Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

UN Women styður kvennaathvarf fyrir Jasída konur

Þegar keyptar eru FO húfur UN Women felst í því stuðningur við Jasída konur í héruðum Kúrda í Írak sem þurft hafa að þola gróft kynbundið ofbeldi. UN Women vinnur að því að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum, fræðir almenning um skaðlegar afleiðingar kynbundins ofbeldis, tryggir þolendum viðeigandi aðstoð og stuðlar að sterkari löggjöf og framfylgd laga um ofbeldi gegn konum. Þetta kemur fram í frétt frá Landsnefnd UN Women á Íslandi.

Þar segir að UN Women styðji við kvennaathvarf fyrir Jasída konur sem neyddar hafa verið í kynlífsþrælkun og hafi þolað nauðganir oft á dag af hendi liðsmanna vígasveita Íslamska ríkisins undanfarin ár. „Þar fá þær áfallahjálp og aðstoð við að vinna úr skelfilegri reynslu og koma sér aftur af stað út í lífið. Hver og ein kona fær þriggja mánaða sálfræðiaðstoð í athvarfinu og áframhaldandi aðhlynningu ef þarf, rætt er við fjölskyldumeðlimi kvennanna sem fá einnig ráðleggingar um hvernig styðja megi við þær,“ segir í fréttinni.

Pari Ibrahim er stofnandi og framkvæmdastýra athvarfsins. Hún er aðeins 27 ára gömul og er sjálf Jasída kona og segir að fólk sitt hafi þjáðst óheyrilega í höndum vígasveita Íslamska ríkisins. „Karlmennirnir voru skotnir til bana en konurnar hnepptar í kynlífþrælkun til margra ára og eru margar enn í ánauð. Konum var og er enn nauðgað oft á dag af fjölda ólíkra liðsmanna vígasveitanna. Þær konur sem sækja athvarfið í dag hafa upplifað martröð sem enginn á að þurfa að þola. Þess vegna stofnaði ég kvennaathvarfið – til að útvega þessum konum öruggt skjól og aðstoð við að takast á við áföllin sem þær hafa orðið fyrir, valdefla þær og gera þeim kleift að halda áfram með líf sitt.“

Jasídar er fólk af kúrdískum uppruna sem sætt hefur miklum ofsóknum undanfarin ár af hendi vígasveita íslamska ríkisins.  Enn er þúsundum Jasída stúlkum haldið í kynlífsþrælkun bæði í Mósúl í Írak og Raqqa í Sýrlandi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum