Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Útgjöld vegna geðrofslyfja lækka

Útgjöld Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) vegna geðrofslyfja fara lækkandi en samkvæmt upplýsingum fyrir árið 2012 um notkun þeirra lækkuðu útgjöld um 83 milljónir kr. á sex mánaða tímabili. Þetta kemur fram á vef stofnunarinnar þar sem segir jafnframt:

„Þennan árangur má rekja til reglugerðarbreytingar sem tók gildi þann 1. júní 2012.  Breytingarnar fólu í sér að SÍ taka nú einungis þátt í greiðslu hagkvæmustu pakkninga geðrofslyfja.

SÍ höfðu gert ráð fyrir að umræddar breytingar gætu sparað um 50-100 milljónir kr. á ársgrundvelli en miðað við stöðuna nú má ætla að árlegur sparnaður geti orðið allt að 150-200 milljónum kr. Heildarkostnaður geðrofslyfja árið 2011 var 756 milljónir kr. Enn á eftir að tryggja kostnaðarlækkun upp á 450 milljónir kr. vegna lyfja í heild í samræmi við forsendur fjárlaga 2013.

Þegar hagkvæmustu pakkningar eru metnar er horft til verðs á skilgreindum dagskammti (DDD) í pakkningu. Greiðsluþátttökuverð það sem miðað er við í tilfelli geðrofslyfja er 600 kr. eða lægra. SÍ taka ekki þátt í greiðslu annarra geðrofslyfja, en læknar geta þó sótt um lyfjaskírteini ef hagkvæmustu lyfin reynast ófullnægjandi.

Í kjölfar breytinganna hefur talsverður fjöldi dýrari geðrofslyfja lækkað í verði og munar þar langmest um Quetiapin Mylan sem hefur verið kostnaðarsamasta lyfið. Verðlækkun á því lyfi skýrir stóran hluta sparnaðarins, en lyfið hefur lækkað um allt að 69%. 

Á síðastliðnum 12 mánuðum hafa um 10 þúsund einstaklingar fengið ávísað geðrofslyfjum sem er svipaður fjöldi og árið áður.

Vert er að hafa í huga að árangur breytinganna er ekki að fullu kominn fram þar sem þær tóku gildi 1. júní s.l. og hluti útgefinna lyfseðla héldu gildi sínu til 31. október.“ 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira