Hoppa yfir valmynd
7. september 2016 Utanríkisráðuneytið

Fundur með utanríkisráðherra Bangladesh

Lilja og Abdul Hassan Mahmood Ali - mynd

Loftslagsmál, efnahagsmál, samvinna á sviði sjávarútvegs og orkunýtingar og mannréttindamál, þ.m.t. réttindi kvenna, voru meðal dagskrárefna á fundi Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Abdul Hassan Mahmood Ali, utanríkisráðherra Bangladesh, sem staddur er hérlendis í stuttri vinnuheimsókn. Fundinum lauk nú fyrir stundu.

Loftslagsmál voru ofarlega á baugi á fundi ráðherranna en Bangladesh er í hópi þeirra ríkja sem munu finna mest fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga vegna láglendis við sjó. Utanríkisráðherra, sem síðar í dag mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál á Alþingi, sagði samninginn leggja sérstaka ábyrgð á þróuð ríki. Þeim bæri að sýna forystu þar sem þau eru í betri efnahagslegri stöðu til að takast á við vandann, auk þess að bera ábyrgð á stórum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda.

„Loftslagsmálin eru hnattræn í eðli sínu. Þannig stuðlar bráðnun jökla í norðri að hækkandi sjávarmáli í suðri og við ræddum leiðir til að sporna í sameiningu við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, meðal annars með aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa," segir Lilja.

Utanríkisráðherrarnir ræddu einnig samvinnu á sviði sjávarútvegs, sér í lagi í gegnum Sjávarútvegsháskóla SÞ hér á landi en nemendur frá Bangladesh hafa stundað nám við skólann. Þá hefur Bangladesh nýlega fengið niðurstöðu í afmörkun efnahagslögsögu sinnar og sýndi ráðherrann reynslu Íslands af sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda sérstakan áhuga. „Bangladesh er að þessu leytinu til í sambærilegri stöðu og Ísland var fyrir hálfri öld. Þarlendir ráðamenn þekkja vel til reynslu og þekkingar Íslendinga og vilja gjarnan stofna til frekara samstarfs, sem ég tók vel í," segir Lilja.

Þá ræddu ráðherrarnir stöðu öryggismála í suðaustur Asíu og hryðjuverkaógn, sem Bangladesh hefur ekki farið varhluta af.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum