Hoppa yfir valmynd
4. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Hæsta framlagið fjórða árið í röð frá UN Women á Íslandi

Landsnefnd UN Women á Íslandi sendi á síðasta ári rúmlega 127 milljónir króna til alþjóðlegra verkefna UN Women sem er hæsta fjárframlag allra landsnefnda til verkefna UN Women á árinu óháð höfðatölu. Þetta er fjórða árið í röð sem landsnefndin nær þessum fráæra árangri.

Í nýrri ársskýrslu landnefndarinnar kemur fram að aldrei hafi á einu ári jafnmargir styrktaraðilar gengið til liðs við samtökin, en tæplega 3.000 nýir ljósberar bættust í hópinn á síðasta ári. Ljósberar voru orðnir rúmlega 9.200 í lok árs. „Ljósberar eru fólk á öllum aldri og búa í öllum landshlutum. Mjög bættist í hóp styrktaraðila utan höfuðborgarsvæðisins á árinu, en 34% nýrra ljósbera eru búsettir utan þess, og hefur hlutfallið aldrei verið svo hátt. Tveir þriðju nýskráðra voru konur,“ segir í skýrslunni.

Á síðasta ári, þrítugasta starfsári UN Women á Íslandi, var ákveðið að beina kastljósinu að baráttunni gegn þvinguðum barnahjónaböndum og málefnið var í forgrunni í fyrsta fræðslu- og söfnunarþætti landsnefndarinnar í sjónvarpi. Þátturinn „Stúlka – ekki brúður“ var sýndur í beinni útsendingu á RÚV 1. nóvember þar sem sjónum var beint að Malaví og þeim verkefnum UN Women sem miða að því að uppræta þvinguð barnahjónabönd í því landi, en tíðni þvingaðra barnahjónabanda í Malaví er með því hærra sem gerist í heiminum. Um 20% íslensku þjóðarinnar horfði á þáttinn og fræddist um leið um verkefni UN Women. Þá lagði fjöldi fólks málefninu lið með því að hringja inn og gerast mánaðarlegir styrktaraðilar UN Women á Íslandi.

„Sterk staða Íslands á sviði jafnréttismála veitir okkur hljómgrunn á alþjóðavettvangi og við tökum ábyrgðarhlutverki okkar alvarlega. Jafnrétti kynjanna er hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu og hefur verið leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands um árabil. Þessi áhersla var staðfest á dögunum þegar niðurstöður árlegrar könnunar Efnahags- og framfarastofnunarinnar á þróunarsamvinnu sýndi að yfir 80% af þróunarsamvinnu Íslands er á marktækan hátt ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna,“ segir meðal annars í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Á aðalfundi UN Women í síðustu viku urðu þær breytingar á stjórn samtakanna að Kristján Hjálmarsson, Ólafur Elínarson og Ólafur Þ. Stephensen voru kosnir í stjórn til tveggja ára. Aðrir í stjórn eru Arna Grímsdóttir, formaður, Fanney Karlsdóttir, varaformaður, Kristín Ögmundsdóttir, gjaldkeri, Bergur Ebbi Benediktsson, Soffía Sigurgeirsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum