Hoppa yfir valmynd
8. desember 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherrar OECD funda um jafnræði til menntunar

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ávarpar fund menntamálaráðherra OECD-ríkja - mynd

Ásmundur Einar Daðason tók þátt í fundi menntamálaráðherra sem haldinn var í höfuðstöðvum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París dagana 7. og 8. desember. Yfirskrift fundarins var Re-building an inclusive and equitable society through education. Rúmlega 30 ríki tóku þátt í fundinum en 13 ár eru liðin frá síðasta fundi menntamálaráðherra OECD.

Á fundinum var sjónum beint að jöfnuði, stafrænni tækni og ævinámi. Ásmundur Einar greindi frá farsældarlögunum sem leggja áherslu á samþætta þjónustu mismunandi þjónustukerfa, áherslum í menntastefnu Íslands til ársins 2030 og fyrirhuguðu frumvarpi um heildstæða skólaþjónustu.

Auk þess að taka þátt í fundinum átti ráðherra tvíhliða fundi með menntamálaráðherrum Svíþjóðar og Lúxembúrgar og átti fundi með UNESCO og OECD um nám yngri aldurshópa, söfnun og hagnýtingu gagna og þverfaglega nálgun í menntakerfinu.


Menntamálaráðherrar OECD-ríkja á fundinum í París

Í lok fundar samþykktu ráðherrarnir sameiginlega yfirlýsingu sem ætlað er að leggja línurnar í starfi aðildarríkja OECD á sviði menntamála næstu árin og áframhaldandi stuðningi OECD við mótun og innleiðingu menntastefna. Aðildarríki vinni áfram að samanburðarrannsóknum á sviði menntamála og þróun sérstaks mælaborðs um jöfnuð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum