Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Listamannalaun fyrir ungt sviðslista- og tónlistarfólk samþykkt á Alþingi

Listamannalaun fyrir ungt sviðslista- og tónlistarfólk samþykkt á Alþingi  - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

 

„Þetta er mikill gleðidagur og það er sérstaklega gott að geta stutt vel við bakið á ungu listafólki eftir erfiða tíma,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra en Alþingi hefur samþykkt frumvarp ráðherra um breytingu á lögum um listamannalaun sem fjölgar tímabundið starfslaunum sviðslistafólks og tónlistarflytjenda. Með breytingunni er sjónum beint sérstaklega að ungu tónlistarfólki og sviðslistarfólki en 50 starfslaun verða eyrnamerkt ungu fólki í hvorum umsóknarflokki fyrir sig. 

 

„Við getum verið ótrúlega stolt af þeirri miklu frumsköpun og framleiðslu á menningu sem okkar frábæra listafólk drífur áfram, jafnvel þótt á móti blási. Mannsandinn nærist meðal annars á menningu, því að skemmta sér í góðra vina hópi, sækja tónleika, leiksýningar eða aðra menningarviðburði. Við höfum einsett okkur að styðja við menningu og listir í gegnum faraldurinn og stjórnvöld munu halda áfram að skapa menningu í landinu góð skilyrði,“ segir ráðherra. 

 

Alls fær starfslaunasjóður sviðslistafólks 50 mánuði til úthlutunar til fólks yngra en 35 ára og starfslaunasjóður tónlistarfólks fær 100 mánuði til almennar úthlutunar og 50 til fólks yngra en 35 ára. 

 

Árið 2022 munu því starfslaun sviðslistafólks nema alls 240 mánaðarlaunum í stað 190 og starfslaun og starfslaun tónlistarflytjenda munu nema 330 mánaðarlaunum í stað 180.

Þá mun Sviðslistasjóður fá aukið fjármagn sem nemur 50 m.kr., en Sviðslistasjóður er verkefnasjóður sem styður við uppsetningu og starfsemi sviðslistaverka. 

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft afar mikil og neikvæð áhrif á hagkerfið og einstaka atvinnugreinar, en samkvæmt tölum Hagstofunnar dróst landsframleiðsla saman um 6,5% á árinu 2020. Samdráttur í verðmætasköpun í menningargeiranum, sérstaklega þeim greinum hans sem byggja tekjuöflun sína að mestu á viðburðahaldi, var gríðarlegur. Þannig voru greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 t.a.m. 87% lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands frá 14. desember 2021 fækkaði þeim sem starfa við menningu um 4,5% á meðan í öðrum atvinnugreinum var hlutfallið 2,8%. Áhrifin voru einnig umtalsverð á atvinnutækifærum sjálfstætt starfandi listamanna. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum