Hoppa yfir valmynd
7. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 264/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 264/2020

Miðvikudaginn 7. október 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 19. maí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. maí 2020 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati, dags. 2. febrúar 2015, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað en henni metinn örorkustyrkur vegna tímabilsins 1. janúar 2015 til 31. janúar 2017. Með örorkumati, dags. 26. apríl 2018, var umsókn kæranda um örorulífeyri og tengdar greiðslur synjað en henni metinn varanlegur örorkustyrkur frá 1. febrúar 2017. Með umsókn 13. apríl 2020 fór kærandi fram á endurmat á gildandi örorkumati en var synjað um breytingu með bréfi, dags. 12. maí 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. maí 2020. Með bréfi, dags. 2. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 16. júní 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. júní 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er óskað eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um breytingu á gildandi örorkumati verði endurskoðuð.

Greint er frá því í kæru að kærandi sé með króníska verki í kviðarholi og vegna krabbameins hafi […] verið tekið þegar hún hafi verið X ára. Síðan þá hafi hún verið með endurtekna kviðverki. Kærandi hafi einnig farið í gallblöðruaðgerð fyrir um X árum en sé enn með verki.

Heilsufar kæranda síðastliðinn áratug hafi verið með öllu óviðunandi, hún sé óvinnufær vegna verkja og óþæginda í kviðarholi, endurtekinna þvagfærasýkinga og staðfests blöðrusigs. Kærandi sé með endurtekinn ristilvanda með niðurgangsköstum, of háan blóðþrýsting og blóðfitu. Hún sé með stoðkerfisverki í mjöðmum og hnjám, sé með mikla æðahnúta og þurfi að fara í fleiri aðgerðir vegna þess. Hún sé með vaxandi kvíða, þunglyndi, svefnvanda og afkomuáhyggjur. Í mörg ár hafi kærandi sinnt […], án aðstoðar frá heilbrigðiskerfinu þar sem hún hafi verið föst á biðlista eftir þjónustu þar til í […]. Kærandi hafi verið algjörlega búin á líkama og sál þegar þar að kom. Hún hafi reynt ýmislegt til að bæta sína líðan en án árangurs. Eiginmaður hennar hafi einn þurft að framfleyta fjölskyldunni þar sem hún hafi verið óvinnufær og ekki fengið örorkulífeyri. Ekki verði við það unað lengur þar sem það sé andstætt íslenskum lögum um að framfærsla sé tryggð. 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Við afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 30. mars 2020, svör við spurningalista, dags. 6. maí 2020, og læknisvottorð, dags. 8. apríl 2020.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. maí 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um örorkulífeyri hefði verið synjað með þeim rökum að framlögð gögn gæfu ekki tilefni til breytinga á því 50% örorkumati sem hafi verið í gildi frá 1. janúar 2015. Samkvæmt því mati eigi kærandi rétt á ótímabundnum örorkustyrk.

Vegna framkominnar kæru hafi Tryggingastofnun farið á ný yfir gögn málsins og athugasemdir kæranda til úrskurðarnefndar.

Í læknisvottorði, dags. 8. apríl 2020, komi fram að kærandi sé X kona sem hafi ekki verið á vinnumarkaði í X ár en hafi áður unnið ýmis störf til sjós og lands. Fyrir X árum hafi [..] verið fjarlægt en upp úr því hafi hún glímt við kviðverki. Hún glími sömuleiðis við mikinn kvíða og depurð sem hún tengi að miklu leyti þeim kviðverkjum sem hafi verið að hrjá hana. Að mati læknis sé mjög ólíklegt að hún fari aftur á vinnumarkað. Hún geti verið til staðar fyrir fjölskyldu sína […] en sé ekki vinnufær.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi örorkustyrkur verið ákveðinn á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 2. febrúar 2015 að teknu tilliti til skoðunarskýrslu, dags. 22. janúar 2015. Í bréfi Tryggingastofnunar til kæranda hafi verið vísað til þess að hún stríði við kviðverki, geðrænan vanda og fleira. Þá segi að við skoðun með tilliti til staðals komi fram að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður, geðsveiflur valdi henni óþægindum einhvern hluta dagsins, svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, andlegt álag hafi átt þátt í að hún hafi lagt niður starf, hún forðist hversdagleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, henni finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis, hún kvíði því að þunglyndi hennar versni fari hún aftur að vinna og hún ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik.

Niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar á þeim tíma hafi verið sú að skilyrði staðals um hæsta örorkustig væru ekki uppfyllt en færni til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Á þeim grundvelli hafi örorkustyrkur verið ákveðinn fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 31. janúar 2017. Í bréfi Tryggingastofnunar hafi einnig verið vísað til þess að kærandi hafi áður verið á endurhæfingarlífeyri frá 1. desember 2013 til 31. mars 2014.

Kærandi hafi sótt á ný um örorkulífeyri með umsókn, dags. 18. apríl 2018. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. apríl 2018, með vísan til þess að skilyrði staðals um örorkulífeyri væru ekki uppfyllt en að færni til almennra starfs teldist skert að hluta. Læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk hafi verið uppfyllt og örorka metin 50% ótímabundið frá 1. febrúar 2017.

Samanburður á þeim gögnum, sem hafa legið til grundvallar ákvörðunum Tryggingastofnunar í máli þessu, benda ekki til þess að breyting hafi orðið á heilsufari kæranda á síðustu misserum í þeim mæli að það kalli á endurskoðun á því örorkumati sem hafi verið í gildi síðan í janúar 2015. Einnig sé bent á að upplýsingar um þá kviðverki sem hafa hrjáð kæranda, hafi legið fyrir við upphaflegt örorkumat Tryggingastofnunar.

Að öllu samanlögðu gefi fyrirliggjandi gögn ekki tilefni til að ætla að kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. laga um um almannatryggingar um að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. einnig skilyrði staðals um örorku samkvæmt reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Með vísan til framanritaðs sé niðurstaða Tryggingastofnunarinnar sú að ákvörðun um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en staðfesta fyrra örorkumat hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt lögum um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. maí 2020 um að synja kæranda um breytingu á gildandi örorkumati. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 8. apríl 2020. Eftirtaldar sjúkdómsgreiningar eru tilgreindar í vottorðinu:

„[Tobacco dependance

Mixed anxiety and depressive disorder

Hypertension arterial

Kviðverkir]“

Um fyrra heilsufar kæranda segir meðal annars í vottorðinu:

„X ára kona sem ekki hefur verið í vinnu í x ár.

Flutti frá […]. Hefur ekki verið á vinnumarkaði síðan. Vann ýmis störf áður, […]

Fjarlægt […] fyrir X árum síðan. Hefur síðan verið glíma við kviðverki.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„Mikill kvíði og depurð. Gleðileysi og niðurdregin. Tengir það miklu leyt þeim kviðverkjum sem hafa verið að hrjá hana í mörg ár. Verkir fyrst og fremst í hægri fossu. Verið með blóð í þvagi. Farið í mikla uppvinnslu vegna þessa m.a. CT og segulómun af kvið, farið í ristilspeglun og magaspeglun. Engin skýring finnst. Undirrituð taldi að gæit verið samvextir. Hefur verið hjá kvensjúkdómalæknum en ekki farið í kviðarholsspelgun.

Farið ítrekað í blöðruspeglun hjá þvagfæraskurðlækni , engin skýring. Það fundust gallsteinar við uppvinnslu sem voru fjarlægðir X en breyttu engu um kviðverkina í hægri fossu.

Hef sent tilvísanir til almenns skurðlæknis C sem skoðaði hana í janúar 2020 og taldi ólíklegt að kviðarholsspelgun mundi leiða eitthvað í ljós og vísaði henni tilbaka í heilsugæslu.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„BÞ 160/79

Hávaxin, grannvaxin snyrtileg kona. Geðslag lækkað. Kvíðin.

Eðlileg hjarta og lungnahlustn.

Kviður:

Eðlilegur að sjá. Garnagljóð til staðar. Mjúkur. Aum í hæ. fossu og upp í hæð við umbilicus hæ. megin. Aðrir quadrantar óaumir. Ekki bankaum yfir nýrum.“

Samkvæmt vottorðinu er það mat læknis að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni hennar aukist. Í nánara áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„[…] Mæli með fullri örorku fram til 67 ára aldurs.“

Fyrir liggur læknisvottorð B, dags. 22. mars 2020, sem er að mestu samhljóða framangreindu vottorði hennar. Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 20. nóvember 2014, vegna eldri umsóknar kæranda um örorkulífeyri. Í vottorðinu eru tilgreindar sjúkdómsgreiningarnar háþrýstingur, hægri kviðverkir, þunglyndi, blóð í þvagi og „Gastro oesophageal reflux disease with oesophagitis“. Varðandi starfsgetu og batahorfur segir að kærandi sé óvinnufær en að búast megi aukinni færni eftir læknismeðferð eða með tímanum. Í athugasemdum segir:

„Ef skýring finnst á hennar verkjum er möguleiki á að hún fari aftur á vinnumarkað að öðrum kosti finnst mér það mjög ólíklegt.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti frá 6. maí 2020 með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Þar lýsir kærandi heilsuvanda sínum þannig að hún sé með þvagfæravandamál, kvið- og stoðkerfisverki, depurð og að hún sé uppgefin á líkama og sál. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún sé með verki í hnjám og þurfi helst að hafa eitthvað til að taka í til að reisa sig upp. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að hún sé með verki í hnjám og mjöðmum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna hægðum þannig að hún sé mjög oft með niðurgang sem komi allt í einu og verði hún því að vera í nálægð við salerni. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna þvaglátum þannig að hún sé með endalausar þvagfærasýkingar og óþægindi og þurfi að vera nálægt salerni. Kærandi svarar játandi spurningu um það hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Í nánari lýsingu greinir kærandi frá því hún hafi verið döpur og kvíðin í langan tíma. Í athugasemdum segir að kærandi voni að umsókn hennar verði tekið jákvætt, hún hafi staðið sig vel í gegnum tíðina í leik og starfi en nú þurfi hún aðstoð.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 22. janúar 2015. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu þannig að kærandi missi þvag stöku sinnum. Hvað varðar andlega færniskerðingu telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Að mati skoðunarlæknis valda geðsveiflur kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Að mati skoðunarlæknis hafa svefnvandamál áhrif á dagleg störf kæranda. Að mati skoðunarlæknis átti andlegt álag þátt í að umsækjandi lagði niður starf. Að mati skoðunarlæknis forðast kærandi hversdagleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Að mati skoðunarlæknis finnst kæranda oft að hún hafi svo miklu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Að mati skoðunarlæknis kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Að mat skoðunarlæknis ergir kærandi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu. Í skýrslunni kemur fram að eðlilegt sé að endurmeta ástand kæranda eftir þrjú ár.

Geðheilsu kæranda er lýst svo skýrslunni:

„Þunglyndi og verkjaástand.“

Atferli kæranda í viðtali er lýst svo í skýrslunni:

„Þreytu- og mæðuleg. Tárast í viðtali, lýsir uppgjöf.

Gefur ágæta sögu.“

Líkamsskoðun kæranda er lýst svo í skýrslunni:

„[…] Göngulag eðlilegt. Situr í viðtali í 30 mínútur án sýnilegra óþæginda. Rís upp án stuðnings.

Eðlileg hreyfigeta í hálsi og öxlum. Hendur eðlilegar. Kraftar og refelxar griplima eðl. Við frambeygju í baki nema fingur við gólf. Hún getur farið niður á hækjur og risið upp án stuðnings. Væg eymsli eru í herðum. Eymsli eru yfir trochanter hæ megin. Kviður er mjúkur, en hún kvartar um eymsli í hæ fossa.

SLR neg. Kraftar og reflexar gagnlima eruð eðl.“

Sjúkrasögu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Kviðverkir og blóð í þvagi hafi háð henni lengi, verið rannsökuð mikið […] en ekkert hefur komið út úr því. […]

Mikil uppgjöf í heinni, finnst hún vera orðin „ónýt“.[…]

Hún hefur verið metin þunglynd […]

[…]

Samskipti við fólk hafa minnkað.

Minnið er ekki nógu gott, en ekki til stórra vandræða, ekki slys.

Svefninn er oft truflaður vegna verkjanna.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„[…]

Býr í fjölbýli í lyftuhúsi, en hún á ekki í vandræðum með að ganga upp stiga.

Vaknar snemma, um kl 7-7:30, fer oft á fætur þá strax.

Sinnir heimilisstörfum. Finnst erfitt að ryksuga og skúra, en gerir það og er uppgefin á eftir. […].

Til að stytta sér stundir les hún, gerir handavinnu, prjónar eða saumar.

Hún sinnir innkaupum, fer stundum gangandi […], stundum akandi.

Áhugamál: Handavinna, lestur. Synti mikið er hún átti heima […].

Er ekki í neinum klúbbum né félagsskap.

[…]“

Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi missi stundum þvag. Slíkt gefur ekki stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing ekki metin til stiga. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að geðrænt ástand hennar komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kæranda finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafði angrað hana áður en hún varð veik. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til níu stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Fyrir liggur að kærandi hefur einungis í eitt skipti verið kölluð í skoðun hjá skoðunarlækni, nánar tiltekið 22. janúar 2015. Kærandi hefur tvívegis sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur á ný síðan skoðun fór fram. Í fyrra skiptið samþykkti Tryggingastofnun ríkisins varanlegan örorkustyrk með ákvörðun, dags. 26. apríl 2018. Í seinna skiptið var kæranda synjað um breytingu á gildandi mati með ákvörðun, dags. 12. maí 2020. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að veikindi kæranda eru þess eðlis að þau geta verið mjög breytileg frá einum tíma til annars. Með vísan til eðlis veikinda kæranda og þess hversu langt er síðan skoðun skoðunarlæknis fór fram og enn fremur í ljósi þess hversu nálægt kærandi var að uppfylla skilyrði örorkulífeyris við síðustu skoðun, telur úrskurðarnefndin rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli að undangenginni læknisskoðun. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um breytingu á gildandi mati. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til mats á örorku kæranda að undangenginni læknisskoðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um breytingu á gildandi örorkumati, er felld úr gildi. Málinu er vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

_______________________________________

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum