Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum býr í landi þar sem geisar stríð eða aðrar hörmunga

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur sent frá sér alþjóðlega neyðaráætlun fyrir árið 2018. Þar kemur fram að eitt af hverjum fjórum börnum í heiminum búa á átaka- eða hörmungarsvæðum. Um 50 milljónir barna hafa þurft að leggja á flótta frá heimilum sínum sökum ofbeldis, fátæktar eða náttúruhamfara. Átök sem hafa varað í fleiri ár, eins og t.d í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Írak, Nígeríu, Suður-Súdan, Sýrlandi og Jemen, halda áfram að hafa djúpstæð áhrif á börn og ógna lífi þeirra á hverjum degi. Fyrir þau börn sem búa á þessum átakasvæðum er daglegt líf algjör martröð.

Vaxandi ofbeldi og átök hafa stóraukið þörfina á mannúðaraðstoð. Neyðaráætlun UNICEF gerir ráð fyrir að ná til 48 milljón barna í 51 landi árið 2018 - barna sem búa við neyð vegna stíðsátaka, afleiðinga náttúruhamfara og annarra hörmunga.

Börn geta ekki beðið

„Það er ekki hægt að láta börn bíða þar til stríðsátökunum ljúki, á meðan átök halda áfram að ógna lífi þeirra og hafa hörmuleg áhrif á framtíð barna og ungmenna,“ segir Manuel Fontaine, yfirmaður neyðaráætlunar UNICEF. Börn eru hvað viðkvæmust þegar átök eða hamfarir valda því að grunnþjónusta samfélaga hrynur, svo sem heilbrigðisþjónusta, vatns- og hreinlætisaðstaða. Auk heilsugæslustöðva og spítala hafa skólar gjöreyðilagst í árásum.

Um 117 milljónir manna sem búa á átaka- og hörmungarsvæðum skortir aðgengi að öruggu vatni. „Í mörgum löndum þar sem stríð og átök geisa deyja fleiri börn úr sjúkdómum sem orsakast af óhreinu vatni og slæmri hreinlætisaðstöðu en vegna ofbeldis," sagði Fontaine. Fontaine bendir jafnframt á að ef alþjóðasamfélagið bregst ekki strax við til að hjálpa þessum börnum, á meðan átökin geisa, þá þurfi ekki að spyrja að leikslokum.

Mengað vatn stærsta ógnin

Útbreiðsla sjúkdóma sem smitast með menguðu vatni er ein stærsta ógn við líf barna í neyð. Árásir á vatns- og hreinlætisaðstöðu, umsátur um borgi og bæi og ofbeldi sem hrekur börn og fjölskyldur á flótta, veldur því að börn og fjölskyldur þurfa að reiða sig á mengað drykkjarvatn sem getur dregið börn til dauða. Konur og ungar stúlkur standa frammi fyrir auknum ógnum, þar sem þær fá yfirleitt það hlutverk að safna vatni fyrir fjölskyldur sínar í hættulegum aðstæðum.

UNICEF er leiðandi í vatns- og hreinlætisverkefnum þegar neyð brýst út. Áhersla er lögð á að tryggja aðgang að öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu og dreifa hreinlætisvörum til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Þúsundir lítra af vatni eru fluttir í flóttamannabúðir daglega og vatnsdælur hafa verið settar upp á svæðum þar sem skortir hreint drykkjarvatn.

Mikill árangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður

UNICEF vinnur á átaka- og hörmungasvæðum út um allan heim og sinnir neyðaraðstoð við oft mjög erfiðar aðstæður. „Verkefnin eru stór en gífurlega mikilvæg. Það er með hjálp heimsforeldra og þeirra sem hafa stutt neyðaraðgerðir UNICEF sem okkur hefur tekist að veita milljónum barna hjálp, koma í veg fyrir dauðsföll og sjúkdóma og hjálpa börnum í neyð að halda áfram í námi,” segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Sem dæmi má nefna að á fyrstu tíu mánuðum ársins 2017 fengu 2,5 milljónir barna meðhöndlun gegn bráðavannæringu, 13,6 milljónir barna voru bólusett gegn mislingum og 29,9 milljónum var tryggt aðgengi að hreinu drykkjarvatni.

UNICEF og samstarfsaðilar stefna að því ná til enn fleiri barna á þessu ári. Neyðaráætlun UNICEF fyrir 2018 gerir ráð fyrir að:

- Veita 35,7 milljónum aðgang að hreinu vatni;

- Ná til 8,9 milljónir barna með formlegri eða óformlegri grunnmenntun;

- Bólusetja 10 milljónir barna gegn mislingum;

- Veita yfir 3,9 milljónum barna sálrænan stuðning;

- Meðhöndla 4,2 milljónir barna gegn alvarlegri bráðavannæringu.

 

Neyðaráætlun UNICEF fyrir börn í neyð má nálgast hér.   

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum