Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 100/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 100/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010005

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 439/2022, dags. 3. nóvember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. september 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 4. nóvember 2022. Hinn 29. desember 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku.

Beiðni kæranda um endurupptöku er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að hún óttist það að vera vísað úr landi til Grikklands. Þar hafi hún orðið fyrir ofbeldi og ofsóknum vegna kynþáttar, trúar og þjóðernis og orðið fyrir ómannúðlegri meðferð, sbr. 37. og 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi vísar til þess að hún eigi á hættu handahófskennda brottvísun frá Grikklandi að tyrknesku landamærunum. Hún óttist það að lenda aftur í fangelsi í heimaríki. Kærandi búi nú með eiginmanni sínum hér á landi, hann hafi einnig lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd og mál hans sé nú til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Að flytja kæranda úr landi frá eiginmanni sínum muni hafa áhrif á andlega heilsu hennar. Kærandi sé með sérstök tengsl við landið á meðan eiginmaður hennar sé hér á landi.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 3. nóvember 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hún eigi á hættu að vera brottvísað frá Grikklandi í gegnum tyrknesku landamærin. Vísar kærandi í því samhengi til fylgiskjals með endurupptökubeiðni hennar sem hún kveður vera lögregluskýrslu frá grísku lögreglunni. Líkt og fram kemur í úrskurði kærunefndar nr. 439/2022 frá 3. nóvember 2022 í máli kæranda sendu íslensk yfirvöld beiðni, dags. 7. júní 2022, til grískra yfirvalda um upplýsingar um stöðu hennar þar í landi. Í svari frá grískum yfirvöldum, dags. 17. júní 2022, kom fram að kæranda hefði verið veitt réttarstaða flóttamanns þar í landi 23. desember 2019 og væri með gilt dvalarleyfi til 27. janúar 2023. Var það mat kærunefndar að kærandi nyti virkrar alþjóðlegrar verndar í Grikklandi í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til fyrirliggjandi upplýsinga og gagna í máli kæranda er ekkert sem bendir til þess að hún eigi á hættu að vera brottvísað frá Grikklandi. Umrætt skjal sem kærandi lagði fram með endurupptökubeiðni sinni ber ekki með sér að vera lögregluskýrsla heldur einhvers konar staðfesting svæðisskrifstofu á því að kærandi eigi rétt á þjónustu í Grikklandi. Kærunefnd bendir þá á að þrátt fyrir að dvalarleyfi kæranda sé nú runnið út verði ráðið að alþjóðleg vernd kæranda haldi áfram að vera gild en kærandi þurfi að sækja sérstaklega um endurnýjun á dvalarleyfinu, hafi hún ekki gert það nú þegar.

Í endurupptökubeiðni kæranda vísar hún til ákvæða 37. og 38. gr. laga um útlendinga. Þar sem mál kæranda var afgreitt á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga koma framangreind ákvæði ekki til skoðunar.

Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína einnig á því að umsókn eiginmanns hennar um alþjóðlega vernd sé nú til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Á meðan eiginmaður hennar sé staddur hér á landi sé hún með sérstök tengsl við landið. Kærunefnd hefur í úrskurðarframkvæmd sinni lagt til grundvallar að byggist málsástæða um sérstök tengsl við landið á tengslum við tiltekinn einstakling eða tiltekna einstaklinga þurfi þeir einstaklingar almennt að hafa heimild til dvalar hér á landi og að sú heimild þurfi að hafa tiltekinn varanleika til þess að slík tengsl geti komið til skoðunar. Verður því ekki talið að umrædd tengsl geti fallið undir 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 3. nóvember 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Vegna kröfu kæranda í endurupptökubeiðni sinni um frestun réttaráhrifa á grundvelli 35. gr. laga um útlendinga tekur kærunefnd fram að beiðni um endurupptöku frestar ekki framkvæmd úrskurðar kærunefndar.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the cases is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum