Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Samgönguþing verður haldið 28. september

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og samgönguráð boða til samgönguþings fimmtudaginn 28. september á Hótel Örk í Hveragerði. Þar verða kynntar áherslur í samgönguáætlun næstu ára og fjallað um ýmis mál í málstofum.

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra setur þingið og að því loknu verður fjallað um áherslur samgönguáætlunar til næstu tólf ára. Framsögur flytja Ásmundur Friðriksson alþingismaður og formaður ráðsins, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Þórólfur Árnason forstjóri Samgöngustofu og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia.

Þá verða á dagskrá fyrirlestrar um framtíðarsýn í samgöngum, um þýðingu samgangna og fjarskipta fyrir byggðaþróun og um fjármögnun framkvæmda á stofnleiðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Ýmis umræðuefni verða síðan til umfjöllunar í málstofum, svo sem alþjóðlegt regluverk, innanlandsflug, umferðaröryggi, ferðaþjónustan og fleira. Dagskráin er enn í mótun og því gæti hún átt eftir að breytast.

Samgönguþing hefst klukkan 11 fimmtudaginn 28. september og er gert ráð fyrir að dagskrá ljúki um kl. 16. Samgönguþing er öllum opið og er óskað eftir að þátttakendur skrái sig með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected].

Í lögum um samgönguáætlun segir að samgönguráð skuli minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað sé að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar. Til samgönguþings skal boðið öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála. Á samgönguþingi skal gera grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar. Samgönguráð skal hafa samráð við hagsmunaaðila og kynna fyrir almenningi áætlanir eins og ástæða þykir til hverju sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira