Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Ísland og Afganistan: Afstæður veruleiki

Ljósmyndir: Una Sighvatsdóttir. - mynd

Mér vefst tunga um tönn þegar ég spurð hvernig ástandið sé í Afganistan, nú síðast í morgunútvarpi Rásar 2 í gær. Spurningin hljómar einföld, en svarið svo margslungið að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Erum við að tala um hernaðarlegt ástand, pólitískt, félagslegt? Ástand öryggismála? Líðan almennings? Árangur NATO? Stutta svarið er svo sem ekkert flókið: Ástandið er slæmt. En það er bæði verra og betra en það hefur verið.

Síðustu tvær vikurnar mínar í Afganistan voru mjög blóðugar, með röð hryðjuverkaárása dag eftir dag. Í þeirri mannskæðustu sprengdu talíbanar sjúkrabíl í miðborg Kabúl, þar sem yfir 100 manns dóu. Þremur dögum áður höfðu ISIS gert s.k. “complex attack” á skrifstofur Save the Children. Sjúkrabíll. Hjálparsamtök fyrir börn. Manni fallast hendur yfir grimmdinni. Þessi vetur er nú þegar sagður sá ofbeldisfyllsti í Afganistan síðan 2001. Bara í janúar gerðu talíbanar 472 árásir í landinu.

Hundsaði allar beiðnir fjölmiðla

Það er í mannlegu eðli að láta sig fyrst og fremst varða það sem stendur manni nærri og atburðir í fjarlægum löndum ná frekar athygli fólks ef þeir hafa einhverja tengingu við þeirra eigin veruleika. Þess vegna leit ég m.a. á það sem hluta af mínu starfi að nýta tækifærið til að vekja athygli Íslendinga á Afganistan á meðan ég var þar, í landi sögunnar endalausu sem fæstir nenna að hlusta á lengur. En eftir því sem leið á starfsárið missti ég meira og meira lystina á því að tala um ástandið, “út frá mínum sjónarhóli”. Undir lokin hundsaði ég allar beiðnir fjölmiðla heima um viðtöl eftir árásahrinuna blóðugu. Mér fannst ég ekki í aðstöðu til að tjá mig um þennan ömurlega veruleika fólks sem ég var bara áhorfandi að, jafnvel þótt ég horfði á úr meiri nálægð en aðrir.

Það rifjast upp fyrir mér þegar ég fór í fyrsta skipti í kistulagningu, 15 ára gömul. Tvítugur frændi minn lést af slysförum uppi á jökli. Foreldrar hans sátu gegnt mér í kapellunni, líkkista einkasonarins á milli okkar, og sorgin í svip þeirra var svo átakanleg að það þyrmdi yfir mig og mér fannst ég ekki eiga neinn rétt á því að gráta sjálf. Mín líðan var hjóm eitt samanborið við harm þeirra. Það hljómar órökrétt, en ég man að ég hélt aftur af tárunum, því þau væru hvort eð er svo léttvæg.

Mér líður einhvern veginn svipað gagnvart hörmungum almennings í Afganistan. Ég var farin að fá óbragð í munninn þegar ég fékk spurningarnar að heiman: “Er allt í góðu hjá þér? Hvernig líður þér? Upplifir þú þig örugga? Hvernig er að búa við svona ástand?”

Í öruggum faðmi Atlantshafsbandalagsins

Ég bjó ekkert við þetta ástand. Þótt það sé bara múrveggur sem skilur á milli þá er hann algjörlega afstæður. Nándin er fjarlæg, því minn veruleiki, í öruggum faðmi Atlantshafsbandalagsins, var víðsfjarri veruleika fólksins hinum megin við vegginn, sem hefur ekkert val um annað en að kalla þetta land sitt heima. Þegar sjúkrabílssprengjan sprakk fyrir mánuði síðan var ég í brunch í bandaríska sendiráðinu í Kabúl, að borða benediktar-egg. Við heyrðum sprenginguna, við sáum reykinn. En við vorum í öruggu skjóli og máttum ekki fara þaðan. Svo ég fékk mér bara ameríska múffu með rjómaostkremi í eftirrétt og beið róleg, þótt ég hefði reyndar smá áhyggjur af því að missa af þyrlunni sem ég átti bókaða síðdegis. Á sama tíma voru 100 manns að deyja, rétt hjá okkur. Mér fannst ég engan rétt hafa á því að tjá mig um þeirra veruleika og að jafnvel þótt ég reyndi væri ómögulegt að koma því til skila í íslenskan veruleika.

Ástandið í Afganistan er sem sagt slæmt, en það hefur verið verra áður og það gæti líka versnað aftur. Það myndi ekki batna við að alþjóðaliðið pakkaði saman og slökkti ljósin. Það er heldur ekki víst að það muni batna með þeim aðferðum sem verið er að beita núna, en ég held þó að þær séu líklegri til árangurs en margt það sem hefur verið reynt áður. Það er engin einföld lausn til við ástandinu í Afganistan. Enginn veit hvað væri best að gera, en þar mun allavega ekki spretta fram sæmilega stöðugt, öruggt samfélag án þess að til staðar séu grunnstoðir: Löggæsla, her, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, dómstólar. Þetta eru stofnanir sem voru einfaldlega ekki til fyrir rúmum áratug, og það tekur tíma að koma þeim á fót; byggja upp verklag og stofnanaminni. Samfélagssáttmála. Það tekur kynslóðir.

Milljónir á flótta

Á Rás 2 í gær talaði ég um hversu hvetjandi það gat verið að hitta unga, menntaða Afgani sem hafa metnað fyrir því að leggja sitt að mörkum við að byggja upp betra samfélag. Ég nefndi hinsvegar ekki þær milljónir Afgana sem eru á flótta, bæði í eigin landi og öðrum. Við viljum þetta fólk ekki til Evrópu, svo þau eru send héðan til baka í stórum stíl. Ákjósanlegast væri hinsvegar, fyrir alla, að það takist að skapa þannig ástand í Afganistan að fólk sjái sér ekki þann kost nauðugan að flýja eigið land.

Sjálf vona ég innilega að ég muni einhvern daginn fara til Afganistan aftur, við allt aðrar aðstæður. Njóta þess að heimsækja þetta fallega land og ferðast þar um tiltölulega örugg. Því miður líða sennilega einhverjir áratugir áður en svo getur orðið.

Ég veit þetta er langloka um málefni sem snertir fáa hér á Facebook. Ég hef bara þörf fyrir að skrifa mig frá þessu. Nú þegar ég er farin þaðan verð ég líklega ekki beðin um það framar að svara fyrir ástandið í Afganistan. En hugurinn er þar enn.

Meðfylgjandi eru myndir af Afganistan eins og ég kynntist því: Út um þyrlu. Gegnum bílrúðu. Innan öryggishliðs og varnarmúra.

(Pistill sem Una Sighvatsdóttir fyrrverandi friðargæsluliði í Afganistan skrifaði sem færslu á Facebook 20. febrúar 2018. Birt með góðfúslegu leyfi hennar.)

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira