Hoppa yfir valmynd
7. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Norrænir ráðherrar ræddu stafrænt ofbeldi

Ljósmynd: UN Women - mynd

Ráðherrar allra Norðurlandanna ræddu viðbrögð og lausnir við stafrænu ofbeldi á 67. Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna. Hliðarviðburður formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni „Pushing back the push back: Nordic solution to online gender-based violence“ fór fram í ECOSOC sal aðalbyggingar Sameinuðu þjóðanna í New York í gær.

Framsögufólk á viðburðinum voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands, Sirið Stenberg félags- og menningarmálaráðherra Færeyja, Naaja H. Nathanielsen fjármála- og jafnréttismálaráðherra Grænlands, Paulina Brandberg jafnréttismálaráðherra Svíþjóðar, Marie Bjerre jafnréttis- og tæknimálaráðherra Danmerkur, Gry Haugsbakken menningar- og jafnréttismálaráðherra Noregs og Thomas Blomqvist ráðherra Norræns samstarfs og jafnréttismála í Finnlandi. María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur og verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra, stýrði fundinum.

Í frétt UN Women segir að fundurinn hafi verið vel sóttur og sérlega áhugaverður. Meðal þess sem rætt var voru þær áskoranir sem Norðurlöndin standa frammi fyrir þegar kemur að baráttunni gegn stafrænu ofbeldi og mikilvægi þess að netið verði öruggt rými fyrir öll. Þá var fjallað um mikilvægi alþjóðasamstarfs á þessum vettvangi sem öðrum, enda þrífst stafrænt ofbeldi alls staðar.

„Í upphafi viðburðarins bað María Rún norrænu ráðherrana að forðast það að vera „leiðinlegir“ og hvatti þá heldur til að ræða málefnið á persónulegum nótum. Óhætt er að fullyrða að ráðherrarnir hafi orðið við þeirri bón og ræddu þeir málin af áhuga og einlægni.

Norrænu ráðherrarnir voru sammála um að uppfæra þurfi kynferðisbrotalög hvers lands svo þau nái einnig til stafræns ofbeldis. Lagabreytingar í Svíþjóð þýða að nú sé hægt að kæra nauðgun þó að ekki hafi orðið líkamleg snerting. Paulina Brandberg, jafnréttismálaráðherra Svíþjóðar segir lagabreytinguna endurspegla hugarfarsbreytingu í garð stafræns ofbeldis.

„Fólki þótti stafrænt ofbeldi vera minna ofbeldi því það var engin líkamleg snerting á milli geranda og þolanda. En í raun hefur þetta gríðarlegar afleiðingar fyrir þann sem hefur orðið fyrir nauðgun með þvingunum og hótunum til að framkvæma kynferðislegar athafnir stafrænt. Þessir einstaklingar þurfa að takast á við það að brotið sé aðgengilegt á netinu alla tíð. Nú er hægt að kæra fyrir nauðgun af þessu tagi í Svíþjóð.“

Lagabreytingar ekki nóg

Í inngangi sínum nefnir Katrín Jakobsdóttir þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu sem lögð var fram í upphafi árs og er ætlað að taka á hatursorðræðu á netinu. Ráðherrarnir voru þó sammála um að lagabreytingar séu ekki nóg, árangur muni ekki nást í þessum málaflokki nema með aukinni fræðslu til grunnskólabarna um tæknilæsi og jafnrétti.         

„Lagabreytingar uppræta ekki rót vandans. Rót vandans er feðraveldið og kvenhatur og við þurfum að grípa inn í strax ef uppræta á rótina. Til þess þarf öfluga fræðslu á öllum stigum menntakerfisins samhliða betri reglugerðunum og lagabreytingum sem styðja við upprætingu stafræns ofbeldis og hatursorðræðu,“ sagði Naaja H. Nathanielsen fjármála- og jafnréttismálaráðherra Grænlands.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum