Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Rannsóknaráætlun í ferðaþjónustu 2023-2025

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að rannsóknaráætlun í ferðaþjónustu fyrir 2023-2025. Áætlunin er unnin af Ferðamálastofu með aðkomu ráðgefandi nefndar um gagnaöflun og rannsóknir. Er hér um fjórðu slíka rannsóknaráætlun að ræða (þær fyrri náðu til 2020-2022, 2021-2023 og 2022-2024).

„Við vitum hvaða þýðingu íslensk ferðaþjónusta hefur fyrir hagkerfið okkar en til að dýpka sýnina enn frekar er nauðsynlegt að halda vel utan um  greiningar á hagrænum áhrifum hennar. Rannsóknaráætlunin tryggir aðgengi okkar að áreiðanlegum gögnum og upplýsandi hagtölum. Gott samstarf við hagaðila skiptir miklu máli, nú sem endranær,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra.

Rannsóknaráætlunin er áætlun til þriggja ára um þá gagnaöflun, greiningar og rannsóknir sem stjórnvöldum er nauðsynleg til að taka stefnumótandi ákvarðanir um uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi. Rannsóknaráætlunin er mótuð á grunni Jafnvægisáss ferðamála og stefnumótunar stjórnvalda.

Drög að rannsóknaráætlun skulu birt í samráðsgátt stjórnvalda og að loknu samráði gerir Ferðamálastofa tillögu að rannsóknaráætlun til ráðherra.

 

Í drögum að rannsóknaráætlun 2023-2025 er gerð grein fyrir viðfangsefnum rannsókna á sviði ferðaþjónustu og farið yfir einstök verkefni eins og fjöldi ferðamanna, landamærakönnun, könnun á viðhorfum Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu, könnun á ferðahegðun Íslendinga, könnun á ferðahegðun erlendra gesta á völdum þéttbýlisstöðum, dreifing ferðamanna um landið, greining á fjárhag og rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu, gagnagrunnur ferðaþjónustu og þjóðhagslíkan fyrir ferðaþjónustu.

 

Áreiðanlegar tölfræðilegar upplýsingar, rannsóknir og greining gagna er afar mikilvæg í ferðaþjónustu, líkt og í öðrum lykilatvinnugreinum þjóðarinnar (samanber til dæmis sjávarútveg). Áfram verður unnið að því að efla þá þætti og mun það meðal annars koma inn í gerð aðgerðaráætlunar til að fylgja eftir framtíðarsýn (stefnuramma) ferðaþjónustu til 2030, en sú vinna er í undirbúningi innan ráðuneytis ferðamála.

 

Hér má finna áætlunina í Samráðsgátt stjórnvalda.
Umsagnarfrestur er 10.11.2022–24.11.2022. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum