Hoppa yfir valmynd
29. júní 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framlengir tilraunverkefni um sérhæfða skilnaðarráðgjöf

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við HÍ og þerapisti hjá meðferðarþjónustunni Tengsl, Gyða Hjartardóttir, aðjúnkt í félagsráðgjöf við HÍ og sérfræðingur í málefnum barna og Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, settur skrifstofustjóri á skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu. Á skjánum eru Søren Sander og Gert Hald hjá SES í Danmörku.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að framlengja tilraunaverkefnið Samvinna eftir skilnað (SES) til júní 2022. SES er annars vegar rafrænn fræðsluvettvangur fyrir foreldra í skilnaðarferli og hins vegar sérhæfð skilnaðarráðgjöf á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga. Verkefnið er unnið að danskri fyrirmynd og byggir efnið á nýjustu þekkingu, rannsóknum fræðimanna og reynslu fagfólks. Ráðherra undirritaði samning snemma árs 2020 um innleiðingu verkefnisins til reynslu. Verkefninu var ætlað að vara til ársloka 2020 en vegna aðstæðna tengdum Covid-19 taldist ekki komin nægjanleg reynsla á verkefnið á Íslandi til að gera raunhæft mat á gagnsemi þess. Verkefnið hefur fram að þessu náð til átta sveitarfélaga en næsta árið er stefnt að því að SES verði aðgengilegt fyrir alla foreldra í skilnaðarferli á Íslandi.

Litið hefur verið á SES verkefnið hér á landi sem undirbúningsferli að mögulegu framtíðarskipulagi skilnaðarráðgjafar á fyrsta og öðru og þriðja stigi þjónustu við foreldra og börn á Íslandi. Fellur úrræðið mjög vel að markmiðum yfirstandandi lagabreytinga í þágu snemmtækrar þjónustu við íslensk börn. 

Í Samvinna eftir skilnað gefst foreldrum sem eru að skilja eða slíta sambúð tækifæri til þess að prófa námskeið í 18 stafrænum áföngum. Auk þess sem fagfólk hjá félagsþjónustu hjá þeim sveitarfélögum sem taka þátt í verkefninu býður sérstaklega upp á sérhæfða einstaklingsráðgjöf og námskeið fyrir fólk sem er skilið og á börn saman. Áætlað hefur verið að um það bil 1100 - 1200 börn árlega á landsvísu verði fyrir áhrifum af skilnaði foreldra, eða í kringum 700 barnafjölskyldur á ári.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Börn eru því miður oft þau sem skilnaðir bitna hvað mest á og það er von mín að með þessu verkefni tökum við skref í átt að því að innleiða nýtt vinnulag í skilnaðar, forsjár- og umgengnismálum, sem aftur skilar sér í betri líðan þeirra barna sem upplifa skilnað foreldra. Verkefnið hefur fengið mjög jákvæðar viðtökur og mikill áhugi verið sýndur á að innleiða það sem víðast og ég hef fulla trú á að það skili áþreifanlegum heilsufarslegum og þjóðhagslegum ávinningi.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum