigið 2002, þegar unnt var að nálgast efni þess á netinu samhliða prentaðri útgáfu. Einnig var lagt í vinnu við að setja útgáfu ársins 2001 í sama form. Hægt hefur verið að nálgast öll tölublöð sem komið hafa út frá 1. janúar 2001 á vef Lögbirtingablaðsins.

Góð reynsla af útgáfu Lögbirtingablaðsins á netinu varð til þess að heimilað var með lögum nr. 165/2002 að hætta prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs og gefa það eingöngu út rafrænt, þó þannig að þeir sem þess óska geti keypt einstök tölublöð rafræna útgáfu blaðsins prentaða. Á grundvelli þessarar heimildar var stofnað til þess verkefnis sem fólst í smíði vefkerfis sem heldur utan um rafræna útgáfu Lögbirtingablaðsins.

Eftir útboð var skrifað undir verksamning við Hugvit hf. um smíði kerfisins þann 17. febrúar 2004. Ráðgjöf og verkefnisstjórn var í höndum VKS hf.

Réttaráhrif auglýsinga verða við birtingu á vef og safn auglýsinga liðinnar viku verður prentað fyrir þá sem það vilja. Áskrifendur að prentaðri útgáfu greiða áskriftargjald sem nemur kostnaði við prentun og dreifingu, nú 12.000 kr. á ári eða um 1.000 kr á mánuði. Áskriftargjald að rafrænni útgáfu verður ákveðið með lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Auglýsingakostnaður viðskiptavina blaðsins lækkar við þessa breytingu.

Um Lögbirtingablaðið

Lögbirtingablaðið á sér langa og merka sögu en fyrsta tölublað Lögbirtingablaðsins kom út í ársbyrjun 1908, skv. lögum nr. 32/1907. Blaðið var gefið út einu sinni í viku 2 eða 4 bls. eftir þörfum í stærðinni A4. Síðan þá hefur Lögbirtingablaðið verið gefið út í prentuðu formi fram til dagsins í dag, nú síðast skv. lögum nr. 64/1943, þar til lög nr. 15/2005 leystu þau af hólmi.

Fyrsta blaðið var prentað af prentsmiðjunni Gutenberg sem hefur séð um prentun blaðsins óslitið allar götur síðan. Undanfarin ár hefur útgáfan vaxið jafnt og þétt og hefur síðustu árin verið yfir 1200 bls. á ári í brotinu Folio.

Í Lögbirtingablaði skal birta dómsmálaauglýsingar, svo sem stefnur til dóms, úrskurði um töku búa til opinberra skipta og áskoranir um kröfulýsingar, auglýsingar um skiptafundi og skiptalok þrotabúa, nauðungarsölur, þar á meðal á fasteignum, búa sem eru til opinberra skipta, auglýsingar um vogrek, óskilafé og fundið fé, auglýsingar um kaupmála hjóna, lögræðissviptingu og brottfall hennar, lögboðnar auglýsingar um félög og firmu, sérleyfi er stjórnvöld veita, opinber verðlagsákvæði og annað það er stjórnvöldum þykir rétt að birta almenningi.

Reykjavík 1. júlí 2005



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum