Hoppa yfir valmynd
17. maí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 289/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 289/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030100

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 381/2022, dags. 22. september 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júlí 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Kærandi var fluttur frá landinu af stoðdeild Ríkislögreglustjóra 19. október 2022.

    Hinn 13. nóvember 2022 kom kærandi aftur til landsins og lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd að nýju. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 153/2023, dags. 23. mars 2023, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. desember 2022, um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 24. mars 2023.

    Hinn 30. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð.

    Endurupptökubeiðni kæranda er byggð á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi krefst þess að kærunefnd útlendingamála taki umsókn hans um alþjóðlega vernd upp að nýju og til efnismeðferðar hér á landi, með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, en til vara með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1996 og 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi vísar til þess að nú hafi verið lögð fram gögn sem varpi skýrara ljósi á alvarleika þeirra mannréttindabrota sem kærandi og aðrir einstaklingar í hans stöðu þurfi að horfast í augu við í Grikklandi og skýri betur ástæður þess að flutningur kæranda til Grikklands sé ekki raunhæfur kostur.

    Kærandi vísar til fréttagreinar sem birt hafi verið á vefsíðu fréttamiðilsins Vísis, þar sem ítarlega sé gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar blaðamanna spænska dagblaðsins El País og gríska blaðsins Solomon, sem hafi rannsakað meðferð grískra stjórnvalda og lögreglunnar á flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd í Grikklandi. Samkvæmt því sem þar komi fram hafi á síðustu sex árum yfir 20.000 manns verið fluttir með ólögmætum hætti frá Grikklandi til Tyrklands. Lögreglan hafi safnað saman flóttafólki m.a. fólki sem hafi komið ólöglega inn í landið, fólki með dvalarleyfi og einstaklingum sem eru með umsókn um alþjóðlega vernd í vinnslu hjá stjórnvöldum, upp af götunni og komið því fyrir á afviknum stöðum. Þar sé fólk geymt í nokkra daga þar til búið sé að safna saman 80-100 manns og þá sé farið með hópinn yfir til Tyrklands. Samkvæmt frásögn El País beiti lögreglumenn ofbeldi og misþyrmi fólkinu. Þá séu dæmi um kynferðislegt ofbeldi og að eigur fólks séu hirtar. Kærunefnd útlendingamála hafi ekki tekið tillit til þessara upplýsinga sem fram komi í niðurstöðu rannsóknarinnar við úrvinnslu á kæru kæranda og séu þessar upplýsingar því lagðar fyrir nefndina.

    Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að flutningur kæranda sé skýrt brot á ákvæðum 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 42. gr. sömu laga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og íslenskum stjórnvöldum beri að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 23. mars 2023. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Vísar kærandi fréttagreinar á vefsíðunni visir.is, dags. 19. mars 2023, með fyrirsögninni Grísk lögregla rænir og misþyrmir hælisleitendum kerfisbundið. Í fréttagreininni er vísað til rannsóknar blaðamanna hjá spænska dagblaðinu El País og gríska blaðinu Salomon sem unnu rannsókn á meðferð grískra stjórnvalda og lögreglunnar á flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd á tímabilinu september 2022 til mars 2023.

Kærandi vísar til þess að í fréttinni komi m.a. fram að dæmi hafi verið um að einstaklingum með alþjóðlega vernd í Grikklandi hafi verið vikið úr landi. Kærunefnd hefur kynnt sér efni rannsóknarinnar og tekur fram að fyrrgreind rannsókn spænska og gríska blaðanna snúi einkum að einstaklingum sem staddir eru við landamæri Grikklands eða hafa komið til landsins með ólögmætum hætti og ekki lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd eða hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi. Í greininni er þó jafnframt fjallað um að dæmi séu um að flóttafólk sé handtekið á mismunandi stöðum innan Grikklands, jafnvel þó það hafi hlotið alþjóðlega vernd þar í landi eða sé í umsóknarferli og í kjölfarið flutt á einangraða staði og þaðan til Tyrklands. Að mati kærunefndar ber fyrrgreindur fréttaflutningur eða önnur gögn málsins ekki með sér að slíkar aðgerðir séu markvisst viðhafðar af hálfu grískra yfirvalda eða að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi eigi slíka meðferð á hættu. Þá snýr fréttaflutningurinn að miklu leyti að því að gríska landamæralögreglan hafi stolið verðmætum af þeim sem komi ólöglega inn í landið og þeim sem hafi verið fluttir aftur til Tyrklands. Líkt og fram hefur komið er kærandi handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og er með gilt dvalarleyfi þar í landi 23. nóvember 2024. Það er mat kærunefndar, að kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, eigi ekki á hættu þá meðferð í viðtökuríki að vera vísað frá landinu með handahófskenndum hætti. Þá bendir ekkert í gögnum málsins eða frásögn kæranda til þess að hann hafi óttast að vera handsamaður af grísku lögreglunni og fluttur til Tyrklands.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi hafi borið fyrir sig að hafa orðið fyrir kynþáttafordómum og mismunun í Grikklandi, m.a. af hendi lögreglu. Kærandi greindi ekki frá tilteknu atviki en greindi frá því í greinargerð að verði kærandi endursendur til Grikklands eigi hann á hættu fordóma og ofbeldi í landinu, jafnvel af hálfu grísku lögreglunnar og honum standi ekki raunhæf úrræði til verndar til boða í Grikklandi. Þá greindi kærandi frá því við meðferð fyrri umsóknar hans um alþjóðlega vernd hér á landi að hann hafi mátt þola ofbeldi af hálfu lögreglu í flóttamannabúðunum í Grikklandi. Lögregla hafi handtekið hann, tekið símann hans og eytt öllum myndum og skilið hann eftir á víðavangi. Með hliðsjón af alþjóðlegum skýrslum og gögnum málsins var það mat kærunefndar að óttaðist kærandi um öryggi sitt gæti hann leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Þá bera heimildir, m.a. skýrsla bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022, með sér að kærandi geti lagt fram kvörtun um meint ofbeldi af hálfu lögreglu til umboðsmanns Grikklands þar sem slík brot eru rannsökuð. Í sömu skýrslu kemur jafnframt fram að grísk yfirvöld hafi tekið skref í þá átt að rannsaka, lögsækja og refsa embættismönnum sem hafi gerst sekir um mannréttindabrot eða stundað spillingu. Þá kemur fram að ábendingar hafi borist frá frjálsum félagasamtökum og fjölmiðlum um að lögregla og landamæraverðir hafi beitt ofbeldi og hættulegum aðferðum til að hindra aðgang flóttafólks að landinu. Samkvæmt skýrslunni hafa fallið dómar gegn lögreglumönnum í Grikklandi vegna ofbeldis í garð flóttafólks.

Líkt og kærunefnd hefur áður fjallað um í úrskurðarframkvæmd sinni er gerður ákveðinn greinarmunur á þeim sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi og þeim sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. Ljóst er að aðstæður kæranda, sem er handhafi alþjóðlegrar verndar í viðtökuríki, eru ekki af því alvarleikastigi að þær nái þeim háa þröskuldi sem dómar Mannréttindadómstóls Evrópu og Evrópudómstólsins hafa sett fyrir broti á 3. gr. mannréttindasáttmálans og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarmannréttindi, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstólsins í Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi sem vísað var til í úrskurði kærunefndar í máli kæranda nr. 153/2023 og ummæli í dómi Evrópudómstólsins í málum Jawo. Kærunefnd telur að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd sem sendir eru aftur til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa vernd þar í landi séu almennt ekki sambærilegar. Við það mat vísar kærunefnd m.a. til þess að þeir sem hafi hlotið rétt til dvalar í Grikklandi njóti, ólíkt þeim sem eru í umsóknarferli, sambærilegra réttinda og ríkisborgarar Grikklands, einkum hvað varðar aðgengi að atvinnumarkaði, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Það er jafnframt mat kærunefndar að kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar og gilds dvalarleyfis þar í landi, eigi ekki á hættu að vera vísað frá landinu með handahófskenndum hætti auk þess sem að þau tilvik sem nefnd séu í umræddum fréttaflutningi hafi öllu fremur verið afmörkuð atvik en viðtekin venja.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 23. mars 2023, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum