Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 77/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 77/2017

Miðvikudaginn 23. ágúst 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. febrúar 2017 kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. febrúar 2017 um samþykki á umsókn barnsföður hennar um milligöngu um meðlagsgreiðslur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni af Tryggingastofnun ríkisins 13. janúar 2017, sótti barnsfaðir kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur með tveimur sonum þeirra frá 1. desember 2016. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. febrúar 2017, var kæranda tilkynnt um að umsókn barnsföður hennar um milligöngu um meðlagsgreiðslur hafi verið samþykkt frá 1. desember 2016. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, óskaði kærandi rökstuðnings fyrir þeirri ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 28. febrúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. febrúar 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. mars 2017, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2017. Með bréfi, dags. 23. mars 2017, bárust athugasemdir frá B hdl. f.h. hönd kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. apríl 2017. Viðbótargreinargerð, dags. 10. apríl 2017, barst frá stofnuninni og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 3. maí 2017, bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda og voru þær sendar stofnuninni með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. maí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja umsókn barnsföður hennar um milligöngu meðlagsgreiðslna frá 1. desember 2016 verði felld úr gildi.

Í kæru segir að í 5. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga komi fram að fylgja skuli umsókn frumrit af meðlagsákvörðun eða staðfest afrit sýslumanns og önnur gögn sem nauðsynleg séu svo hægt sé að taka ákvörðun um greiðslu. Gera megi því ráð fyrir að umsókn barnsföður kæranda hafi fylgt skilnaðarsamningur hans og kæranda, dags. X 2016, sem og endurrit úr hjónaskilnaðarbók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. X 2016.

Í nefndu endurriti segi um forsjá og meðlagsgreiðslur að barnsfaðir kæranda og kærandi hafi lýst því samkomulagi yfir að „meðlag verði ekki innheimt heldur verði útgjöldum vegna barnanna skipt með öðru fyrirkomulagi.“ Um slíkt fyrirkomulag sé fjallað í 6. gr. skilnaðarsamningsins en þar segi að aðilar séu „sammála um að standa sameiginlega að framfærslu drengjanna og að innheimta meðlags fari ekki í gegnum Tryggingastofnun.“

Með hliðsjón af framangreindu fái kærandi því ekki séð hvernig stofnunin hafi getað ákvarðað um annað fyrirkomulag á greiðslu meðlags en kærandi og barnsfaðir hennar höfðu gert samkomulag um og staðfest sé í hjónaskilnaðarbók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að X 2016 hafi kæranda og barnsföður hennar verið veitt leyfi til lögskilnaðar samkvæmt 39. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 sbr. 41. gr. en samkvæmt samningi hjónanna um fjárskipti, dags. X 2016, hafi þau samið um að fara sameiginlega með forsjá sona þeirra. Samkvæmt samkomulaginu hafi lögheimili drengjanna verið skráð hjá föður en forsendur þess hafi meðal annars verið þær að faðirinn skyldi virða rétt móður til þátttöku í daglegu lífi drengjanna, að staðið yrði sameiginlega að framfærslu þeirra og að innheimta meðlags færi ekki í gegnum Tryggingastofnun ríkisins.

Við undirritun skilnaðarsamnings hjá sýslumanni hafi kæranda, þrátt fyrir framangreint samkomulag, verið gert að skrifa undir og þar með samþykkja að greiða einfalt meðlag með hvoru barni til barnsföður hennar.

Með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. janúar 2017, hafi barnsfaðir kæranda brotið gegn framangreindu samkomulagi. Þá hafi barnsfaðir hennar einnig sýnt, með athöfnum og yfirlýsingum, að hann sé illfær um að virða skyldur sínar sem lögheimilisforeldri, eðlilegan rétt kæranda og samkomulag að baki ákvörðun um lögheimili drengjanna. Af þeim sökum hafi kærandi lagt inn beiðni til sýslumanns um breytingu á lögheimili drengjanna samkvæmt 2. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar sem farið sé fram á að lögheimili drengjanna verði flutt frá föður til móður.

Í frekari athugasemdum kæranda segir meðal annars að þar sem barnsfaðir kæranda hafi brotið gegn framangreindu samkomulagi þeirra séu forsendur skilnaðarsamnings þess sem kærandi hafi skrifað undir hjá sýslumanni brostnar hvað lögheimili og meðlag varði, þar sem fulltrúi sýslumanns hafi sagt að hún yrði að samþykkja meðlagsábyrgð.

Því verði að telja að upplýsingar um forsjá og meðlag í endurriti sýslumanns haldi ekki gildi sínu og að Tryggingastofnun ríkisins geti ekki byggt á þeim við ákvörðun um að samþykkja beiðni barnsföður um að hafa milligöngu um meðlag til hans með sonum þeirra.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að stofnuninni hafi borist umsókn barnsföður kæranda ásamt leyfi til lögskilnaðar, dags. X 2016, þar sem fram komi að kærandi skuli greiða einfalt meðlag með sonum þeirra frá 1. desember 2016 til 18 ára aldurs þeirra.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Í úrskurði félags- og tryggingamálaráðuneytis, dags. 16. febrúar 2010, segi að hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins sé eingöngu að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Leggi foreldri fram samkomulag um greiðslu meðlags, sem staðfest hafi verið af sýslumanni, beri stofnuninni að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar og 67. gr. barnalaga. Lögin veiti stofnuninni ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Þá segi í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 466/2010 að þrátt fyrir að kærandi geti sýnt fram á að hann hafi lagt inn tiltekna fjárhæð á reikning barnsmóður sinnar breyti það engu um þá staðreynd að stofnuninni ber skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina. Stofnunin hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun.

Hjá stofnuninni liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. leyfisbréf til lögskilnaðar, dags. X 2016, sem kveði á um meðlagsgreiðslur kæranda til barnsföður hennar. Þá liggi fyrir umsókn barnsföður kæranda, móttekin 13. janúar 2017, um meðlag frá 1. desember 2016. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, tilvitnuðum lagaákvæðum og fyrirliggjandi gögnum, hafi stofnuninni borið að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsföður kæranda frá 1. desember 2016 og hafi ekki verið heimilt að taka til greina að aðilar hafi verið sammála um að innheimta ekki meðlag heldur skipta útgjöldum vegna barnanna með öðru fyrirkomulagi. Sambærileg niðurstaða hafi einnig verið í kærumálum nr. 42/2012, 81/2013 og 334/2014 fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga og í máli nr. 190/2016 fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var fyrri greinargerð ítrekuð.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður kæranda frá 1. desember 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Þann 13. janúar 2017 sótti barnsfaðir kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur með tveimur sonum þeirra frá 1. desember 2016 til 18 ára aldurs þeirra. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli gildandi leyfis til lögskilnaðar, dags. X 2016, sem var gefið út af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt því ber kærandi meðlagsskyldu vegna tveggja sona þeirra frá 1. desember 2016 til 18 ára aldurs þeirra.

Kærandi hefur vísað til þess að hún og barnsfaðir hennar hafi komist að samkomulagi um innheimtu meðlagsgreiðslnanna í skilnaðarsamningi þeirra, sbr. endurrit úr hjónaskilnaðarbók frá X 2016. Fram kemur í nefndu endurriti að samkomulagið snúist um að kærandi greiði barnsföður einfalt meðlag með hvorum dreng frá 1. desember 2016 til 18 ára aldurs þeirra. Þá kemur fram að meðlag verði ekki innheimt heldur verði útgjöldum vegna drengjanna skipt með öðru fyrirkomulagi.

Fyrir liggur að barnsfaðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, lagði fram beiðni um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar, þ.e. leyfi til lögskilnaðar. Í þeirri ákvörðun er kveðið á um meðlagsskyldu kæranda. Að þessu virtu telur nefndin að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið í samræmi við fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður kæranda frá 1. desember 2016.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsföður A, frá 1. desember 2016, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum