Hoppa yfir valmynd
6. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Umtalsverð fækkun barnahjónabanda í heiminum

Ljósmynd: UNICEF India/2017/Prashanth Vishwanathan - mynd

Baráttan gegn barnahjónaböndum hefur skilað þeim árangri að á síðasta áratug var komið í veg fyrir 25 milljón hjónabönd barnungra stúlkna, samkvæmt nýrri samantekt Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Hvarvetna í heiminum sést að dregið hefur úr barnahjónaböndum og meðal nokkurra þjóða hefur fækkunin verið umtalsverð. Á einum áratug telur UNICEF að stúlkum sem giftast á barnsaldri hafi fækkað um 15%. Enn giftist þó fimmtungur stúlkna í heiminum áður en átján ára aldri er náð.

Mestur hefur árangurinn orðið í suðurhluta Asíu á síðustu tíu árum. Líkurnar á því að stúlkur gangi í hjónaband fyrir átján ára aldur hafa minnkað í þeim heimshluta um rúmlega þriðjung, úr 50% niður í 30%, segir í skýrslu UNICEF. Þar kemur fram að Indverjar eigi hvað mestan þátt í þessari breytingu. Á Indlandi hafi verið lögð áherslu á menntun stúlkna, stjórnvöld hafi stutt við bakið á unglingsstúlkum og send hafi verið sterk skilaboð út í samfélagið um ólögmæti slíkra hjónabanda og skaðsemi.

Anja Malhotra kynjaráðgjafi hjá UNICEF segir í frétt frá samtökunum að stelpa sem giftist sem barn standi strax frammi fyrir afleiðingum fyrir lífstíð. Líkurnar á því að hún ljúki skólagöngu minnki en líkurnar á því að hún verði misnotuð af eiginmanni og þjáist af fylgikvillum á meðgöngu aukist. Hún bendir líka á samfélagslegar afleiðingar barnahjónabanda og þá hættu að vítahringur fátæktar festist í sessi kynslóð eftir kynslóð. „Í ljósi þeirra gífurlegu áhrifa sem barnahjónaband hefur á líf ungra stúlkna fögnum við fréttum af því að dregið hafi úr slíkum hjónaböndum en við eigum engu að síður langa leið fyrir höndum,“ segir Anja.

Miðað við að fækkun barnahjónabanda um 25 milljónir á einum áratug giftast nú ár hvert samkvæmt gögnum UNICEF um 12 milljónir stúlkna yngri en átján ára. Þótt dragið hafi úr slíkum nauðungarhjónaböndum er fækkunin fjarri því að vera viðundandi sé litið til Heimsmarkmiðanna en samkvæmt markmiði 5.3 á að vera búið að afnema alla skaðlega siði, eins og barnahjónabönd, fyrir árið 2030. Eins og staðan er núna koma 150 milljónir stúlkna til með að giftast fyrir 18 ára afmælisdaginn fram til ársins 2030, segir í frétt frá UNICEF.

Mestar áhyggjur eru af stöðunni í Afríku sunnan Sahara. Hlutfall barnahjónabanda í þeim heimshluta fer hratt vaxandi bæði vegna mikillar fólksfjölgunar og vegna fækkunar barnahjónabanda annars staðar í heiminum. Fimmtungur allra hjónabanda barnungra stúlkna var í sunnanverðri Afríku fyrir tíu árum en þriðjungur í dag. Þar eru þó að finna þjóðir sem hafa náð miklum árangri, til dæmis hefur barnahjónaböndum fækkað í Eþíópíu um þriðjung á einum áratug.

Frétt UNICEF

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum