Hoppa yfir valmynd
26. september 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 393/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 26. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 393/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070031

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 18. júlí 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Indlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2022, um að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. júní 2022, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í 8 daga. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júlí 2022. Hinn 18. júlí 2022 barst kærunefnd kæra frá kæranda, ásamt fylgiskjölum.

III.      Málsástæður og rök kæranda

Kærandi skilaði inn athugasemdum með kæru sinni til kærunefndar þar sem fram kemur m.a. að umsókn hans hafi verið synjað á þeim grundvelli að hann hafi ekki veitt rökstuðning fyrir tilgangi ferðar sinnar. Kærandi gerir athugasemd við að honum hafi ekki verið leiðbeint eða tilkynnt um það áður en ákvörðun hafi verið tekin. Þá hafi umsókn hans verið synjað löngu eftir áætlaðan komudag hans til Íslands. Það hafi verið slæm upplifun fyrir kæranda þar sem hann hafi viljað ferðast til Íslands yfir heitasta tímann á Indlandi og sjá helstu ferðamannastaðina á Íslandi. Kærandi telur, í ljósi skorts á samskiptum, að hann hafi fengið ósanngjarna og óréttláta niðurstöðu þegar umsókn hans hafi verið synjað. Kærandi krefst þess að umsókn hans verði endurskoðuð með hliðsjón af framlögðum gögnum. Kærandi og fjölskylda hans séu náin og hafi djúpar rætur í indverskri menningu. Það hafi ekki hvarflað að honum að búa annars staðar en í heimaríki. Kærandi og fjölskylda hans vilji einungis ferðast og hafa gaman á Íslandi.

Í tölvubréfi frá kæranda til kærunefndar, dags. 1. ágúst 2022, kveðst kærandi hafa upplifað fjárhagstap vegna þess hve seint ákvörðun Útlendingastofnun hafi verið tekin. Kærandi hafi lagt fram öll þau gögn sem nauðsynleg séu til að færa rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar hans á Íslandi.  

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Indlands þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.

Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins hinn 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir.

Við veitingu vegabréfsáritana ber íslenskum stjórnvöldum sem einu af Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um að öllum formskilyrðum sé fullnægt heldur einnig að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúi ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þannig er reynt af fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að rétt sé að lögfesta ákveðin sjónarmið sem beri að miða við í mati á umsókn um vegabréfsáritun. Séu þessi sjónarmið í samræmi við markmið laganna og hafi mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Enn fremur segir í athugasemdum með frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru í ákvæðinu eru ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Synjunarform Útlendingastofnunar er í samræmi við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um vegabréfsáritanir (2009/810/EB), en nánari tilvísun er að finna í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er notað staðlað form þar sem hægt er að merkja í reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsókn sé synjað. Í ákvörðun kæranda er merkt í reit 2 vegna synjunar á umsókn hans, þ.e. að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi ekki eftir slíkum rökstuðningi hjá Útlendingastofnun.

Í 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar og þá sé heimilt að fela utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur sé heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem taki þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi að lögum um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að miðað sé við að umsóknir um vegabréfsáritun verði lagðar fram í skrifstofum sendiráða og ræðisskrifstofa erlendis og þær sendar Útlendingastofnun til ákvörðunar. Viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofa muni síðan gefa áritunina út að fenginni heimild Útlendingastofnunar. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti heimilað utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um umsóknir um vegabréfsáritun. Íslenska sendiráðið í Nýju-Delí tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Indlandi, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Í gögnum málsins liggur m.a. fyrir afrit úr málaskrá Útlendingastofnunar, Erlendi, vegna máls kæranda þar sem málsmeðferð hans hjá sendiráðinu er rakin. Kemur þar m.a. fram að kærandi hafi sótt um vegabréfsáritun til Austurríkis en verið synjað á þeim grundvelli að uppi væri skynsamlegur vafi um tilgang ferðar hans og fjölskyldu hans. Þá kemur fram að kærandi eigi sér enga ferðasögu og hafi ekki lagt fram ferðaáætlun fyrir fyrirhugaða ferð sína til Íslands. Kærandi hafi vitað mjög lítið um ferð sína til Íslands. Hann hafi ekki vitað ferðaáætlun sína og ekki getað nefnt neina staði á Íslandi sem hann væri að ferðast til. Hann hafi veitt þær skýringar að dóttir hans og sonur hefðu gert ferðaáætlunina og hann gæti ekki borið fram nafnið á stöðunum. Fram kemur að ekki hafi verið hægt að staðfesta flugbókun kæranda til landsins og jafnframt hafi hótelgisting kæranda hér á landi verið afbókuð. Þá hafi yfirlit yfir bankareikning kæranda ekki verið í hans nafni heldur eiginkonu hans sem skýtur skökku við upplýsingar í umsóknum kæranda, eiginkonu hans og dóttur. Í umsóknum eiginkonu kæranda og dóttur hans kemur fram að eiginmaður/faðir þeirra muni fjármagna ferðina og ábyrgjast framfærslu þeirra á meðan á henni standi. Í símaviðtali hafi kærandi verið spurður út í ferðasögu sína og kvaðst hann ekki hafa ferðast áður. Hann kvaðst hafa sótt um vegabréfsáritun til Austurríkis með aðstoð fulltrúa. Kærandi kvað fulltrúann hafa skemmt fyrir umsóknum þeirra og því hafi þeim verið synjað. Kærandi kvað börn sín í kjölfarið hafa flett upp stöðum á leitarvélinni Google og fundið Ísland. Þegar kærandi var spurður út í ferð sína til Íslands kvaðst hann ekki geta borið fram nöfnin á þeim stöðum sem hann hygðist skoða. Hann væri 57 ára gamall svo börnin hans vissu hvert þau væru að fara. Kærandi kvaðst ætla að halda áfram að reka fyrirtæki sitt þegar hann færi aftur til heimaríkis frá Íslandi. Það var mat fulltrúa sendiráðsins, í ljósi framangreinds, að umsókn kæranda skyldi synjað í samræmi við ii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Að mati kærunefndar eru framlögð gögn og þær málsástæður sem kærandi byggir á ekki þess eðlis að ástæða sé til að hnekkja mati Útlendingastofnunar á umsókn hans um vegabréfsáritun. Við það mat horfir kærunefnd m.a. til þess að kærandi gat ekki nefnt neina staði sem hann kvaðst ætla að skoða á Íslandi en kvað dóttur sína vita meira um staðina. Við meðferð málsins kvað dóttir kæranda þau ætla að dvelja í Reykjavík og skoða sig þar um. Samkvæmt afriti af hótelbókun kæranda sem hann lagði fram hjá Útlendingastofnun máli sínu til stuðnings ætlaði hann þó að gista á hóteli í Reykholti í Borgarfirði í sjö nætur, frá 28. júní til 5. júlí 2022. Líkt og fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar lagði kærandi ekki fram ferðaáætlun við meðferð málsins hjá stofnuninni en samhliða kæru sinni til kærunefndar lagði hann fram ferðaáætlun máli sínu til stuðnings. Ferðaáætlunin gerir ráð fyrir 7 daga hringferð um Ísland þar sem lagt sé af stað frá Reykjavík og m.a. stoppað á Hvolsvelli, Höfn, Mývatni og Akureyri. Ljóst er að ferðaáætlunin er afrituð í heild sinni af indverskri vefsíðu og því ekki samin af dóttur og syni kæranda líkt og hann greindi frá. Þá lagði kærandi fram afrit af nýrri hótelbókun samhliða kæru sinni en samkvæmt henni ætlaði hann að gista á hóteli í Keflavík í 7 nætur. Með hliðsjón af frásögn kæranda og framlögðum gögnum er ljóst að talsvert misræmi er til staðar varðandi fyrirhugaða dvöl hans hér á landi.

Að öllu framangreindu virtu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar á Íslandi, sbr. ii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Jafnframt telur kærunefnd, með vísan til framlagðrar ferðaáætlunar og misræmis varðandi fyrirtæki kæranda, að rökstudd ástæða sé til að draga í efa að innihald ferðaáætlunarinnar sé rétt, sem og áreiðanleika framburðar hans eða ásetning hans að fara frá yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin rennur út, sbr. viii-lið a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðarinnar. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Þorsteinn Gunnarsson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum