Hoppa yfir valmynd
14. júní 2002 Heilbrigðisráðuneytið

-Nýir vikulegir fréttapistlar - 8. - 14. júní 2002 - Nánar um doktorsvörn

Doktorsvörn í næringarfræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands
laugardaginn15. júní 2002 kl. 10:00 í hátíðarsal Háskóla Íslands, aðalbyggingu.


Doktorsefni

: Bryndís Eva Birgisdóttir, stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1992, BSc í næringarfræði frá Stokkhólmsháskóla 1996, MSc í næringarráðgjöf frá Gautaborgarháskóla 1997. Unnið að rannsóknum í næringarfræði við rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala-háskólasjúkrahús og matvælafræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands frá árinu 1997.

Leiðbeinandi: Prófessor Inga Þórsdóttir.

Doktorsnefnd: Prófessor Inga Þórsdóttir frá Háskóla Íslands, Prófessor Ágústa Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands, Prófessor Bengt Vessby frá Háskólanum í Uppsölum.,

Andmælendur: Prófessor Emeritus Robert B. Elliott frá Háskólanum í Auckland og Prófessor Lena Rossander-Hultén frá Háskólanum í Gautaborg.

Ritgerðin er byggð á sex greinum þar af eru þrjár birtar, tvær samþykktar og ein innsend, allar í ritrýnd vísindatímarit.

Gildi næringar í forvörnum gegn sykursýki
-Kúamjólk og sykursýki af gerð 1
-Þyngdaraukning á meðgöngu, stærð við fæðingu og sykursýki af gerð 2

Breytingar á lífsstíl og mataræði, og jafnvel samsetningu matvæla, eru líklega ástæður mikillar aukningar á tíðni sykursýki sem orðið hefur víða um heim á síðustu áratugum.
Markmið rannsóknanna sem doktorsritgerðin byggir á var að skoða tvo næringarfræðilega þætti sem hugsanlega vernda íslensku þjóðina gegn sykursýki.Þessir þættir voru annars vegar samsetning kúamjólkur sem hugsanlega hefur áhrif á nýgengi sykursýki af gerð 1 (oft nefnd barnasykursýki) og hins vegar fæðingarstærð sem mögulega tengist tíðni sykursýki af gerð 2 (oft nefnd fullorðinssykursýki).
Niðurstöðurnar bentu til þess að lægra magn af A1 og B b-kaseinum sem fannst í íslensku mjólkinni og þar af leiðandi lægri heildarneysla á próteinunum, sérstaklega meðal ungra barna, á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin geti skýrt að minnsta kosti að hluta til lægra nýgengi barnasykursýki hér á landi. Neysla á kúaalbúmíni, immúnóglóbúlíni og laktóferríni virtist ekki geta útskýrt breytileika í nýgengi. Munur í próteinsamsetningu kúamjólkur milli svæða eða landa getur hugsanlegaskýrt að kúamjólkurneysla tengist sykursýki í sumum löndum en ekki í öðrum, og telst Ísland meðal þeirra síðarnefndu. Víðast hvar í heiminum er kúamjólk helsti orku- og næringarefnagjafi í fæði ungra barna, og í okkar heimshluta eru kúamjólk og kúamjólkurafurðir einnig mikilvægur prótein- og næringarefnagjafi meðal flestra þeirra sem eldri eru. Framleiðsla kúamjólkur í löndum heims, án efna sem leitt geta til sykursýki, gæti dregið úr nýgengi barnasykursýki í heiminum. Áframhaldandi rannsóknir á samsetningu kúamjólkur og áhrifum hennar á sykursýki og aðra sjúkdóma eru því nauðsynlegar. Vert er að geta þess að kúamjólk er einn þeirra umhverfisþátta sem tengdir hafa verið barnasykursýki en líklega spila nokkrir þættir inn í þróun sjúkdómsins.
Niðurstöður rannsóknanna á fæðingarstærð bentu til verndandi áhrifa meiri fæðingarstærðar gegn skertu glúkósaþoli og fullorðinssykursýki. Tengslin voru sterkari meðal þeirra sem voru í ofþyngd eða of feitir sem fullorðnir en veikari en sést hefur í erlendum rannsóknum, líklega vegna hárrar fæðingarþyngdar Íslendinga. Niðurstöður rannsóknanna bentu einnig til þess að forðast beri lága þyngdaraukningu á meðgöngu til þess að draga úr líkum á lítilli fæðingarþyngd. Þyngdaraukning á meðgöngu sem nemur 11,5-18 kg meðal kvenna sem eru í kjörþyngd fyrir þungun, gefur minnstu hættu á aukaverkunum á meðgöngu eða við fæðingu og var ekki tengd ofþyngd eða offitu móður eftir fæðingu. Skynsamlegar, vísindalega ákvarðaðar ráðleggingar varðandi þyngdaraukningu á meðgöngu, sem miða að því að tryggja heilsu móður og barns geta hjálpað til við að draga úr fjölda léttbura. Þannig væri hægt að aðstoða við að sporna gegn auknu algengi fullorðinssykursýki í heiminum. Það er þó vert að benda á að tengsl fullorðinssykursýki við ofþyngd og hreyfingarleysi á fullorðinsárum eru þó sterkari en tengslin við fæðingarstærð og er lág fæðingarstærð einungis einn af mörgum áhættuþáttum fullorðinssykursýki.
Þessar rannsóknir bæta mikilvægum upplýsingum við vísindalega þekkingu á gildi næringar í forvörnum gegn sykursýki.


Samstarfsaðilar: Hjartavernd, Kvennadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og Barnadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, Fossvogi.


Foreldrar: Birgir Guðjónsson, læknir og Soffía Svava Daníelsdóttir,
bankastarfsmaður.
Fjölskylda: Í sambúð með Tómasi Orra Ragnarssyni, viðskiptafræðingi. Dóttir; Theodóra Tómasdóttir, 9 mánaða.

Sími Bryndísar: 560 1562 eða talhólf 699 8003. Tölvupóstfang: [email protected]
Sími Ingu: 560 1536 eða farsími 895 6278. Tölvupóstfang: [email protected]


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum