Hoppa yfir valmynd
28. mars 2019

Jafnréttisákvæði í fríverslunarsamningum – Ísland stendur fyrir málþingi í WTO ásamt UNCTAD og Botsvana

Á myndinni má sjá Harald Aspelund fastafulltrúa Íslands flytja opnunarávarp. Með honum á myndinni eru Roberto Azevêdo, framkvæmdastjóri WTO, Isabelle Durant, aðstoðarframkvæmdastjóri UNCTAD, Arancha González, framkvæmdastjóri ITC og Sefatlhego Matebekwane, fulltrúi fastanefnar Botsvana. - mynd
Hvernig geta fríverslunarsamningar eflt stöðu jafnréttismála og stuðlað að því að tryggja jöfn tækifæri fyrir konur og karla á sviði alþjóðaviðskipta? Þessi spurning var í brennidepli á málþingi í Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem Ísland, Botsvana og UNCTAD stóðu fyrir í dag.

Málþingið var haldið á grundvelli yfirlýsingar um alþjóðaviðskipti og efnahagslega valdeflingu kvenna sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í að hleypa af stokkunum á ráðherrafundi WTO í Buenos Aires árið 2017. Í yfirlýsingunni skuldbinda ríki sig til að starfa saman að því að skilja betur hvaða hindranir standa í veg fyrir konum í viðskiptum og hvernig ríki geta starfað saman til að fjarlægja hindranirnar og tryggt jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum. Ísland hefur verið í fararbroddi við að setja jafnréttismál á dagskrá í umræðu um alþjóðaviðskipti og leiðir vinnuhóp um þessi mál í Genf sem hafði frumkvæði að gerð yfirlýsingarinnar.

Jafnréttismál hafa lengst af staðið utan umræðu um alþjóðaviðskipti en þetta hefur verið að breytast á síðustu misserum og er nú sérstaklega fjallað um jafnréttismál í nokkrum fríverslunarsamningum. Á málþinginu var litið sérstaklega til þess hvað hefur þegar verið gert á þessu sviði og hvernig megi þróa ákvæði um jafnréttismál og gefa þeim aukið vægi í framtíðinni. Þess má geta að Ísland hefur einnig haft frumkvæði að því að EFTA skoði hvernig megi taka ákvæði um jafnrétti inn í fríverslunarsamningsmódel EFTA og er sú vinna nú langt komin.


  • Jafnréttisákvæði í fríverslunarsamningum – Ísland stendur fyrir málþingi í WTO ásamt UNCTAD og Botsvana - mynd úr myndasafni númer 1
  • Jafnréttisákvæði í fríverslunarsamningum – Ísland stendur fyrir málþingi í WTO ásamt UNCTAD og Botsvana - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum