Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um vopn, sprengiefni og skotelda til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi að nýjum lögum um vopn, sprengiefni og skotelda sem koma eiga í stað vopnalaga nr. 16/1998. Reynslan af gildandi lögum hefur ekki verið að öllu leyti góð en af þeim hefur hlotist nokkur óvissa og ágreiningur. 

Markmið með frumvarpinu er að gera löggjöfina um þetta efni skýrari og því er frumvarpstextinn nokkuð ítarlegur. Þá er leitast við að auka öryggi samfélagsins með því að auka heimildir lögreglu til að leggja hald á skotvopn, sprengiefni og flugelda sem og að afturkalla leyfi. Skotvopn og sprengiefni eru hættuleg og almenningur verður að geta treyst því að óhæfir einstaklingar fái ekki leyfi skv. frumvarpinu. Unnt er að senda athugasemdir við frumvarpsdrögin á netfangið [email protected] til 30. janúar nk.

Meginbreytingar eru eftirfarandi:

 • Sjálfvirk og hálfsjálfvirk skotvopn, að undanskildum hálfsjálfvirkum eða handhlöðnum fjölskota haglabyssum með skothylkjahólfum fyrir aðeins tvö skothylki, verða með öllu bönnuð.
 • Skilyrði þess að fá skotvopnaleyfi eru í meginatriðum þau sömu og í gildandi lögum að undanskyldu skilyrði um reglusemi. Þá þarf að samþykkja að lögreglustjóri kanni hvort umsækjandi um skotvopnaleyfi uppfylli skilyrði um andlega heilbrigði, reglusemi og hæfi.
 • Heimilt er að veita undanþágu frá aldurskilyrði með ströngum skilyrðum.
 • Forráðamaður, nákominn ættingi eða venslamaður manns yngri en 20 ára, sem sjálfur er minnst 25 ára að aldri og hefur haft skotvopnaleyfi í minnst tvö ár, getur leyft honum að nota vopnið til skotæfinga eða veiða, enda sé leyfishafi sjálfur viðstaddur, hafi umsjón með notkun skotvopnsins, sýni fyllstu aðgæslu og láti skotvopnið ekki úr yfirráðum sínum. Sé um að ræða ólögráða mann og viðkomandi er ekki forráðamaður hans, skal einnig liggja fyrir skriflegt leyfi forráðamanns til þessa.
 • Gert er ráð fyrir því að maður geti fengið lánað skotvopn hjá skotíþrótta- eða skotveiðifélagi til þess að æfa sig með því á svæði félagsins án þess að hann þurfi að fá útgefið skotvopnaleyfi. Er þetta ákvæði sett til þess að koma til móts við þörf þeirra sem kynnu að vilja láta reyna á það hvort það henti þeim að leggja stund á skotfimi án þess að þeir þurfi fyrst að afla sér skotvopnaleyfis.
 • Hámarksfjöldi skotvopna í eigu einstaklings verða 20 vopn.
 • Tími fyrir dánarbú til að ráðstafa skotvopnum hefur verið rýmkaður.
 • Ákvæði um sprengiefni er nokkuð breytt og aukið.
 • Lögreglustjóra verður skylt en ekki heimilt að afturkalla leyfi samkvæmt lögunum ef nauðsynleg skilyrði eru ekki uppfyllt en lögreglustjórum ber að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli leyfisskilyrði. Þá er lögreglustjóra heimilt til bráðabirgða að afturkalla leyfi án fyrirvara ef brýna nauðsyn ber til og leggja jafnframt hald á vopn, efni og tæki.
 • Refsimörk fyrir stórfelld brot eru hækkuð í 8 ára fangelsi.
 • Brot lögaðila á lögunum geta varðað refsiábyrgð.
 • Heimilt verður að svipta menn réttindum við broti á lögunum.
 • Einstaklingar geta skilað inn leyfislausum og bönnuðum hlutum sér að refsilausu.

Rétt er að geta þess að í ákvæði til bráðabirgða eru eftirfarandi ákvæði:

„Bann við því að eiga og nota skotvopn í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim tekur ekki til skotvopna, sem fara í bága við lög þessi, hafi þau verið lögleg eftir eldri lögum.

Þrátt fyrir skilyrði II., III. og IV. kafla laga þessara skulu þeir, sem fengið hafa leyfi til þess að framleiða, flytja inn eða úr landi, versla með, eiga eða fara með skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda í gildistíð eldri laga, halda þeim réttindum sínum. Leyfishöfum ber þó að uppfylla skilyrði laganna þegar leyfi er endurnýjað.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira