Hoppa yfir valmynd
7. mars 2010 Dómsmálaráðuneytið

Frétt frá landskjörstjórn um niðurstöðu talningar

Samkvæmt skýrslum yfirkjörstjórna voru 229.977 kjósendur á kjörskrá við þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, sem fram fór laugardaginn 6. mars 2010, og greiddu 144.231 manns atkvæði.

Spurningin sem lögð var fyrir í atkvæðagreiðslunni var svohljóðandi:

Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar.

Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“

Niðurstaða talningar yfirkjörstjórna og umdæmiskjörstjórna á landinu öllu var eftirfarandi:

2.599svöruðu: „Já, þau eiga að halda gildi.“

134.397svöruðu: „Nei, þau eiga að falla úr gildi.“

Ógild atkvæði voru 7.235. Þar af voru 6.744 seðlar auðir en 491 atkvæði var ógilt af öðrum ástæðum.

Nú þegar atkvæðagreiðslunni er lokið munu yfirkjörstjórnir senda landskjörstjórn gerðabækur sínar ásamt þeim atkvæðaseðlum sem ágreiningur hefur verið um. Þegar þessi gögn berast landskjörstjórn auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til að úrskurða um ágreiningsseðlana og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Er við það miðað að þessi fundur verði haldinn mánudaginn 15. mars næst komandi. Heimilt er að kæra ólögmæti atkvæðagreiðslunnar til landskjörstjórnar og skulu slíkar kærur sendar landskjörstjórn eigi síðar en tveimur dögum áður en fundur landskjörstjórnar verður haldinn. Að þeim fundi loknum tilkynnir landskjörstjórn dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu um niðurstöður sínar. Ráðuneytið auglýsir að því loknu úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi og að öllu óbreyttu birtir auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda um að lög nr. 1/2010 séu fallin úr gildi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum