Hoppa yfir valmynd
3. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Áherslur félags- og húsnæðismálaráðherra í málefnum aldraðra

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Félags- og húsnæðismálaráðherra segir sína skoðun að flytja eigi ábyrgð á þjónustu við aldraða til sveitarfélaga, rétt eins og málefni fatlaðra og menntun á grunnskólastigi. Samþætting heimaþjónustu er viðfangsefni norrænnar ráðstefnu sem nú stendur yfir í Reykjavík.

Ráðstefnan hófst í morgun með ávarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún ræddi í upphafi um fjölgun aldraðra en lagði áherslu á að það ætti ekki að skoða sem vandamál, heldur staðreynd. „Við þurfum að snúa opinberri umræðu umræðu um málefni aldraðra frá vandamálum að lausnum. Samhliða þurfum við að sinna stefnumótun sem tekur mið af staðreyndum og raunhæfum tækifærum. Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda, sama hver veitir hana“ sagði ráðherra meðal annars.

Hér á landi bera sveitarfélögin ábyrgð á félagslegri þjónustu og þar með er talin ýmis þjónusta í heimahúsum, en ríkið er ábyrgð fyrir heilbrigðisþjónustu og þar með telst heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Ráðherra ræddi um margra ára vinnu við samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Reykjavík og jákvæð áhrif þess þegar skrefið var stigið til fulls og borgin tók að sér rekstur heimahjúkrunar. Hún sagði það tæpast hafa komið nokkrum á óvart, því allir þekki ókostina við tvískipta ábyrgð á svo nátengdum þjónustuþáttum eins og heimahjúkrun og heimaþjónustu þar sem iðulega sé togstreita um verkefni og kostnað: „Afleiðingarnar eru í versta falli ómarkviss þjónusta, þjónusta sem ekki er í samræmi við þarfir notenda og oft þjónusta sem er mun dýrari en ástæða er til“ sagði ráðherra meðal annars.

Ráðherra segist þeirrar skoðunar að flytja eigi ábyrgð á þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna sem þegar hafi sýnt hvers þau eru megnug við yfirtöku ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk og á grunnskólanum. Nærþjónustan eigi að vera hjá sveitarfélögunum og besta samþættingin á sviði öldrunarþjónustu felist í því að reka þjónustuna á einni hendi. Þannig séu mestar líkur á því að veitt séu úrræði á viðeigandi þjónustustigi og þannig skapist samlegðaráhrif sem efla sveitarstjórnarstigið til góðs fyrir íbúana.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum