Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp fjármálaráðherra um ívilnanir vegna vistvænna samgangna samþykkt í ríkisstjórn

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um ívilnanir vegna vistvænna ökutækja, rafmagnsreiðhjóla og annarra reiðhjóla var samþykkt í ríkisstjórn í dag. Umhverfissjónarmið voru höfð að leiðarljósi við gerð frumvarpsins sem hefur að meginmarkmiði að greiða fyrir orkuskiptum og vistvænum samgöngum með tilheyrandi samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru að auðvelda fólki kaup á hvers kyns vistvænum hjólum. Verði frumvarpið samþykkt hefur það í för með sér að felldur verður brott virðisaukaskattur af rafmagnsreiðhjólum og öðrum reiðhjólum, upp að ákveðnu marki. Gert er ráð fyrir að hámark niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum verði 96 þúsund krónur en 48 þúsund fyrir reiðhjól og var sú upphæð tvöfölduð eftir umsagnir sem bárust um málið í samráðsgátt stjórnvalda. 

 

 


Frá árinu 2012 hefur verið í gildi ívilnun sem lækkað hefur útsöluverð vistvænna ökutækja og gildir hún til ársloka 2020. Í frumvarpinu er lagt til að hún verði framlengd fyrir hreinorkutæki til ársloka 2023.

 

Kostnaður við heimahleðslustöðvar minnki verulega

Orkuskiptunum fylgir kostnaður við heimahleðslustöðvar sem mörg heimili huga nú að og er lagt til í frumvarpinu að hann minnki verulega með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts af bæði efni og vinnu.

Vistvænir almenningsvagnar

Einnig lækkar verð hópbifreiða sem notaðar eru í almenningsakstri á vegum opinberra aðila, þar með talinni akstursþjónustu fyrir skólabörn, aldraða og fatlað fólk.

Vistvæn ökutæki til útleigu og í fyrirtækjarekstri

Tillögurnar koma einnig til með að hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Má þar nefna undanþágu frá virðisaukaskatti vegna útleigu vistvænna bíla hjá eigna- eða fjármögnunarleigufyrirtækjum og bílaleigum. Þá mun flýtifyrning nýorkubíla geta nýst öllum atvinnurekstraraðilum.

Helstu efnisatriði frumvarpsins:

  • Að gildistími virðisaukaskattsívilnana samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt fyrir rafmagns- og vetnisbifreiðar verði framlengdur til og með 31. desember 2023.
  • Að fjárhæðarmörk heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts og undanþágu frá skattskyldri veltu við kaup á rafmagns- eða vetnisbifreið verði hækkuð.
  • Að virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbifreiðar falli niður eftir 31. desember 2020.
  • Að fjöldi þeirra bifreiða sem falla undir ívilnanir samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt verði aukinn.
  • Að heimilt verði að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki vegna innflutnings bifhjóls sem knúið er rafmagni eða gengur fyrir vetni, létt bifhjóls sem knúið er rafmagni eða reiðhjóls.
  •  Að núverandi heimild til að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna við uppsetningu hleðslustöðva í eða við íbúðarhúsnæði verði aukin upp í 100%.
  • Að byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis verði veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á hleðslustöðvum í eða við íbúðarhúsnæði.
  • Að útleiga handhafa leyfis til að reka ökutækjaleigu, eignaleigu eða fjármögnunarleigu á bifreiðum sem falla undir ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt verði undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu.
  • Að heimilt verði við innflutning eða sölu á hópbifreið í almenningsakstri sem notar eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni sem orkugjafa, að fella niður virðisaukaskatt eða telja hann til undanþeginnar veltu.
  • Að atvinnurekstraraðilum verði heimilað að fyrna að fullu á kaupári niður að niðurlagsverði eignar ökutæki sem nýta eingöngu metan, metanól, rafmagn eða vetni að því gefnu að nýorkuökutæki sé að öllu leyti nýtt í skattskyldri starfsemi lögaðila eða sjálfstætt starfandi einstaklings.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum