Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Samkeppniseftirlitið telur greiðsluþátttökukerfi lyfja ekki hindra samkeppni

Lyfjaafgreiðsla
Lyfjaafgreiðsla

 Samkeppniseftirlitið hefur lokið umfjöllun um erindi Öryrkjabandalags Íslands sem óskaði eftir athugun á því hvort reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggingum í lyfjakostnaði færu gegn markmiðum samkeppnislaga. Stofnunin telur svo ekki vera og segir reglugerðina hafa aukið jöfnuð sjúkratryggðra.

Öryrkjabandalagið beindi erindi sínu til Samkeppniseftirlitsins í maí 2013 um að stofnunin kannaði hvort ákvæði 6. gr. reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði fæli í sér óhæfilegar hindranir og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri og gengi þannig gegn markmiði samkeppnislaga. Taldi Öryrkjabandalagið líkur á því að reglugerðin stæði í vegi fyrir því að afslættir sem apótek veittu af lyfjum kæmu viðskiptavinum þeirra til góða á sama hátt og áður vegna þess að ekki væri hægt að veita afslátt af hlut sjúklings í lyfinu, heldur nytu sjúkratryggingar einnig afsláttarins ef reglur kvæðu á um opinbera greiðsluþátttöku.

Afstaða Samkeppniseftirlitsins liggur nú fyrir og segir m.a. í bréfi stofnunarinnar til ráðuneytisins , dags. 2. feb. sl. að eftir sem áður hafi apótek tök á því að keppa í verði og þjónustu.

Í bréfi Samkeppniseftirlitsins segir að leiða megi líkur að því að breytingarnar á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í lyfjakostnaði hafi að einhverju leyti dregið úr hvata lyfsala til að veita viðskiptavinum sínum afslátt af þeim hluta í lyfjaverði sem þeir eiga að greiða, þegar Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta lyfjaverðsins. Á hitt beri þó að líta að fyrir kerfisbreytinguna hafi ekki allir sjúkratryggðir einstaklingar notið afsláttar af lyfjaverði eða setið við sama borð í þeim efnum.

Aukinn jöfnuður og bætt staða þeirra sem þurfa mikið af lyfjum

Samkeppniseftirlitið segir í bréfi sínu til ráðuneytisins að almennt gæti nú meiri ánægju en áður hjá sjúklingum með greiðsluþátttökukerfið, verulega hafi dregið úr gagnrýni á kerfisbreytinguna með fenginni reynslu, hún hafi leitt til aukins jöfnuðar hjá þeim sem eru sjúkratryggðir  og að þeir sem þurfi að nota mikið af lyfjum séu betur settir eftir breytinguna.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist fagna niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins, ekki síst þar sem fram komi skýrt álit þess efnis að lyfjagreiðslukerfið hafi stuðlað að auknum jöfnuði meðal lyfjanotenda og bætt hag þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira