Hoppa yfir valmynd
2. desember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna kæru um greiðsluáætlun vegna skattskulda

[…]
[…]
[…]

Reykjavík 2. desember 2013
Tilv.: FJR13090024/16.2.2


Efni: Úrskurður vegna kæru dags. 5. september 2013.

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 5. september 2013, þar sem ákvörðun tollstjóra, dags. 12. ágúst 2013, er kærð. Í ákvörðun tollstjóra var hafnað að gera greiðsluáætlun vegna skattskulda [B] þar sem mánaðarleg fjárhæð yrði kr. 10.000. Þess er krafist að ákvörðun tollstjóra um að krefjast 45.000 kr. greiðslu mánaðarlega verði ógild og sú ákvörðun að skrá nafnið á vanskilaskrá. Af kærunni má ráða að þess sé krafist að kærandi fái að greiða kr. 10.000 á mánuði vegna skattskuldanna.

Í kærunni var farið fram á að réttaráhrifum hinar kærðu ákvörðunar yrði frestað þar til ráðuneytið hefði úrskurðað í málinu. Með bréfi, dags. 6. september 2013, hafnaði ráðuneytið að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

Málavextir og málsástæður

Kæra, dags. 5. september 2013
Í kærunni kemur fram að kærandi hafi verið í hjúskap með [B] frá árinu 2005 þar til snemma árs 2012. Undir lok árs 2009 hafi komið í ljós að [B] skuldaði opinber gjöld og byrjaði kærandi þá að greiða kr. 10.000 á mánuði inn á skuldina. Kærandi hafi gert geiðsluáætlun við tollstjóra sem endurnýjuð var á sex mánaða fresti. Í júli 2013 hafnaði tollstjóri því að framlengja greiðsluáætlunina óbreytta og krafðist greiðslu að lágmarki kr. 45.000 kr. á mánuði

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi átt erfitt með að greiða kr. 10.000 en hafi tekist að leysa það. Hins vegur séu engin ráð á því að greiða 45.000 kr. Tollstjóri hafi látið færa kæranda á vanskilaskrá hjá Creditinfo með þeim afleiðingum að kærandi hafi takmarkaða möguleika á að fá námslán og hafi þarf leiðandi ekki peninga til að greiða inn á skattskuldina.

Þá segir í kærunni að samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Það sé vissulega lögmætt markmið að tryggja innheimtu opinberra gjalda. Hins vegar verði úrræðið sem stjórnvald grípi til að vera til þess fallið að markmiðið náist. Í þessu tilviki sé því þannig farið að úrræðið sem tollstjóri leggi til sé ekki til þess fallið að auka innheimtu skattskuldarinnar enda hafi embættið vitað að kæranda var ómögulegt að greiða meira en 10.000 kr. á mánuði. Tollstjóri hafi því gengið lengra en nauðsyn bar til þegar hann hafi látið færa nafn kæranda á vanskilaskrá hjá Creditinfo. Niðurstaða ákvörðunar tollstjóra sé því sú að lögmætu markmiði hafi ekki verið náð og vegna þess hve embættið gekk langt í aðgerðum sínum geti kærandi ekki greitt neitt frekar til ríkissjóðs.

Ákvörðun tollstjóra, dags. 12. ágúst 2013
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 12. ágúst 2013, kemur fram að staða krafna sem kærandi beri ábyrgð á sé kr. 2.356.153. Þá segir að ef greitt væri áfram kr. 10.000 á mánuði myndi krafan ekki greiðast upp þar sem það falla hærri dráttarvextir á kröfuna á hverjum mánuði. Í ljósi þess hve greiðslan sé há sé 45.000 kr. mánaðargreiðsla talin hæfileg. Þá sé tekið mið af því að fyrri greiðsluáætlanir tóku ekki tillit til skulda vegna nýrri álagninga þar sem innheimtuaðgerðir vegna þeirra krafna voru ekki hafnar. Með vísan til þessa var erindi kæranda hafnað en tekið fram að til boða stæði að gera greiðsluáætlun með 45.000 kr. mánaðargreiðslu.

Umsögn tollstjóra, dags. 22. nóvember 2013
Með bréfi, dags. 6. september 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra um málið. Í umsögn tollstjóra, dags. 22. nóvember 2013, kemur fram að kærandi hafi verið samsköttuð [B] árin 2007 til og með 2011 og beri sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þing- og sveitarsjóðsgjalda sem lögð voru á hann þessi ár, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þann 8. október 2009 hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá [B] vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda ársins 2007 og hafi skuldin numið um kr. 600.000. Kærandi hafi fengið frest til þess að greiða skuldina til mars 2010 án þess að krafa væri gerð um greiðslu vegna frestsins.

Fyrsta greiðsluáætlunin sem kærandi hafi undirritað vegna skuldarinnar hafi verið gerð 21. apríl 2010. Hún hafi verið til sex mánaða og hljóðað upp á greiðslu 10.000 kr. á mánuði. Sambærilegar greiðsluáætlanir hafi verið gerðar 14. september 2010, 19. apríl 2011 og 4. október 2011. 2. apríl 2012 hafi kærandi fengið frest á greiðslu skuldarinnar til febrúar 2013 og 13. febrúar 2013 hafi svo verið gerð sambærileg greiðsluáætlun hinum fyrri, til sex mánaða.

Í júlí 2013 hafi innheimtuaðgerðir hafist gagnvart kæranda vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda [B] vegna áranna 2009, 2010 og 2011. Samanlögð fjárhæð þeirrar skuldar sem kærandi hafi þá borið sjálfskuldarábyrgð á hafi numið samtals um kr. 3.000.000. Kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að eftir að greiðsluáætlun þeirri sem gerð var 13. febrúar 2013 lyki yrði að hækka mánaðarlega greiðslubyrði hans í 45.000 kr. svo ekki kæmi til skráningar á vanskilaskrá.

Í umsögninni kemur fram að markmið innheimtumanna ríkissjóðs sé að innheimta lögboðna skatta og gjöld. Gerð greiðsluáætlunar sé úrræði sem bæði fylgi mikil ívilnun fyrir gjaldendur en sé ekki síður leið fyrir innheimtumenn til að fá greiðslur upp í kröfur. Jafnframt sé skuldari að viðurkenna kröfu sína og rjúfi fyrningu hennar. Sýni gjaldandi raunverulegan greiðsluvilja og greiði inn á kröfu sína samkvæmt gildandi greiðsluáætlun geti innheimtumaður frestað íþyngjandi innheimtuaðgerðum og haldið gjaldanda frá vanskilaskrá Creditinfo.

Samkvæmt verklagsreglum sem tollstjóri hafi gefið út um greiðsluáætlanir sé almennt gerð sú krafa til greiðsluáætlunar að ljóst sé að greiðslur samkvæmt henni nái að greiða niður kröfuna eins og hún standi við gerð hennar, þ.e.a.s. kostnað og áfallandi dráttarvexti. Samkvæmt verklagsreglunum sé 10.000 kr. lágmarksgreiðsla inn á kröfu og sé eingöngu ætlað þeim sem hafi lágar tekjur og litla greiðslugetu eins og háttaði til í tilviki kæranda. Samkvæmt verklagsreglunum hefði kærandi í raun átt að greiða hærri greiðslu mánaðarlega en samið var um til að uppfylla skilyrði þeirra um að raunhæfur möguleiki væri á að krafan greiddist að fullu. Í kjölfar þess að krafan á hendur kæranda hækkaði verulega hafi verið óhjákvæmilegt annað en að gera kröfu til þess að mánaðargreiðslur yrðu hærri en hafði verið fram að því.

Þá kemur fram í umsögninni að tollstjóri telji að fulls meðalhófs hafi verið gætt í samskiptum við kæranda og kærandi hafi notið ívilnunar á borð við fresti á á greiðslum til langs tíma, eins og frekast hafi verið unnt að verða við. Markmiði innheimtumanna ríkissjóðs að innheimta lögboðna skatta og gjöld verði ekki náð í tilviki kæranda nema með því að hækka mánaðarlega greiðslubyrði, að öðrum kosti sé ljóst að krafan muni aldrei greiðast til fulls með áframhaldandi hætti. Í ljósi þess sé því hafnað að embættið hafi farið strangar í sakirnar í aðgerðum sínum en nauðsyn bar til og ekki gætt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaganna.

Að lokum er tiltekið að skilyrði þau sem verklagsreglur um greiðsluáætlanir setji innheimtumönnum ríkissjóðs séu ekki uppfyllt til að verða við ósk kæranda í málinu og er lagt til að synjun embættisins verði staðfest.

Þá biðst tollstjóri velvirðingar á því að vegna anna hafi dregist að veita umsögnina.

Forsendur og niðurstaða
Markmið innheimtumanna ríkissjóðs er að innheimta lögboðin gjöld. Til að ná því markmiði er innheimtumanni heimilt að taka á móti einhliða greiðsluáætlunum ef það leiðir til þess að hægt er að fá upp í kröfur sem annars yrðu ekki greidar. Einhliða greiðsluáætlun á því að uppfylla það skilyrði að krafan verði greidd.

Tollstjóri hefur gefið út verklagsreglur um greiðsluáætlanir sem innheimtumönnum ber að fylgja og miða verklagsreglurnar við það að greiðsluáætlun þurfi að vera raunhæft úrræði til að tryggja greiðslu. Greiðsluáætlun er þannig ekki ætlað að vera til greiðsludreifingar fyrir gjaldendur heldur er þeim ætlað að vera raunhæft úrræði fyrir innheimtumann til að innheimta álögð opinber gjöld.

Kærandi gerði fyrst greiðsluáætlun vegna skulda [B] fyrir þing- og sveitarsjóðsgjöld í apríl 2010. Í júlí 2013 breyttust forsendur fyrir fyrri greiðsluáætlunum kæranda þar sem skuldir kæranda höfðu hækkað verulega vegna ábyrgðar á skuldum [B]. Þar sem skuldir kæranda höfðu hækkað telur ráðuneytið eðlilegt að tollstjóri hafi metið upp á nýtt forsendur fyrir greiðsluáætlunni. Ráðuneytið telur að boð tollstjóra um greiðsluáætlun með 45.000 kr. mánaðarlegri greiðslu sé í samræmi við verklagsreglur um greiðsluáætlanir.

Markmið greiðsluáætlunar er að ná fram greiðslu. Verði greiðslufall brestur forsenda þess að gjaldandi njóti ívilnunar gagnvart innheimtuaðgerðum og þær fara aftur af stað. Íþyngjandi innheimtuaðgerðir leiða til þess að gjaldandi fer á vanskilaskrá. Með vísan til þess tekur ráðuneytið ekki afstöðu varðandi skráningu kæranda á vanskilaskrá.

Meðalhófsregla stjórnsýslulaganna segir að ekki megi beita þungbærari aðgerðum en nauðsynlegt er til að ná fram markmiði stjórnvaldsins. Í samræmi við meðalhófsregluna er hægt að beita vægari úrræðum gagnvart skuldara til að tryggja greiðslu en þeim sem felast í aðfarar- og lokunaraðgerðum ef hægt er að ná fram markmiðum um greiðslu. Ráðuneytið telur að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt í þessu máli.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 12. ágúst 2013, um að hafna 10.000 kr. mánaðarlegri greiðslu vegna skattskulda [B] við gerð greiðsluáætlunar við kæranda er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum