Hoppa yfir valmynd
11. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 53/2021 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 11. október 2021

í máli nr. 53/2021

 

A ehf.

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A ehf. Umboðsmaður sóknaraðila er C.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að honum sé heimilt að ganga að bankaábyrgð varnaraðila að fjárhæð 540.000 kr. vegna vangoldinnar leigu.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað eða að hún verði lækkuð.

Með kæru, dags. 10. maí 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 2. júní 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Kærunefnd ítrekaði beiðni um greinargerð varnaraðila með tölvupósti, dags. 8. júlí 2021. Greinargerð varnaraðila, dags. 16. júlí 2021, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 19. júlí 2021, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. maí 2020 til 30. apríl 2021 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila að D. Ágreiningur er um kröfu sóknaraðila í bankaábyrgð varnaraðila vegna vangoldinnar leigu.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi verið með bankaábyrgð vegna leigu að fjárhæð 540.000 kr. Varnaraðili hafi fallið í vanskil og flutt úr íbúðinni. Heildarvanskil nemi við ritun kærunnar 1.603.882 kr. með áföllnum kostnaði.

Með bréfi, dags. 16. apríl 2021, hafi sóknaraðili gert kröfu í ábyrgðina að fjárhæð 540.000 kr. Borist hafi tilkynning frá bankanum 20. apríl s.á. um að varnaraðili hefði hafnað því að gengið yrði á ábyrgðina. Málinu sé því vísað til kærunefndar.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að ástæða þess að hann hafi hafnað kröfu sóknaraðila sé sú að hann sé gjaldþrota og þurfi peningana fyrir börnin sín. Hann sé viljugur til að komast að samkomulagi og sé reiðubúinn að greiða sóknaraðila 250.000 kr. úr ábyrgðinni. Varnaraðili vonist til að tekið verði tillit til aðstæðna hans sem þriggja barna föður og þess að hann sé atvinnulaus og hafi verið í mörg ár.

IV. Niðurstaða            

Varnaraðili lagði fram bankaábyrgð að fjárhæð 540.000 kr. til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi aðila. Samkvæmt leigusamningi aðila, dags. 17. apríl 2020, var leigutímabil ákveðið 1. maí 2020 til 30. apríl 2021. Varnaraðili hefur lagt fram yfirlit yfir leigugreiðslur sem sýnir að sóknaraðili hefur verið í vanskilum frá ágúst 2020 og leiguvanskil hafi numið 1.199.024 kr. þegar varnaraðili fékk aftur umráð hins leigða.

Í 7. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli svo fljótt sem verða megi og eigi síðar en innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðis gera leigjanda skriflega grein fyrir því hvort hann geri kröfu í tryggingu eða ábyrgð samkvæmt 1.-3. og 6. tölul. 1. mgr. eða hafi uppi áskilnað um það, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. Í 8. mgr. sömu greinar segir að geri leigusali kröfu í tryggingu eða ábyrgð innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins samkvæmt 7. mgr. skuli leigjandi tilkynna leigusala skriflega hvort hann hafni eða fallist á kröfuna innan fjögurra vikna frá móttöku kröfunnar. Hafni leigjandi kröfu leigusala beri leigusala að vísa ágreiningi um bótaskyldu leigjanda til kærunefndar húsamála eða höfða mál um bótaskyldu leigjanda innan fjögurra vikna frá þeim degi er leigjandi hafnaði kröfunni, ella fellur trygging eða ábyrgð úr gildi. Ljóst er af gögnum málsins að krafa sóknaraðila í bankaábyrgðina barst innan fjögurra vikna frá skilum leiguhúsnæðisins og að málinu hafi verið vísað til kærunefndar innan fjögurra vikna frá höfnun varnaraðila á kröfu sóknaraðila.

Ástæður sem varnaraðili tilgreinir í kröfugerð sinni geta ekki leitt til þess að krafa sóknaraðila í bankaábyrgð hans falli niður. Fellst kærunefnd á kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að honum sé heimilt að ganga að bankaábyrgð varnaraðila að fjárhæð 540.000 kr. vegna vangoldinnar leigu.         

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 





ÚRSKURÐARORÐ:

Sóknaraðila er heimilt að ganga að bankaábyrgð varnaraðila að fjárhæð 540.000 kr.

 

 

Reykjavík, 11. október 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum