Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 556/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 556/2019

Miðvikudaginn 29. apríl 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 27. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. september 2019 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 24. apríl 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2019, var umsókninni synjað með þeim rökum að kærandi uppfyllti ekki skilyrði staðals um örorkumat. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, kærumál nr. 216/2019, sem úrskurðaði í málinu 28. ágúst 2019. Nefndin staðfesti að kærandi uppfyllti ekki skilyrði örorkulífeyris en féllst á að hún uppfyllti skilyrði örorkustyrks og var málinu vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til ákvörðunar á tímalengd örorkustyrks. Með örorkumati, dags. 30. ágúst 2019, ákvarðaði Tryggingastofnun ríkisins kæranda örorkustyrk frá 1. júní 2019 til 31. maí 2023. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með rafrænni umsókn 22. september 2019. Með örorkumati, dags. 30. september 2019, var kæranda synjað um breytingu á gildandi örorkumati. Með tölvubréfi 15. október 2019 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins og var hann veittur með bréfi, dags. 24. október 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. desember 2019. Með bréfi, dags. 3. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. janúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fá fullar örorkubætur.

Í kæru er greint frá því að Tryggingastofnun hafi aftur synjað umsókn kæranda um örorkubætur með þeim rökstuðningi að ný gögn breyti ekki fyrri niðurstöðu. Stofnunin hafi bent kæranda á möguleika á endurhæfingarlífeyri þar sem meðferð sé í gangi en ekki hafi verið um neinn rökstuðning að ræða.

B, heimilislæknir kæranda, hafi sent inn læknisvottorð ásamt greinargerð frá C meltingarlækni og starfsendurhæfingarmati frá VIRK.

Í von um að kærandi myndi lagast af Morton´s metatarsalgia hafi hún farið í aðgerð á fæti hjá D þann 24. október 2019. Svo virðist sem að aðgerðin hafi ekki heppnast nógu vel þar sem hún sé búin að vera með stöðugan verk í fætinum sem sé í þriðju og fjórðu tá og leiði í tábergið. Kærandi þreytist því mjög fljótt við að ganga og standa kyrr og endi þá með því að vera draghölt með mjög sára verki.

Kærandi taki lyf við þunglyndi (Esopram 15mg) þar sem veikindin hafi komið mikið niður á andlegri líðan hennar. Hún hafi einangrað sig frá samskiptum við fólk almennt og það taki hana óralangan tíma að fara út í búð eða framkvæma eitthvað heima fyrir. Kærandi sé með stöðugan flökurleika og honum fylgi uppköst. Einnig fái hún skot í magann og komist stundum ekki nógu fljótt á salernið sökum erfiðleika við að hreyfa sig nógu fljótt og það sé þess vegna sem hún fari ekki á mannamót og hafi einangrast. Þar sem kærandi geti ekki gert venjulega hluti eins og hún hafi getað áður hafi það leitt til þess að þunglyndi hafi hellst yfir hana.

Kærandi hafi dottið árið X og afleiðingar fallsins séu núna farnar að hrjá hana meira sem lýsi sér í verkjum í hálsi sem leiði niður í bak. Það sé til sjúkraskýrsla frá lækni vegna fallsins hjá X og hafi hún farið til Sjúkratrygginga Íslands.

Kærandi hafi ekki verið kölluð í læknismat sem sé mjög sérkennilegt þar sem heilsa hennar hafi versnað mikið frá fyrsta örorkumatinu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat frá 30. september 2019. Kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en hún hafi áfram verið talin uppfylla skilyrði fyrir örorkustyrk samkvæmt 19. gr. sömu laga þar sem innsent læknisvottorð hafi ekki þótt gefa tilefni til breytinga á fyrra mati.

Kærandi hafði áður verið send í skoðun hjá matslækni Tryggingastofnunar ríkisins í maí 2019 og hafi þá fengið þrjú stig í líkamlega hlutanum og fjögur í þeim andlega við fyrra mat á örorku þann 20. maí 2019. Í kjölfarið hafi kæranda verið synjað um örorkustyrk og örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar. Um þá niðurstöðu hafi verið fjallað í máli úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 216/2019. Niðurstaða málsins hafi verið sú að nefndin hafi talið að veita bæri kæranda örorkustyrk og hafi sá styrkur verið veittur með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. ágúst 2019, með gildistíma 1. júní 2019 til 31. maí 2023. Við örorkumatið frá 30. september 2019 hafi örorkustyrkurinn verið látinn halda sér óbreyttur þrátt fyrir nýtt læknisvottorð sem hafi fylgt með umsókn kæranda, enda hafi læknar stofnunarinnar talið að það hafi ekki bætt neinu við það sem áður hafi verið komið fram um heilsu kæranda og fjallað hafi verið um í fyrra málinu. Þá hafi einungis fjórir mánuðir verið síðan kærandi hafi farið í skoðun hjá skoðunarlækni og þess vegna hafi hún ekki verið send í skoðun að nýju heldur hafi verið stuðst við þá læknisskoðun ásamt nýja læknisvottorðinu í málinu.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga þann 30. september 2019 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 26. september 2019, svör við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færniskerðingar, dags. 22. september 2019, umsókn, dags. 24. maí 2019, og starfsgetumat frá VIRK, dags. 10. september 2019. Þá hafi verið eldri gögn vegna fyrra mats á örorku, dags. 20. maí 2019, þ.e. læknisvottorð B, dags. 27. mars 2019, svör við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færniskerðingar, dags. 24. maí 2019, umsókn, dags. 24. maí 2019, ásamt skoðunarskýrslu læknis Tryggingastofnunar, dags. 15. maí 2019.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta staðalsins.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi almennt verið hraust fyrir utan stoðkerfisverki K59,9 í gegnum tíðina, mest í baki og fótum nú í seinni tíð. Hún hafi farið til bæklunarlæknis vegna fótaverkja sem hafi talið að um væri að ræða Morton´s metatarsalgiu (hnúður á taugum) G57,6 undir iljum tengt álagi í starfi og fleira. Í fyrra vottorði hafi bæklunarlæknir ekki talið að um skurðtækt mein væri að ræða eða að frekari sterasprautur gætu komið að gagni. Þó hafi verið tekið fram í nýjasta vottorðinu að nú sé fyrirhuguð skurðaðgerð hjá bæklunarlækni vegna þessara fótaverkja. Frá […] hafi verið viðvarandi ógleði og uppköst R11 hjá kæranda en að hún hafi þó ekki verið að missa þyngd. Kærandi hafi verið í uppvinnslu hjá heimilislæknum og hjá magasérfræðingi og talið sé að um starfræna truflun sé að ræða. Hún hafi skilið við maka sinn fyrir nokkrum árum og hafi þá tekið við tímabil uppkasta í nokkrar vikur, lyf hafi verið reynd sem hafi ekki gagnast. Kærandi sé með viðvarandi ógleði og þurfi að hlaupa til og kasta upp af og til, hún sé búin að vera mikið frá vinnu og treysti sér ekki lengur til vinnu. Kærandi neiti andlegri vanlíðan en beri þó einkenni kvíða og depurðar. Ekkert svoleiðis sem hún hafi áhyggjur af við skoðun eða sem sé að hefta hana andlega. Í skoðunarskýrslu skoðunarlæknis sé einnig tekið fram að flökurleiki og uppköst séu að hefta, en það hafi verið mikið áður en hún hafi hætt í vinnu og þá mikið frá vegna flökurleikans. Ástand hennar hafi í raun ekki lagast en vonandi batni ástandið. Kærandi sé í raun nokkuð hraust stoðkerfislega nema með fyrrgreinda Morton´s hnúta á iljum sem séu að hefta við gang, en það hindri hana ekki varðandi vinnumál nema að hluta til við lengri göngur samkvæmt fyrra læknisvottorði. Kærandi hafi verið andlega hraust en eitthvað merkt við atriði þar í skoðunarskýrslu vegna uppkasta, til dæmis að hún fari ekki út þótt hún sé ekki að einangra sig. Í nýja læknisvottorðinu sé einnig talað um kvíða og depurð en einnig talið að færni kæranda myndi aukast með tímanum, væntanlega bæði vegna breyttrar lyfjagjafar og fyrirhugaðrar skurðaðgerðar. Þá komi fram í sama vottorði að reynt hafi verið að sækja um í starfsendurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði en starfsendurhæfing á þeirra vegum hafi verið talin óraunhæf.

Skilyrði staðals um örorkulífeyri hafi ekki verið talin uppfyllt við mat á örorku og ekki heldur vegna örorkustyrks þann 20. maí 2019 sem fram hafi farið í kjölfar skoðunar hjá skoðunarlækni Tryggingastofnunar, dags. 15. maí 2019. Við skoðunina hafi kærandi fengið þrjú stig í líkamlega hlutanum og fjögur stig í þeim andlega. Þeirri ákvörðun hafi verið snúið að hluta í máli úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 216/2019 og í framhaldinu hafi verið veittur örorkustyrkur hjá Tryggingastofnun og hafi sú ákvörðun verið látin haldast óbreytt við nýja matið þann 30. september 2019.

Farið hafi verið að nýju yfir öll gögn málsins og þá sérstaklega hvort niðurstaða skoðunarskýrslu læknis Tryggingastofnunar væri í samræmi við önnur gögn málsins. Að þessum gögnum virtum telji stofnunin ekki að um ósamræmi sé að ræða.

Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi benda á að það sé mat skoðunarlæknis að líkamleg einkenni kæranda gefi þrjú stig samkvæmt matsstuðli vegna þess að kærandi geti ekki gengið upp og niður milli hæða án þess að halda sér.

Í andlega hluta skoðunarinnar hafi kærandi fengið fjögur stig vegna kvíða og streitu. Einnig ergi kærandi sig og svekki vegna þess að hún geti ekki unnið eins og áður. Þá komi geðrænt ástand kæranda vegna flökurleikans og uppkasta honum tengdum í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi sinnt áður.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri en veita örorkustyrk áfram hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn. Jafnframt skuli áréttað að kærð ákvörðun hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. september 2019, þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með nýrri umsókn kæranda um endurmat örorku frá 22. september 2019 fylgdi læknisvottorð B, dags. 26. september 2019. Samkvæmt vottorðinu er kærandi óvinnufær frá 4. október 2018 en mat B er að búast megi við að færni aukist með tímanum. Eftirtaldar sjúkdómsgreiningar eru tilgreindar í vottorðinu:

„[Depressive episode

Functional intestinal disorder, unspecified

Morton´s metatarsalgia

Ógleði / uppköst

Kvíðaröskun, ótilgreind]“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Almennt hraust áður fyrir utan stoðkerfisverki í gegnum tíðina og þá aðallega í baki og svo einnig í fótum í seinni tíð. Búin að fara í uppvinnslu hjá D bæklunarlækni vegna viðvarandi fótaverkja og taldi hann þetta vera Morton's metatarsalgia, eða blandaða mynd tengt álagi í starfi o.fl. […]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir vottorðinu:

„[Kærandi], sem er X árs að aldri, er einkum illa haldin af kvíða og depurð. Hún sefur mikið, finnur fyrir miklu vonleysi og framtaksleysi, eyðir heilu dögunum heima án þess að treysta sér út úr húsi, horfir mikið á sjónvarpið og kemur engu í verk. Kvartar áfram um mikla ógleði svo og uppköst, einkum þegar álagið eykst.

Hún fór á meðferð með Esopram fyrir rúmlega 4 vikum og finnur einhvern mun til hins betra hvað varðar kvíða og depurð en engan veginn nægilega mikið, að henni finnst. Það er því ákveðið að auka Esopram úr 10 mg í 15 mg á dag.

Hún er stöðugt illa haldin af viðvarandi ógleði og uppköst frá því í […], einkum ber á uppköstum ef álagið eykst með einhverju móti. Hún hefur ekki misst þyngd að ráði, […]. Er búin að fara í ítarlega uppvinnslu hjá læknum X sem og hjá C, meltingarsérfræðingi, sjá meðf. afrit af bréfum hans. Skv. nýju læknabréfi frá honum er hér um að ræða starfræna truflun í meltingarfærum að ræða.

[…]. Tekur nú Duspatalin sem hjálpar að einhverju leyti. Er þó alltaf með viðvarandi ógleði og þarf að hlaupa á klósett til að kasta upp af og til.

Til viðbótar framangreindu hafa fótaverkir hennar versnað svo mikið á sl. vikum að hún hefur verið meira og minna mjög illa haldin af verkjum og hefur D, því gefið henni tíma til aðgerðar í næsta mánuði.

Ákveðið var að sækja um starfsendurhæfingu fyrir hana hjá VIRK en henni var synjað um starfsendurhæfingu, þar sem starfsendurhæfing er ekki talin raunhæf.

[Kærandi] treystir sér engan veginn til vinnu og er að mati undirritaðs læknis svo C með öllu óvinnufær.

Með hliðsjón af framangreindu er óskað eftir hæstu leyfilegri örorku henni til handa vegna kvíða, þunglyndis og functionel meltingartruflana.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„[Kærandi] er mjög niðurdregin við skoðun og líður greinilega mjög illa, stutt í tárin. Ropar talsvert meðan á viðtalinu stendur.

Kvartar um verki í fótum.

BÞ 136/88. Hjarta- og lungnahlustun eðl. Kviður mjúkur. Talsverður panniculus. Kviður er mjúkur og eymslalaus. Ekki bjúgur.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 5. desember 2019, og þar koma fram sömu sjúkdómsgreiningar og í framangreindu vottorði, en að öðru leyti er það að mestu samhljóða eldra vottorði.

Einnig liggja fyrir eldri læknisvottorðs B, dags. 27. mars og 1. apríl 2019, og þar sem fram komu sömu sjúkdómsgreiningar ef frá eru talin ótilgreind kvíðaröskun og geðlægðarlota (depressive episode). Umfjöllun B um heilsuvanda og færniskerðingu í nýjasta vottorðinu eru mun ítarlegri en í eldri vottorðum hans. Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í læknisvottorði B frá 27. mars 2019:

„Nú viðvarandi ógleði og uppköst frá því í […]. Hefur ekki misst þyngd, segist narta í allan daginn og halda því einhverju niðri. Er búin að fara í ítarlega  uppvinnslu hjá læknum X sem og hjá C meltingarsérfræðingi. Skv. nýju læknabréfi frá honum er hér um að ræða starfræna truflun í meltingarfærum að ræða. […] Hún hefur reynt nokkur lyf. Tekur nú Duspatalin sem hjálpar að einhverju leyti. Er þó alltaf með viðvarandi ógleði og þarf að hlaupa á klósett til að kasta upp af og til. Er búin að vera mikið frá vinnu vegna þessa síðustu misseri og teystir sér nú ekki lengur til vinnu. Neitar andlegri vanlíðan að öðru leyti en svo að hún er orðin mjög leið á því að vera stöðugt með ógleði og að kasta upp.“

Fyrir liggur starfsendurhæfingarmat VIRK, dags. 17. september 2019, þar sem fram kemur að líkamlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda með eftirfarandi rökstuðningi:

„Viðvarandi ógleði og oft vart að treysta sér útúr húsi. Inn á milli að kasta upp. Á erfitt með gang, sérstaklega í stigum og haltrar. Einnig með dreifð stoðkerfiseinkenni, verst í hálsi með leiðni niður í bak. Takmarkað álagsþol og heimilisstörf erfið.“

Þá kemur fram í matinu að andlegir þættir hafi lítil áhrif á færni kæranda og að um sé að ræða vonleysi hjá henni. Í samantekt og áliti E læknis segir í starfsendurhæfingarmatinu:

„X árs gömul kona sem hefur verið óvinnufær í tæpt ár. Hafði þá þurft að vera mikið frá vinnu vegna viðvarandi ógleði og að kasta upp inn á minn á milli. Verið mikið rannsökuð, meðal annars farið í speglanir og segulómun án þess að skýringar hafi fundist. Margskonar lyfjameðferð einnig reynd án árangurs. Samkvæmt læknabréfi túlkað sem starfræn truflun. Hefur einnig verið slæm í fótum, með Morton´s metatarsalgiu og fyrirhugað að fari í aðgerð fljótlega. Á orðið erfitt með gang, sérstaklega í stigum og haltrar. Einnig með dreifð stoðkerfiseinkenni, verst í hálsi með leiðni niður í bak. Takmarkað álagsþol fyrir hendi og heimilisstörf erfið. Vegna ógleðinnar oft vart að treysta sér út og farin að einangrast félagslega. Vonleysi til staðar, margt verið reynt án mikils árangurs.

M.ö.o. hamlandi einkenni og mat undirritaðs að starfsendurhæfing sé ekki raunhæf á þessum tímapunkti. […]“

Við örorkumatið lágu fyrir tveir spurningalistar með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins, annars vegar í tengslum við fyrri umsókn hennar og hins vegar í tengslum við umsókn um endurmat. Í fyrri spurningalistanum lýsir kærandi heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða stöðugan flökurleika og Morton‘s metatarsalgia. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að hún sé með viðvarandi fótaverki og að talið sé að um sé að ræða Morton‘s metatarsalgia, að sögn D bæklunarlæknis. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að það sé stundum erfitt að ganga niður stiga vegna Morton‘s metatarsalgia. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða neitandi.

Í seinni spurningalistanum með svörum kæranda vegna færniskerðingar lýsir hún heilsuvanda sínum þannig að um sé að ræða stoðkerfisfærni og flökurleika. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að standa upp af stól þannig að hún þurfi að styðja sig við til að standa upp. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa, taka smáhlut upp af gólfinu og rétta sig upp þannig að hún þurfi að styðja sig við og eigi erfitt með að krjúpa. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að standa þannig að hún geti ekki staðið lengi í einu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga þannig að hún fari ekki langt í einu vegna verkja í fótum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum við að ganga upp og niður stiga þannig að hún eigi í erfiðleikum með að fara upp stiga og eigi í meiri erfiðleikum með að fara niður stiga. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að lyfta og bera þannig að það fari eftir þyngd hluta. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi.

Skýrsla F skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 15. maí 2019. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki gengið upp og niður milli hæða án þess að halda sér. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik. Að mati skoðunarlæknis kýs kærandi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Að mati skoðunarlæknis kvíði kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna og að geðrænt ástand komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 216/2019 var farið ítarlega yfir skoðunarskýrsluna og nefndin taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Það var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk þrjú stig úr þeim hluta staðals sem varðaði líkamlega færni og fjögur stig úr andlega hlutanum þá uppfyllti hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat.

Fyrir liggur að með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 216/2019 frá 28. ágúst 2019 staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2019, um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en féllst á að hún uppfyllti skilyrði örorkustyrks. Kærandi sótti um örorkulífeyri á ný með umsókn 22. september 2019 og var læknisvottorð B, dags. 26. september 2019, lagt fram í tengslum við þá umsókn. Í því vottorði kemur fram að fótaverkir kæranda hafi versnað umtalsvert frá fyrra vottorði. Í fyrra vottorði B kemur fram að kærandi neiti andlegri vanlíðan en í vottorðinu frá 22. september 2019 er greint frá því frá því að kærandi sé haldin kvíða og depurð, hún sofi mikið, finni fyrir miklu vonleysi og framtaksleysi, hún eyði heilu dögunum heima án þess að treysta sér út úr húsi, hún horfi mikið á sjónvarpið og komi engu í verk. Þá er greint frá því að kærandi sé byrjuð á lyfjagjöf vegna þessara vandamála. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að þrátt fyrir að ekki sé langt síðan skoðunarlæknir skoðaði kæranda síðast sé rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli að undangenginni læknisskoðun.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. september 2019, um að synja kæranda um breytingu á gildandi mati. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um breytingu á gildandi örorkumati, er felld úr gildi. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til mats á örorku kæranda.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum