Hoppa yfir valmynd
18. júní 2004 Utanríkisráðuneytið

Þjóðhátíðardagur Íslendinga í Peking

Frá opnun ljósmyndasýningar í Peking
Frá opnun ljósmyndasýningar í Peking

Sendiráð Íslands í Peking stóð fyrir fögnuði á þjóðhátíðardegi Íslendinga með opnun ljósmyndasýningar og útgáfu ljósmyndabókar um Ísland undir yfirskriftinni „Beautiful Iceland“. Ljósmyndirnar tók Li Renchen, einn af ritstjórum Dagblaðs alþýðunnar í Kína. Myndirnar voru teknar sumarið 2001 þegar ljósmyndarinn, sem hluti af kínverskri sendinefnd, sótti Ísland heim í tengslum við að 30 ár voru liðin frá stofnun stjórnmálasambands milli Íslands og Kína.

Ljósmyndirnar sem birtast í bókinni eru á annað hundrað og er ætlað að gefa Kínverjum fjölbreytta sýn á Ísland. Myndirnar varpa ljósi á náttúrufegurð, gróður, dýralíf, menningu og listir. Formálar í bókinni eru ritaðir af Davíð Oddssyni, forsætisráðherra Íslands, og Tian Jiyuan, fyrrum varaforseta fastanefndar kínverska þjóðþingsins. Auk sendiráðs Íslands í Peking komu að útgáfu bókarinnar og ljósmyndasýningunni aðilar á borð við forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Ferðamálaráð Íslands og Icelandair.

Hátt í 200 gestir mættu á opnun ljósmyndasýningarinnar og í móttökuna sem haldin var í kjölfarið, þar af fjöldi háttsettra, kínverskra embættismanna en auk annarra Íslendingar búsettir í Peking. Í ræðu við opnun sýningarinnar minntist Eiður Guðnason sendiherra 60 ára lýðveldisafmælis Íslands. Sendiherra sagði að sérhver Íslendingur þráði að vera heima á þjóðhátíðardaginn en það kæmist næst því að vera í heimalandinu að geta notið fallegra mynda frá Íslandi meðal góðra vina. Ljósmyndasýningunni lýkur næstkomandi mánudag.

Sendiherrahjón og ljósmyndari

Eiður Guðnason sendiherra og frú ásamt ljósmyndaranum Li Renchen fyrir framan húsakynnin þar sem ljósmyndasýningin er haldin og þjóðhátíðardegi Íslendinga var fagnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum